Ár eftir ár er verið að benda á þolmarkadag Jarðar þar sem mannkynið er búið að nota meira af auðlindum en Jörðin gæti endurnýjað á sama ári. Í ár er sá dagur í dag, 28. júlí og hefur aldrei áður verið eins snemma árs. Héðan í frá og út árið lifum við á kostnað náttúrunnar, á kostnað þeirrar sem líða skort og á kostnað barna, barnabarna og barnabarnabarna okkar.
Ár eftir ár verður augljósara hvert stefnir og hversu gífurlegar afleiðingar okkar arðrán hefur bæði á náttúruna, aðrar lífverur og fyrir okkur sjálf. Nú eru afleiðingar ekki einungis áþreifanlegar í fjarlægum löndum heldur hafa fært sig nær okkar hér í vestrænum löndum með hitabylgjum, skógareldum, þurrkum, vatnsskorti og flóðum.
Ár eftir ár er verið að krefjast breytinga og aðgerða og ár eftir ár tala stjórnmálamenn um væntanlegar aðgerðir og áætlanir sem eiga að leysa vandann, en ekki núna strax heldur eftir einhver ár – og færa þar með ábyrgðina og áætlaðar aðgerðir áfram í tíma til að þurfa ekki að taka á málunum af festu núna. Áætlanir þeirra taka yfirleitt heldur ekki nóg á rót vandans til að stöðva ósjálfbæra framleiðsluhætti, arðrán á náttúrunni og þeim sem minna mega sín, óseðjandi neyslumenningu og óréttlæti. Varla finnast lög og reglur sem eiga að breyta verulega framleiðsluháttum og neyslubrjálæði. Í staðinn telja þeir sjálfum sér og okkur trú um að það væri nóg að minnka aðeins mengun, losun gróðurhúsalofttegunda og röskun vistkerfa við hverja einingu framleidda eða við hverja athöfn án þess að stefna að því að minnka stórlega fjölda eininga sem eru framleiddar og fækka athöfnum. Slíkt getur frekar kallast grænþvottur frekar en alvöru aðgerðir.
Ár eftir ár breytist lítið til hins betra og ástandið versnar bara og ár eftir ár höldum við áfram að lifa lífinu eins og ekkert sé að og færum vandamálin fram til framtíðar, í hendur barnanna okkar. Við vitum nóg um orsakir, afleiðingar og nauðsynlegar aðgerðir. Er ekki komið nóg af tali og aðgerðaleysi? Brettum upp ermarnar og látum í okkur heyra. Krefjum stjórnvöldin um alvöru aðgerðir strax! Á meðan við hvert og eitt verðum að minnka okkar eigið vistspor og breyta okkar lifnaðarháttum verða stjórnvöld að sjá um róttækar kerfisbreytingar. Slíkar væru m.a. breytingar á stjórnarskránni, lögum og reglum sem geta sett takmörk á þessa gífurlegu ágengni og arðrán okkar á móðir Jörð sem við höfum hvorki siðferðislega leyfi til né efni á ef við viljum ekki stefna okkur sjálfum í hættu.
Ár eftir ár hefur þolmarkadagur Jarðar færst framar á árinu – við verðum að láta árið 2023 markar upphaf á verulegum breytingum á því og seinka þolmarkadeginum með því að fara í nauðsynlegar breytingar og aðgerðir strax í dag!
„Lifðu einfalt svo aðrir geti einfaldlega lifað.“ (Móðir Teresa)
Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd