Markaðsaðilar eru almennt að átta sig á því að það er ekki aðeins mikilvægt að horfa til kynjahlutfalla meðal stjórnenda út frá réttlætis- og mannréttindasjónarmiðum, heldur einnig út frá fjárhags- og efnahagslegu mikilvægi. Þá jafnframt að hafa kynjajafnvægi í æðsta lagi fyrirtækja, í stjórn og framkvæmdastjórn, sem og fjölbreytileika að leiðarljósi við ráðningu nýrra starfsmanna, samsetningu teyma og stjórnenda. Með fjölbreytileika (e. diversity) er átt við mismunandi eiginleika og bakgrunn fólks, m.a. hvað varðar kynvitund, kynþátt, þjóðernisuppruna, aldur, kynhneigð, fötlun, lífsskoðun og reynslu.
Fjölbreytileiki og fjárhagslegur árangur
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki með jafnari kynjahlutföll meðal stjórnenda skila almennt meiri hagnaði heldur en fyrirtæki þar sem ekki er gætt að kynjajafnvægi. Credit Suisse gerði athugun á tvö þúsund fyrirtækjum á heimsvísu á árunum 2006 til 2012 sem benti til þess að fyrirtæki með að lágmarki eina konu í stjórn náðu meiri árangri með tilliti til nokkurra lykil fjárhagslegra mælikvarða, þar á meðal gengi hlutabréfa. Þær rannsóknir sem hafa náð hvað mestri útbreiðslu og vakið athygli á mörkuðum um heim eru þrjár rannsóknir McKinsey frá árunum 2015, 2018 og 2020 sem ná til þúsund fyrirtækja í 15 löndum. Segir í þeim að fjölbreyttustu fyrirtækin séu almennt líklegri til að skila meiri hagnaði en þau einsleitnustu. Sömu sögu er að segja hvað varðar fjölbreytileika meðal framkvæmdastjórnar.
Sýna rannsóknir McKinsey að fyrirtæki sem hafa hvað jöfnust kynjahlutföll meðal einstaklinga í framkvæmdastjórn séu 25% líklegri en til að skila meiri hagnaði en önnur. MSCI bendir á hið sama í skýrslu frá árinu 2017 á bandarískum fyrirtækjum yfir fimm ára tímabil, frá 2011 til ársins 2016, að fyrirtæki með þrjá eða fleiri kvenkyns stjórnendur skiluðu að meðaltali 45% hærri hagnaði á hvern hlut heldur en þau fyrirtæki sem höfðu engan kvenkyns stjórnanda í upphafi tímabilsins. Rannsóknir á tæplega 22 þúsund skráðum fyrirtækjum um heiminn sýnt fram á jákvæð tengsl milli þess að hafa konur í forystustörfum, stjórn og framkvæmdastjórn, og hagnaðar fyrirtækis. Þá hafa rannsóknir á 3.000 bandarískum fyrirtækjum yfir sjö ára tímabil sýnt jákvæða fylgni milli þess að hafa konur í stjórnum og arðsemi heildareigna (e. Return on assets, ROA).
Einhverjir innan fræðasamfélagsins hafa þó bent á að jafnvel þótt hægt sé að sýna fram á jákvæða fylgni (e. correlation) milli jafnari kynjahlutfalla í stjórnum skráðra fyrirtækja og fjárhagslegs árangurs þeirra, þá er ekki hægt að segja að orsakasamband (e. causation) sé þar á milli. Það að hafa konur í stjórn fyrirtækis leiðir ekki eitt og sér til þess að fyrirtæki skili hagnaði. Til að sýna fram á það þurfi frekari rannsóknir á viðfangsefninu.
Fyrirtæki aðlaga sig að markaðnum
Það sem er þó áhugavert er að meirihluti fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði (80%) eru sögð réttlæta ákvarðanir sínar og stefnubreytingar í átt að auknum fjölbreytileika starfsfólks og stjórnenda með vísun í þann fjárhagslegan árangur sem það getur haft í för með sér. Frekar en að það sé hið rétta að gera út frá jafnréttis- og samfélagslegum sjónarmiðum. Til að mynda vísa Bank of America og Goldman Sachs sérstaklega til þess í jafnréttis- og fjölbreytileika stefnu sinni að fyrirtæki með fjölbreytt stjórnendateymi, og jöfn kynjahlutföll, nái meiri fjárhagslegum árangri en önnur - og séu því skuldbundin að ná meiri árangri í jafna kynjahlutföllin og fjölbreytileika. Önnur fyrirtæki eins og PepsiCo, sem stýrt var af Indra Nooyi (hún) í 12 ár, hafa hins vegar verið óhrædd að benda á að með áherslu á fjölbreytileika þá séu fyrirtæki einfaldlega að ráða besta og hæfasta fólkið til starfa. Indra Nooyi var fyrsta konan til að stýra Fortune 50 fyrirtæki í Bandaríkjunum og stýrði hún PepsiCo frá 2006 til 2018. Þá hefur hún bent á að tímabært sé að valdamiklir karlmenn við stjórn taki markvisst ákvörðun um að jafna stöðu kynjanna – einfaldlega þar sem skortur sé á hæfu fólki við stjórnvölin.
Lífeyrissjóðir fjárfesta beint í jafnrétti fyrir lífeyrisþega
Það ætti því ekki að koma á óvart að fjárfestingar með s.k. kynjagleraugum hafa vaxið gífurlega á síðustu árum. Fjárfestar láta þessi mál sig varða, hvort sem er fjárfestar meðal yngri kynslóða eða stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði. Stærstu lífeyrissjóðir Bandaríkjanna, sem eru lífeyrissjóður kennara í Kaliforníu ríki (CalSTRS) og lífeyrissjóður opinberra starfsmanna í Kaliforníu ríki (CalPERS), með samtals um 550 milljarða Bandaríkjadali í stýringu, hafa lagt áherslu á fjárfestingar með kynjagleraugum. Hafa lífeyrissjóðirnir verið virkir þátttakendur í umræðum um jafnréttismál í Bandaríkjunum og kosið gegn tilnefningu karla í stjórnir fyrirtækja þar sem sem hallar á hlut kvenna. Kaus CalPERS lífeyrissjóðurinn gegn rúmlega 1000 tilnefningum og framboðum til stjórna, þar sem lífeyrissjóðurinn er stór hluthafi, frá 2018 til 2021.
Til að mynda sendi CalPERS lífeyrissjóðurinn hluthöfum Ebix og Casi Pharmaceuticals bréf fyrir aðalfundi félaganna 2020 og 2021 að sjóðurinn myndi kjósa gegn áframhaldandi setu tiltekinna karlkyns stjórnarmanna. Vísaði lífeyrissjóðurinn til þess, sem langtíma fjárfestir og stór hluthafi í fyrirtækjunum, að hann teldi stjórnarmennina ekki hafa brugðist við ábendingum sjóðsins um að horfa til fjölbreytileika við samsetningu stjórnar. Benti sjóðurinn á mikilvægi þess að horfa til fjölbreytileika í víðri merkingu, þ.á.m. til kyns, kynvitundar, kynþáttar, þjóðernis, kynhneigðar, aldurs og minnihlutahópa. Þá jafnframt að líta til reynslu, bakgrunns, skoðana og hæfileika fólks til að stuðla frekar að árangursríkri stjórnun fyrirtækis.
Lagabreytingar um kynjakvóta fyrir tilstuðlan lífeyrissjóða
Þá hafa lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna og kennara í Kaliforníu (CalSTRS og CalPERS) hvatt til lagabreytinga á borð við kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem voru innleidd í Kaliforníu ríki (Senate Bill No. 826). Í lögskýringargögnum er vísað sérstaklega til þess að lagabreytingin sé gerð til að efla hagkerfi Kaliforníu og tækifæri kvenna, vernda skattborgara, hluthafa og lífeyrisþega, þar á meðal kennara og opinbera starfsmenn á eftirlaunum sem höfðu greitt sinn lífeyri til CalPERS og CalSTRS. Kalifornía var fyrsta ríkið innan Bandaríkjanna til að lögfesta kynjakvóta á stjórnir með lögum sem tóku gildi 2018. Hins vegar ber að nefna að reynt hefur verið á lögmæti laganna, en í júní s.l. var niðurstaða dómstóls í Kaliforníu (til upplýsinga þá var dómarinn kvenkyns) að lögin stæðust ekki stjórnarskrá ríkisins. Hefur dóminum verið áfrýjað til æðri dómstóls innan Kaliforníu.
En þrátt fyrir þessa niðurstöðu, þá hafa 13 önnur ríki Bandaríkjanna innleitt lög, eða eru að lagafrumvörp til meðferðar, sem setja skilyrði eða viðmið um fjölbreytileika í stjórnir, eða gera kröfu um gagnsæi upplýsinga um samsetningu stjórna.
Ávöxtun eigna í „kynjagleraugna“-sjóðum í samanburði við aðrar vísitölur
Frá 2014 hafa eignir í stýringu s.k. kynjagleraugnasjóða á skráðum markaði aukist frá því að vera vera 900 milljón Bandaríkjadalir á árinu 2017 í það að vera um 11 milljarðar Bandaríkjadalir í byrjun árs 2021, og áætlað að verði um 20 milljarðar Bandaríkjadalir í skráðum kynjagleraugnasjóðum við lok árs 2022. Þá eru að lágmarki ein billjón (e. trillion) Bandaríkjadalir í eigu stofnanafjárfesta í stýringu um heim þar sem kynjagleraugu voru sett upp við mat á fjárfestingunni.
Neðanverð gröf sýna tilbúin dæmi um fjárfestingu að fjárhæð $1M (tæplega 146 m.kr. m.v. gengið í dag) í vísitölusjóði S&P 500 (sem fylgir vísitölu S&P 500) og nokkrum kvenkyns vísitölum sem eru ólíkt samsettar, á mismunandi tímapunktum (2012, 2017, 2018) og ávöxtun fram til dagsins í dag (eða lok árs 2021). Rétt er að benda á að umfjöllunin er aðeins birt í upplýsinga- og dæmaskyni og felur ekki í sér ráðleggingu eða ráðgjöf um tiltekna fjárfestingu eða gera tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Þá gefur árangur fyrirtækja í fortíð ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Upplýsingar sem hér koma fram byggja á heimildum sem taldar eru áreiðanlegar en ekki hægt að ábyrgjast að þær séu réttar, og áskilinn réttur til leiðréttinga.
Hér má sjá vísitölusjóð S&P 500, á vegum State Street, sem fylgir vísitölu S&P 500 frá 2012 og fram til lok árs 2021. Þá sýnir grafið tilbúna vísitölu undir heitinu S&P Women CEOs, sem inniheldur þau 32 fyrirtæki meðal fyrirtækja í hópi S&P 500 vísitölunnar sem hafa kvenkyns forstjóra á árinu 2022. Rétt er að taka fram að vægi fyrirtækjanna í kvenkyns vísitölunni er nokkuð jafnt, ólíkt S&P 500 vísitölunni. Þá er hér sýnd GemmaQ vísitala sem samanstendur af 50 fyrirtækjum á Bandaríkjamarkaði, meðal S&P 500 fyrirtækjanna frá 2017, sem hafa verið með hvað jöfnust kynjahlutföll í stjórnum og framkvæmdastjórnum frá árinu 2017 og hæstu GemmaQ einkunnina á markaðnum.
Rétt að taka fram að þau fyrirtæki í S&P 500 vísitölunni sem eru með kvenkyns forstjóra í dag hafa ekki öll haft kvenkyns forstjóra á öllu tímabilinu. Um helmingur þessara kvenkyns forstjóra réðu sig til starfa á árinu 2020 eða síðar. Í öllum tilfellum tóku þær við forstjórastólnum af karlmanni. Ofanverð mynd sýnir stærri vísitöluna (e. S&P Women CEOs 2022) sem horfir til allra þeirra 32 fyrirtækja sem hafa kvenkyns forstjóra á árinu 2022, til samanburðar við þau fyrirtæki sem hafa haft kvenkyns forstjóra yfir allt tímabilið. Áhugavert er að bera árangur þeirra saman, en væru þetta raunverulegar vísitölur sem ég hefði fjárfest í, hefði ég grætt örlítið meira, og tapað minna það sem af er þessu ári. Meðal minni vísitölunnar má m.a. finna tryggingafélög, öryggisbúnaðar fyrirtæki og súkkulaði risann Hershey - sem hafa náð að verjast vel verðbólgu draugnum á þessu ári. Fólk leitar kannski meira í sætindi í súru ástandi á mörkuðum.
Vísitölusjóður State Street um kynjajafnrétti, SPDR SSGA Gender Diversity ETF, var tekinn til viðskipta í Kauphöll á árinu 2017 - þegar bronsstyttan af óttalausu stúlkunni var sett fyrir framan nautið á Wall Street. Sem liður í markaðsherferð State Street fyrir sjóðinn. Einstaklingur sem fjárfesti $1 milljón í vísitölusjóðinum á þeim degi, ætti í dag rúmlega $1,5 milljón. Til samanburðar þá hefði $1 milljón einstaklings sem fjárfest hefði í tilbúinni vísitölu GemmaQ á sama degi ávaxtast í um $2,7 milljónir í dag.
Hvort það sé orsakasamband milli jafnari kynjahlutfalla og fjölbreytileika í stjórnum og framkvæmdastjórnum skráðra fyrirtækja og fjárhagslegs árangurs þeirra, skiptir ekki öllu máli. Það er jákvæð fylgni. Fyrirtæki geta vísað til þess að breytingar í átt að auknu jafnvægi og fjölbreytileika í stjórn og framkvæmdastjórn séu gerðar með hliðsjón af samfélagslegum, réttlætis, markaðslegum, lagalegum, fjárhagslegum eða efnahagslegum sjónarmiðum. En það sem knýr þær áfram, er ekki síst vaxandi krafa frá almenningi og fjárfestum - þar með talið lífeyrissjóðum - um að stjórnun fyrirtækja endurspegli fjölbreytileika samfélagsins.
Höfundur er stofnandi og framkvæmdastjóri GemmaQ.