Á morgun kjósa starfsmenn og nemendur nýjan rektor Háskóla Íslands. Við erum svo heppin að eiga kost á mjög hæfum frambjóðanda, Guðrúnu Nordal, prófessor og forstöðumanni Árnastofnunar.
Við teljum það kappsmál að fá nýjan rektor, sem hefur sýnt í öllum sínum verkum að hann er bæði framúrskarandi fræðimaður og réttsýnn leiðtogi. Guðrún vinnur vel með fólki, virkjar það til góðra verka og leiðir saman ólíka hópa til farsæls samstarfs. Hún leggur áherslu á samvinnu og leysir mál með opinni og lýðræðislegri umræðu. Þetta teljum við nauðsynlegt til þess að Háskóli Íslands geti blómstrað sem þjóðarháskóli.
Guðrún Nordal var stjórnarformaður samnorræna rannsóknarsjóðsins Nordforsk í fimm ár og hún hefur verið formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs Íslands síðustu níu ár. Hún hefur stýrt mikilvægum umbótum á báðum stöðum og er til þess tekið hvað hún hefur leitt þessa vinnu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Árangurinn er líka eftir því: Á síðasta ári var tryggð 2,8 milljarða aukning í samkeppnissjóði til nýsköpunar og rannsókna hér á landi, sem er ein lykilforsenda þess að hægt sé að byggja upp öflugt rannsóknarstarf á Íslandi til framtíðar. Guðrún leggur áherslu á að í Háskóla Íslands skuli vera jafnræði á milli greina. Með vinnu sinni í Vísinda- og tækniráði hefur hún sýnt þessa hugsjón í verki og og lagt sig fram um að auka veg allra fræðasviða.
Guðrún á að baki farsælan kennslu- og rannsóknarferil, heima og erlendis, og er ötull talsmaður íslenskra fræða á alþjóðlegum vettvangi. Hún lauk doktorsprófi í fornnorrænum fræðum við Oxfordháskóla og nýtur nú almennrar viðkenningar á alþjóðlegum vettvangi sem afburðavandaður og afkastamikill fræðimaður. Hún er prófessor í íslensku og hefur undanfarin ár leitt Árnastofnun af miklum skörungsskap.
Nýliðun er grundvöllur þess að Háskóli Íslands geti þróast og þroskast í íslensku samfélagi. Við sem skrifum þessa grein erum ungir vísindamenn og þekkjum af eigin reynslu hversu erfitt það getur verið að hefja sjálfstæðar rannsóknir að námi loknu. Guðrún hefur sýnt í öllu sínu starfi að hún hlustar sérstaklega á rödd ungs vísindafólks og finnur leiðir til að bæta starfsaðstöðu þess og umhverfi.
Brýnustu verkin framundan eru að tryggja fjármögnun Háskóla Íslands, efla nýliðun hans og móta kennslu- og rannsóknarinnviði með árangur á öllum sviðum og starfsánægju að leiðarljósi. Við teljum Guðrúnu Nordal hafa þá hugsjón, reynslu og sannfæringarkraft sem þarf til þess að leiða jákvæða þróun Háskóla Íslands á næstu árum. Og síðast en ekki síst mun hún verða háskólanum kraftmikill og karismatískur leiðtogi í brýnu samtali við samfélagið allt.
Margrét Helga Ögmundsdóttir, rannsóknarsérfræðingur við Læknadeild HÍ, og Viðar Pálsson, lektor í réttarsögu og sagnfræði við HÍ.