Festi hf. er félag skráð á hlutabréfamarkaði og að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða. Til undirbúnings aðalfundi félagsins er starfrækt svokölluð tilnefningarnefnd sem á að finna heppilegustu frambjóðendur til stjórnar félagsins. Mér lék hugur á að vita meira um starfsemi tilnefningarnefndarinnar, ekki vegna þess ég hafi áhuga á að verða tilnefndur, heldur vegna þess að hér um að ræða eitt stærsta fyrirtæki landsins og í eigu almennings bæði beint og óbeint.
Því sendi ég tilnefningarnefndinni eftirfarandi erindi:
- Hver tilnefndi þá einstaklinga sem nú sitja í tilnefningarnefndinni?
- Hvernig er nefndin kjörin/skipuð?
- Hvað fá einstakir nefndarmenn greitt fyrir störf sín í nefndinni?
- Hver ákveður upphæð greiðslunnar?
- Flettir tilnefningarnefndin upp í skýrslum rannsóknarnefnda Alþingis um hrunið þegar mat er lagt á hverjir eru tilnefndir til stjórnarsetu og skoðar umfjöllun um viðkomandi þar?
- Má búast við að nefndin tilnefni til stjórnarsetu einstaklinga sem í fyrri störfum sínum áttu hlut að því að verulegir fjármunir fóru forgörðum þ.á.m. fjármunir lífeyrissjóða þó viðkomandi hafi ekki verið kærður eða hlotið dóm fyrir?
- Hver er aðkoma forstjóra félagsins og fráfarandi stjórnar að starfi nefndarinnar?
- Var það núverandi tilnefningarnefnd sem tilnefndi fráfarandi stjórnarformann til stjórnarsetu?
Fljótlega barst svar frá formanni nefndarinnar sem kvaðst ekki mundu veita mér umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir að:
- hér sé um að ræða félag þar sem formaður stjórnar félagsins varð nýlega uppvís að ótilhlýðilegri framkomu við unga konu og
- þetta sama félag afvegaleiddi opinbera aðila til að láta þá færa sér viðskiptavini á silfurfati til þess að geta okrað á þeim.
Þetta er félag sem telur sig rísa undir nafni sem almenningshlutafélag þar sem það er skráð á hlutabréfamarkað, aukinheldur að almenningur er í reynd eigandinn, svo félaginu ætti að vera kappsmál að veita sem mestar og gleggstar upplýsingar um starfsemi sína.
Hrunverjaklíka
Í leiðara Kjarnans 21. jan. sagði um Festi h.f.:
„Þrír einkafjárfestar eru á meðal 20 stærstu hluthafa. Félag í eigu Hreggviðs Jónssonar, sem er líka á meðal þeirra sem eru ásakaðir um að brjóta gegn konunni, á 1,9 prósent hlut. Hreggviður var stjórnarformaður Festi áður en Þórður Már, vinur hans, tók við því starfi. Félag Bjarna Ármannssonar, vinar Þórðar Más sem hefur stundað fjárfestingar með honum, á 1,6 prósent hlut. Og félag Þórðar Más á tæplega 1,6 prósent. Samanlagður eignarhlutur þeirra er því rétt rúmlega fimm prósent. Altalað er í viðskiptalífinu að þessi hópur hafi haft tögl og hagldir í Festi á undanförnum árum. Þórður Már fór þó ekki frá fyrr en málið hafði verið opinberað í fjölmiðlum. Vitneskja hafði þá verið um það innan stjórnar Festi og á meðal sumra sjóðanna í margar vikur án þess að brugðist væri við af krafti.“
Því miður eru engin teikn á lofti um breytingu í starfsháttum og framkomu félagsins og síst er þess að vænta þegar formaður umræddrar tilnefningarnefndar telur sig ekki þurfa að svara fyrrgreindum spurningum.
Líkt og spurt var í leiðara Kjarnans þá hljótum við sem eigum þetta fyrirtæki að spyrja hvers vegna þetta viðgangist? Hvers vegna er það látið átölulaust að einstaklingar sem með störfum sínum fyrir hrun stuðluðu að milljarða tapi lífeyrissjóða, sem margir hverjir þurftu að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga um tugi prósenta, skulu kallaðir til starfa og valdir til æðstu metorða í fyrirtækjum í eigu þessara sömu lífeyrissjóða?
Svarið er skortur á samstöðu lífeyrissjóða við val á þeim einstaklingum sem setjast í stjórnir félaga á borð við Festi. Reyndar er það ekki alveg rétt því lífeyrissjóðirnir eru að því er virðist nokkuð samstíga um að láta þetta viðgangast átölulaust.
Guðrún Johnsen lektor segir í nýlegri grein í Vísbendingu:
Sem hluthafar í skráðum og óskráðum fyrirtækjum hafa lífeyrissjóðirnir ríka ábyrgð. Í krafti eignarhalds síns hafa þeir slagkraft til að tilnefna stjórnarmenn, kalla til hluthafafundar og krefja stjórnendur svara um hin ýmsu atriði, greiða atkvæði á hluthafafundum, móta samþykktir fyrirtækja og eftir atvikum aga stjórnendur með því að sjá til þess að lög og réttindi hluthafa séu virt.
Nauðsynlegt er að kortleggja með reglulegu millibili virkni lífeyrissjóða sem hluthafa til að kanna hvort lagaleg umgjörð dugar til að tilgangur sjóðanna nái fram að ganga þegar kemur að því að standa vörð um að langtímahagsmunir sjóðfélaga og minnihlutaeigenda.
Ójöfnuður auðs og tekna hefur aukist um allan hinn vestræna heim og nálgast í sumum löndum hratt þá stöðu sem uppi var um þar síðustu aldamót... Þess vegna hafa augu fólks m.a. beinst að lífeyrissjóðunum á ný um að þeir sinni upprunalegum tilgangi sínum af einurð og beiti afli sínu sem hluthafar og fjármagnseigendur, svo að stjórnendur og iðnrekendur stundi heilbrigða og sjálfbæra viðskiptahætti, ásamt því að tryggja öruggan lífeyri eftir starfslok.
Er ekki kominn tími til að tengja svo lífeyrissjóðir átti sig á ábyrgð sinni?
Höfundur er hagfræðingur.