Hver var staða íslensks alþýðufólks þegar fyrsti útifundurinn og kröfugangan í tilefni 1. maí fór fram í Reykjavík árið 1923?
- Enn voru í gildi harðneskjuleg fátækralög: fólk sem þurfti hjálp frá hinu opinbera missti nær öll borgaraleg réttindi og gat þurft að sæta því að vera flutt nauðugt milli landshluta. Fjölskyldum var sundrað og lögregla jafnvel látin vakta hús og elta uppi þá sem flytja átti nauðungarflutningi.
- Verkamenn þurftu að vinna myrkranna á milli til að hafa í sig og á.
- Engar almennar sjúkra-, atvinnuleysis- og ellitryggingar voru til staðar svo fólk lifði í eilífum ótta um afkomu sína.
- Allir sem þegið höfðu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum, svo sem vegna atvinnuleysis, elli, fötlunar eða heilsubrests, voru útilokaðir frá því að kjósa í bæjarstjórnarkosningum, kosningaaldur miðaðist við 25 ár og það var ekki kosið utan kjörfundar svo sjómenn gátu fæstir kosið.
1. maí 1923 var virkur dagur og fólk þurfti að fara úr vinnu til að taka þátt í göngunni, en þrátt fyrir hótanir og kergju atvinnurekenda fjölmennti verkafólk á fundinn þar sem var meðal annars kallað eftir styttri vinnutíma, mannsæmandi kjörum fyrir atvinnulausa, viðunandi húsnæði fyrir alla, að óhæfir menn létu af embætti og komið yrði á réttlátari kjördæmaskipan.
Aðalræðumaður var Akureyringurinn Ólafur Friðriksson sem hafði kynnst jafnaðarstefnunni á námsárum sínum í Kaupmannahöfn, hlustað á leiðtoga danskra sósíaldemókrata halda ræður og æft sig í ræðumennsku hjá málfundafélögum verkamanna og marxista. Árið 1910 sótti hann þing Alþjóðasambands jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn ásamt 900 öðrum, meðal annars breska sósíalistaforingjanum Keir Hardie og hinum franska Jean Jaurès, svo ekki sé minnst á Rósu Luxemburg, Lenín og Trotský.
Ólafur flutti til Íslands 1914, fyrst í heimabæ sinn Akureyri þar sem hann stofnaði fyrsta jafnaðarmannafélagið á Íslandi en svo suður til Reykjavíkur þar sem hann gerðist ritstjóri Dagsbrúnar, vikublaðs sem gefið var út af verkalýðsfélögum í Reykjavík og Hafnarfirði. Á forsíðu fyrsta Dagsbrúnarblaðsins árið 1915 skrifaði hann:
Jöfnuður sá er við viljum koma á er að allir, hvert einasta mannsbarn sem fæðist hér á landi, hafi jafnt tækifæri til þess að þroska og fullkomna alla góða og fagra meðfædda hæfileika (og við viljum að allir geti það) svo að þeir geti lifað ríkara og hamingjusamara lífi, og hver einstaklingur unnið þjóðinni í heild sinni meira gagn. [...] Með okkur verður öll alþýða, bæði við sjó og í sveitum. Móti okkur þeir sem hafa hag af fátækt alþýðu, þeir sem hafa hag af því að kaupið sé sem lægst eða húsaleigan sem hæst.
Í sömu grein kallaði hann eftir sterkari verkalýðshreyfingu, útrýmingu fátæktar, réttlátara skattkerfi, auknum félagslegum rekstri og skattlagningu landrentu.
Við getum lesið Þórberg Þórðarson og Tryggva Emilsson til að átta okkur á því hvers konar eymd og andlega niðurlægingu þorri fólks bjó við á þessum tíma. Alþýðufólk mátti sín lítils gagnvart ofurvaldi stórkapítalista og stjórnmálamanna sem þjónustuðu hina fáu og fjársterku á kostnað fjöldans.
Kúgunarkerfið breyttist ekki af sjálfu sér. Það kom í hlut verkalýðshreyfingarinnar og jafnaðarmanna að knýja fram breytingarnar sem við njótum enn góðs af. Þetta var barátta fyrir bættum kjörum en líka barátta fyrir lýðræði og frelsi. Gleymum því aldrei þegar hægrimenn reyna að eigna sínum hugmyndaarfi þau pólitísku og borgaralegu réttindi sem við njótum í dag. Víða var almennur kosningaréttur afsprengi harkalegrar verkalýðsbaráttu og sögulega hefur það fyrst og fremst verið verkefni jafnaðarmanna og verkalýðshreyfinga í Evrópu að útvíkka og verja þessi réttindi.
Íhaldsöflin gerðu allt hvað þau gátu til að hindra breytingarnar sem verkalýðshreyfingin og jafnaðarmenn börðust fyrir. Tökum nokkur dæmi frá millistríðsárunum:
- Þegar Jón Baldvinsson, fyrsti þingmaður Alþýðuflokksins, lagði fram hvert þingmálið á fætur öðru um að sveitastyrkþegar fengju kosningarétt stóðu íhaldsþingmenn eins og klettur gegn þeirri kröfu.
- Það sama var uppi á teningnum þegar Jón reyndi að fá því versta úr fátækralögunum hnekkt, meðal annars nauðungarflutningum. Meirihluti allsherjarnefndar Alþingis taldi „óheppilegt að hrapa fljótlega að stórfeldum breytingum á fátækralögunum“ að því er fram kom í nefndaráliti undirrituðu af Jóni Þorlákssyni sem síðar varð fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins. „Mun afleiðingin verða sú, að menn almennt verða miklu stórtækari til sveitarsjóðanna en áður ef styrkurinn hefir ekki lengur neinn rjettindamissi í för með sjer,“ skrifaði hann.
- Þegar Jón Baldvinsson lagði fram frumvarp nokkrum árum síðar um að útgerðarmönnum yrði skylt að tryggja muni og fatnað skipverja sem lenda í sjávarháska var það stöðvað af meirihluta sjávarútvegsnefndar Alþingis með stórútgerðarmanninn Ólaf Thors, sem síðar varð einmitt líka forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins, í broddi fylkingar.
- Íhaldsmenn vöruðu eindregið við lögunum um verkamannabústaði árið 1929 og kusu gegn þeim. Þeir töldu að uppbygging félagslegs húsnæðis í Reykjavík myndi „örva brottflutning úr sveitunum“. Það væri óábyrgt að „teygja fólk í kaupstaðina með loforðum um ódýrar íbúðir með öllum nútímaþægindum“. Eins og við þekkjum var svo verkamannabústaðakerfinu rústað í upphafi þessarar aldar af ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
- Atvinnuleysistryggingar voru eitur í beinum stórkapítalista og fulltrúa þeirra á löggjafarsamkundunni, enda áttuðu þeir sig manna best á þeirri hættu sem slík valdefling atvinnuleitenda fæli í sér fyrir eigendur framleiðslutækjanna. „Við sjálfstæðismenn leggjum[st] á móti atvinnuleysistryggingum,“ sagði Thor Thors, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, árið 1935. „Það er beinlínis lagt fram fé til þess að viðhalda atvinnuleysinu með þvi að leggja fram fé til svokallaðra atvinnuleysistrygginga,“ sagði samflokksmaður hans. „Miðar það til þess að dreifa sjálfsbjargarhvöt manna og þeir reyna síður að sjá sjálfum sér farborða til hins ýtrasta,“ sagði sá þriðji.
- Þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn lögunum um slysatryggingar, sjúkratryggingar, elli- og örorkutryggingar, og raunar voru alvöru atvinnuleysistryggingar ekki lögfestar á Íslandi fyrr en með verkföllum og þrýstingi verkalýðssamtaka árið 1955, en þá höfðu sósíalistar tólf sinnum flutt frumvarp um málið án árangurs.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar, gríðarlegir sigrar unnist og fólk hefur það miklu betra í dag en fyrir 100 árum. Í grunninn snýst samt barátta launafólks og jafnaðarmanna enn um sömu grundvallaratriðin og enn kemur harðasta andstaðan frá þeim sem „hafa hag af því að kaupið sé sem lægst eða húsaleigan sem hæst“.
Ég hef vikið hér að ýmsum átakamálum á fyrri hluta 20. aldar. Kröfum um réttlátt skattkerfi og rentuskatt, styttri vinnuviku, mannsæmandi húsnæði og húsnæðisöryggi, traustar almannatryggingar og bætur gegn atvinnuleysi, jafnt vægi atkvæða, útrýmingu fátæktar, lýðræðisumbætur, að landinu sé ekki stjórnað af óhæfum mönnum, frelsi og mannlega reisn fyrir þá sem lakast standa og margt fleira. Og enn í dag tökumst við á um sömu málefnin.
- Íslenska tekjuskattskerfið er það flatasta á Norðurlöndunum og hyglar þannig hátekju- og stóreignafólki á kostnað lágtekju- og millitekjufólks. Að sama skapi eru fjármagnstekjuskattar lægri en víðast hvar á Vesturlöndum og engir heildareignaskattar innheimtir.
- Rentan af auðlindum okkar rennur að verulegu leyti til fámenns hóps á kostnað samfélagsins. Ráðandi stjórnmálaöfl standa vörð um óbreytt fyrirkomulag í sjávarútvegi þar sem kvóta er úthlutað langt undir markaðsverði, meirihlutanum til fárra nátengdra fyrirtækja sem enn eiga sína tryggu hagsmunaverði á Alþingi.
- Stytting vinnuvikunnar heldur áfram, þökk sé baráttu verkalýðshreyfingarinnar og frumkvæði Reykjavíkurborgar.
- Hagnaðardrifin leigufélög lýsa áhyggjum af félagslegri húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík, viðleitni stéttarfélaga og félagshyggjuflokka til að endurreisa verkamannabústaðakerfið.
- Óhæfir ráðamenn, rúnir trausti eftir að hafa verið staðnir að ótrúlegasta dómgreindarleysi, ósannindum og spillingu, sitja sem fastast í embætti (jafnvel í skjóli stjórnmálaflokka sem kenna sig við vinstristefnu).
- Forystumaður í ríkisstjórn lagðist gegn því að atvinnuleysisbætur væru hækkaðar með sams konar rökum og forverar hans í sama flokki, með vísan til óæskilegra hvata og að slíkt myndi valda „ákveðinni bjögun“. Annar ráðherra leggst gegn útvíkkun atvinnuleysistrygginga til námsmanna á sömu forsendum, fúll yfir að „allir vilji fá fjármagn fyrir að gera ekki neitt“.
- Enn halda karlar að langmestu leyti um veskið í íslensku efnahagslífi og enn hallar verulega á konur í allri stefnumótun og forgangsröðun á sviði ríkisfjármála.
- Kjördæmaskipan helst óbreytt og alvöru lýðræðisumbætur hafa verið settar á ís. Þess er líka kyrfilega gætt að lýðræðið taki aðeins til afmarkaðra þátta þjóðlífsins. Til að mynda er vinnustaðalýðræði og aðkoma starfsmanna að stjórnun fyrirtækja enn miklu skemur á veg komin hérlendis en annars staðar í Vestur-Evrópu en krafa stéttarfélaga og jafnaðarmanna um að þessu verði breytt verður sífellt háværari.
- Mörg af tekjutilfærslukerfunum okkar eru veikari og skerðingarnar skarpari en á hinum Norðurlöndunum, enda hafa jafnaðarmannaflokkar haft talsvert meiri og varanlegri áhrif á samfélagsgerðina þar en á Íslandi. Sem dæmi má nefna að meðaltekjufjölskyldan á Íslandi fær um 1/100 af barnabótum meðaltekjufjölskyldunnar í Danmörku.
- Kjaragliðnunin milli lágmarkskjara lífeyrisþega og launafólks heldur áfram ár eftir ár og bitnar harðast á öryrkjum og tekjulitlum eldri borgurum sem gjarnan festast í fátækt.
- Fátækralögin heyra sögunni til en þeir sem þurfa á aðstoð að halda úr opinberum sjóðum þurfa enn að una því að brotið sé gegn borgararéttindum þeirra. Nú tíðkast líka annars konar nauðungarflutningar þar sem viðkvæmir hópar sem leita eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi eru fluttir í óviðunandi aðstæður (ljótasta dæmið á yfirstandandi kjörtímabili er kannski þegar kona langt gengin með barn var neydd í 19 klukkustunda flugferð þvert gegn læknisráði).
- Eftirlitsstofnanirnar okkar – sem verja okkur gegn fákeppni á mörkuðum, skattsvikum þeirra ósvífnustu og yfirgangi þeirra stærstu og fjársterkustu – eru veiktar með kerfisbundnum hætti, nú síðast með niðurlagningu embættis skattrannsóknarstjóra.
1. maí er ágætis tilefni til að minna okkur á að stóru viðfangsefni stjórnmálanna í dag, og þau sem skipta mestu um lífskjör fólks, eru hægri/vinstri spurningar. Til dæmis þessar:
- Hvernig dreifum við afrakstrinum af vinnu og verðmætasköpun samfélagsins með sanngjörnum hætti og hvernig viljum við að ríkisvaldið beiti sér í því verkefni?
- Hversu langt eru stjórnmálamenn tilbúnir að ganga til að tryggja launafólki aukna hlutdeild í framleiðniaukningu atvinnulífsins á kostnað fyrirtækjaeigenda og hvernig ætlum við að fara að?
- Hvernig tryggjum við að þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda bitni ekki á tekjulágum og viðkvæmum hópum?
- Hvernig viljum við beita hinu opinbera til að skapa góð störf, auka verðmætasköpun og fjölga útflutningsstoðum? Ætlum við að sætta okkur við áframhaldandi fjöldaatvinnuleysi jafnvel löngu eftir að framleiðsluslakinn er farinn úr hagkerfinu?
- Hvernig verður byrðunum skipt í hinni efnahagslegu endurreisn eftir kórónufaraldurinn? Ætlum við að verja almannaþjónustuna eða skera hana niður? Hvernig eiga tekjur og gjöld að þróast? Viljum við beita skattkerfinu til að draga úr þenslu? Hvaða stjórnmálaöfl hafa viljann og hugrekkið til að hækka skatta á ofureignir, hæstu tekjur og auðlindarentu?
- Viljum við að fjármálastefna næstu ára miði öll að því að þjóðarbúið haldi sig innan tiltekins skuldahlutfalls hins opinbera á tilteknum tíma, eða viljum við endurskoða stefnuna í takt við nýja strauma í hagfræði og viðmiðaskipti sem við sjáum víða í Evrópu og Bandaríkjunum; hafna fjársveltistefnunni og leggja allt kapp á að tryggja fulla nýtingu framleiðsluþátta þannig að tekjur þjóðarbúsins vaxi á sjálfbæran hátt næstu árin?
Eitt er víst. Til að halda áfram að ná árangri þurfum við kraftmikla stéttabaráttu, bæði á vettvangi stjórnmála og vinnumarkaðar. Samstaða jafnaðarmanna og verkalýðshreyfinga mun áfram leika lykilhlutverk í að verja þann árangur sem náðst hefur, berja í brestina í samfélagsgerðinni okkar og vinna nýja glæsta sigra.
Höfundur er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar og MSc. í sagnfræði og evrópskri stjórnmálahagfræði.