Mynd: 123rf.com

Peningum á Íslandi er áfram sem áður stýrt af körlum

Áttunda árið í röð framkvæmdi Kjarninn úttekt á því hver kynjahlutföll séu á meðal þeirra sem stýra peningum á Íslandi. Fyrirtækjunum sem úttektin náði til fjölgaði lítillega á milli ára og samsetning þeirra breyttist aðeins. En niðurstaðan er áfram sú sama: Karlar halda að langmestu leyti um veskið í íslensku efnahagslífi.

Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki gert jafnréttismálum í heiminum neina greiða. Í skýrslu World Economic Forum um kynjajafnrétti, sem kom út í lok síðasta mánaðar, er fjallað er um kynbundinn ójöfnuð í 156 ríkjum heims.

Heildarniðurstaða hennar er sú að  kynbundinn ójöfnuður, reiknaður út frá 14 breytum, hafi aukist verulega á síðasta ári eftir að hafa minnkað hægt mörg ár þar á undan. Niðurstaða skýrslunnar sem kom út árið 2020 var að fullur jöfnuður myndi nást milli kynja eftir 99,5 ár. Í nýju skýrslunni er sá munur kominn upp í 136,6 ár. 

Ísland er það land sem trónir á toppi listans yfir kynjajafnrétti. Konur njóta 89,2 prósent af þeim gæðum sem karlar njóta, að jafnaði. 

Lengst í lands innan fjármálageirans

Heimsmeistarinn í kynjajafnrétti á þó nokkuð í land á ýmsum sviðum. Í skýrslu World Economic Forum er til að mynda minnst á að hérlendis sé enn umsvifamikill kynbundinn launamunur. Óleiðréttur launamunur kynjanna var til að mynda 33 prósent í þeirri atvinnugrein þar sem hann var mestur árið 2019, sem var í fjármála- og vátryggingarstarfsemi. 

Auglýsing

Vegna þessarar stöðu þá hefur verið reynt að grípa til þvingandi aðgerða til að leiðrétta þessa skekkju, fyrst markaðurinn var ekki að sýna neinn vilja til að leiðrétta hann sjálfur.

Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á Íslandi voru samþykkt árið 2010. Þau tóku að fullu gildi í september 2013. Lögin segja að fyrirtækjum sem eru með 50 eða fleiri starfsmenn þurfi að tryggja að hlutfall hvors kyns sé ekki undir 40 prósentum. Markmiðið með lagasetningunni var að „stuðla að jafnari hlutföllum kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum.“

Rúmur áratugur án árangurs

Von þeirra sem samþykktu frumvarpið – 32 þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum sem áttu þá sæti á þingi – var að fleiri konur í stjórnum myndi leiða til þess að fleiri konur yrðu ráðnar í stjórnunarstöður og það myndi fjölga tækifærum kvenna.

Hagstofa Íslands tekur árlega saman tölur um hversu margar konur sitji í stjórnum fyrirtækja. Stofnunin birti nýjust tölur sínar, sem sýna stöðuna í lok 2020, í síðustu viku. Þar kom fram að rúmlega fjórðungur, 26,5 prósent, allra stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum væru konur. Það hlutfall var 24 prósent árið 2010. 

Í fyrirtækjum með fleiri en 50 launþega var hlutfall kvenna í stjórnum 19,5 prósent árið 2010. Árið sem lögin tóku gildi var hlutfallið orðið 30,2 prósent. Frá þeim tíma hefur lítið gerst. Hlutfallið var 34,1 prósent í fyrra.

Auglýsing

Markmið laganna hefur því aldrei náðst. Hvorki það hlutfall stjórnarmanna sem þau segja til um né þau afleiddu áhrif að konum í stjórnunarstöðum myndi fjölga mikið vegna tilkomu þeirra. Hlutfall framkvæmdastjóra í íslenskum fyrirtækjum sem eru konur er nú 23,3 prósent. Það var 20 prósent árið 2010 þegar lögin voru sett. 

Áttunda árið og nánast alltaf sama niðurstaðan

Kjarninn hefur framkvæmt úttekt á því hvers kyns þeir sem stýra fjármagni á Íslandi eru árlega frá 2014. Úttektin nú er því sú áttunda sem framkvæmd hefur verið.

Í ár nær hún til 100 æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, verðbréfasjóða,  sérhæfðra sjóða, orkufyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. 

Af þeim eru 89 karlar en ellefu konur. Hlutfall kvenna sem stýra peningum á Íslandi dregst því saman á milli ára, úr 13,5 í ellefu prósent. Frá því að Kjarninn gerði úttektina fyrst hefur konunum sem hún nær til fjölgað úr sex í ellefu. Körlunum hefur hins vegar fjölgað um sjö.

Þessi hópur sem fellur undir úttektarskilyrðin stýrir samtals þúsundum milljarða króna og velur í hvaða fjárfestingar þeir peningar rata hverju sinn, enda peningar hreyfiafl í markaðsdrifu hagkerfi. 

Ef 16 af stærstu einkafjárfestum landsins eru einnig taldir með þá breytist myndin aðeins. Körlunum fjölgar í 104 en konurnar eru 14. Hlutfall kvenna fer því upp í tólf prósent. 

Eiga hátt í sex þúsund milljarða

Stærstu fjárfestarnir á Íslandi eru lífeyrissjóðir. Þeir eru allt um lykjandi í viðskiptalífinu. Hrein eign þeirra er um 5.800 milljarðar króna. Það er líklega rúmur þriðjungur af heildarfjármunum sem til eru á Íslandi og sá eignarhlutur mun vaxa á næstu árum. Árið 2060 munu þeir eiga tæplega 40 prósent allra fjármuna hér. Þeir eiga í dag meirihluta allra markaðsskuldabréfa á Íslandi og beint eða óbeint um helming allra skráðra hlutabréfa í íslensku kauphöllinni. Alls eru sjóðirnir 21 talsins en stjórnendur þeirra eru 16.

Nær allir stjórnendur lífeyrissjóða eru karlar, þótt sú jákvæða breyting hafi orðið á árinu 2019 að kona, Harpa Jónsdóttir hafi tekið við stærsta sjóðnum, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þrettán sjóðum er stýrt af körlum en þremur af konum.

Fjórir lífeyrissjóðir halda á hátt i 60 prósent af eignum lífeyrissjóðakerfisins. Einum þeirra er stýrt af konu, Hörpu Jónsdóttur hjá LSR:
Mynd: Hringbraut

Líf­eyr­is­sjóða­kerfið er lífæð íslenskra verð­bréfa­fyr­ir­tækja og rekstr­ar­fé­laga verð­bréfa­sjóða. 

Flestir á þeim mark­aði hafa stóran hluta tekna sinna upp úr því að rukka líf­eyr­is­sjóði um þókn­ana­tekjur fyrir milli­göngu í verð­bréfa­kaup­um eða annars fjárfestingum. Öllum leyfisskyldum verðbréfafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfa- og sérhæfðra sjóða er stýrt af körlum. Af þeim rekstraraðilum sérhæfðra sjóða sem eru skráningarskyldir, en ekki leyfisskyldir, eru sjö undir stjórn karla en tveir undir stjórn kvenna. 

Öllum eftirlitsskyldum lánafyrirtækjum á Íslandi er stýrt af körlum. Sömu sögu er að segja af öllum tryggingafélögum landsins. 

Þá eru átta orkufyrirtæki í landinu. Lengi vel var þeim öllum stýrt af körlum en 2018 var Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar í kjölfar mikilla átaka innan þess fyrirtækis vegna meintrar kynferðislegrar áreitni.

Karl í stað konu í sparisjoðakerfinu

Á Íslandi eru fjórir sparisjóðir enn starfandi. Þeim er öllum stýrt af körlum. Ein breyting varð á æðstu stjórnendum þeirra á síðastliðnu ári, þegar karlinn Sigurður Erlingsson tók við stjórnartaumunum hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Honum var áður stýrt af sparisjóðsstjóranum Gerði Sigtryggsdóttur.

Birna Einarsdóttir hefur stýrt Íslandsbanka frá því að hann var búinn til úr rústum Glitnis. Hún verður von bráðar eina konan sem stýrir skráðu félagi á Íslandi.
Mynd: Íslandsbanki

Þeim er öllum stýrt af körlum. Þegar litið er yfir starfsmannalistann er ljóst að kynjahlutfallið lagast ekki mikið þegar neðar í skipuritið er komið.

Fjórir stórir bankar eru á landinu. Tveimur þeirra, ríkisbönkunum Landsbanka og Íslandsbanka, er stýrt af konunum Lilju Björk Einarsdóttur og Birnu Einarsdóttur. Báðir bankarnir sem eru í einkaeigu, Arion banki og Kvika banki, eru undir stjórn karla. 

Forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem stundar útlán til fasteignakaupa, er sömuleiðis karl. 

Kona á leiðinni í Kauphöllina

Á íslenskum hlutabréfamarkaði eru skráð 22 félög sem stendur, en þeim hefur fækkað um tvö frá síðustu úttekt þar sem Heimavellir voru afskráð og TM rann inn í Kviku. Alls eru 18 félaganna skráð á Aðalmarkað og fjögur á First North. Öllum félögunum er stýrt af körlum og kona hefur raunar ekki setið í forstjórastóli skráðs félags á Íslandi frá því í ágúst 2016, þegar Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur var sagt upp hjá VÍS. 

Copy: konur og peningar 2021
Infogram

Tvö félög hafa tilkynnt um skráningu á markað á þessu ári. Annað þeirra, Síldarvinnslan, er undir stjórn karls. Hitt, Íslandsbanki, er likt og áður hefur komið fram stýrt af konunni Birnu Einarsdóttur. Því er í farvatninu að kona stýri skráðu félagi á Íslandi í fyrsta sinn í tæp fimm ár gangi áform um skráningu Íslandsbanka í sumar eftir. 

Tvær konur hafa verið fjármálaráðherrar

Þegar horft er víðar á áhrifastöður í samfélaginu, þar sem peningum er auðvitað stýrt, en þó með öðrum hætti en í viðskiptalífinu, hallar víða enn á konur. Í ríkisstjórn er kynjahlutfallið til að mynda enn körlum í hag. Þar sitja sex karlar og fimm konur. Forsætisráðherra er hins vegar konan Katrín Jakobsdóttir. Það er í annað sinn í lýðveldissögunni sem kona situr í því embætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sigurðardóttir sem var forsætisráðherra 2009-2013.

Oddný Harðardóttir var fyrsta konan til að verða fjármálaráðherra á Íslandi.
Mynd: Norden.org/Johannes Jansson
Auglýsing


Fjármála- og efnahagsráðherra er karlinn Bjarni Benediktsson. Alls hafa 26 einstaklingar gegnt þeirri stöðu frá því að lýðveldið Ísland var stofnað. Einungis tveir þeirra hafa verið konur. Oddný Harðardóttir varð fyrsta konan til að gegna embætti fjármálaráðherra þegar hún tók við því á gamlársdag 2011. Oddný sat í embætti í níu mánuði og þá tók flokkssystir hennar Katrín Júlíusdóttir við. Hún sat í embættinu í tæpa átta mánuði. Því hafa konur verið fjármálaráðherrar á Íslandi í minna en 17 mánuði frá árinu 1944.  

Konur undir 40 prósent þeirra sem sitja á Alþingi

Seðlabankastjóri Íslands er, og hefur alltaf verið, karl en af þremur varaseðlabankastjórum eru tvær konur, Rannveig Sigurðardóttir og Unnur Gunnarsdóttir.

Á Alþingi voru 24 kjörnar konur 2017. Hræringar í fyrra, þar sem Þorsteinn Víglundsson vék af þingi og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir tók hans sæti, breyttu þeirri stöðu og fjölgaði konum um eina. Þórunn Egilsdóttir fór hins vegar í leyfi vegna veikinda í byrjun árs 2021 og ekki er búist við að hún snúi aftur. Sæti hennar tók Þórarinn Ingi Pétursson. Konurnar eru því aftur orðnar 24 af 63 þingmönnum, eða 38 prósent þingmanna. 

Í ríkisstjórn Íslands eru sex karlar og fimm konur.
Mynd: Stjórnarráðið

Þær dreifast ójafnt á flokka. Miðflokkurinn, nú stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, samanstendur til að mynda af átta körlum og einni konu. Hjá Sjálfstæðisflokknum eru tólf karlar og fjórar konur. Hjá Pírötum eru karlarnir orðnir fimm eftir að Andrés Ingi Jónsson gekk til liðs við þá en konurnar tvær 

Hjá Samfylkingu eru karlarnir fjórir en konurnar fjórar eftir að Rósa Björk Brynjólfsdóttir gekk til liðs við flokkinn. Sama staða er nú uppi hjá Framsóknarflokknum. Kynjahlutfallið í tveimur minnstu þingflokkunum, hjá Viðreisn og Flokki fólksins sem samanlagt eru með sex þingmenn, eru sömuleiðis jafnt. 

Einungis einn þingflokkur er með fleiri konur innanborðs en karla: Vinstri græn. Þar sem konurnar eru fimm og karlarnir fjórir. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar