Fjármálaeftirlitið (FME) er sú stofnun á fjármálamarkaði sem á að gæta almannahagsmuna. Það er varðhundur almennings gagnvart fjármálakerfinu.
Eftir hið fordæmalausa hrun, þar sem innanmein bankanna - einkum stórfelld fjármögnun þeirra á eigin hlutafé - fór fram hjá FME, þá er ekki laust við að mikið verk hafi beðið stofnunarinnar við að endurheimta trúverðugleika. Hann var því sem næst enginn eftir hrunið, en með langtímaáætlun að vopni mun FME geta náð ásættanlegum trúverðugleika. Vel er hugsanlegt að skaðinn sé næstum varanlegur, en það má lágmarka hann með góðu starfi.
FME hefur gert margt vel á undanförnum árum, án þess að fá miklar þakkir fyrir það í opinberri umræðu. Má nefna endurreisn fjármálakerfisins í því samhengi, en það verkefni hvíldi að miklu leyti á stofnunni, enda framkvæmdi hún neyðarlögin.
En það er líka margt sem FME verður að skýra betur, nú þegar sjö ár eru liðin frá falli fjármálakerfisins. Hvers vegna hafa endurreistu bankarnir, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, fengið að halda á eignarhlutum í stórum fyrirtækjum í óskyldum rekstri árum saman? Meginreglan í lögum er sú, að bankar mega ekki stunda óskyldan rekstur, eins og fjarskiptaþjónustu, sjávarútveg og fasteignaútleigu. Ástæðan er augljós. Samkeppni á markaði þolir það ekki, að lánastofnanir séu öllu megin við borðið. Að lána fyrirtækjum og reka þau, jafnvel þvert gegn öðru í samkeppni. Fyrirkomulag eins og þetta er glórulítið og bannað af góðri og gildri ástæðu.
Meðal annars vegna þessara sjónarmiða hlýtur FME að þurfa að gefa skýrar línur um það hvernig bankarnir eigi að standa að því að losa sig við óskyldan rekstur, til dæmis þegar kemur að því að skrá fyrirtæki á markað. Nýlegt dæmi um skráningu Símans, þar sem útvaldir fjárfestar fengu að kaupa stóran hlut í fyrirtækinu áður en það var skráð á markað, þrátt fyrir að þá þegar hafi legið fyrir að til stæði að skrá félagið, sýnir að vanda þurfi til verka í þessum efnum. FME getur ekki fjarlægt sig ábyrgð, og verður að draga línuna á réttum stöðum um það hvernig sé best að endurheimta traust á fjármálamarkaðnum og íslensku atvinnulífi.