Á undanfarinni viku, þegar þetta er skrifað, hefur um fimm prósent af markaðsvirði hlutabréfa á alþjóðamörkuðum þurrkast út, og vegur markaðurinn í Kína þar þyngst. Það er upphæð sem nemur um þrjú þúsund milljörðum Bandaríkjadala, eða nærri 400 þúsund milljörðum króna. Einstaka sveiflur á mörkuðum, frá degi til dags, segja ekki mikið um hvað sé að gerast ef það er þá eitthvað yfir höfuð. En á undanförnum vikum hafa veikleikar í kínverska hagkerfinu opinberast, sem leiddi til ákvörðunar stjórnvalda um að veikja gjaldmiðilinn, júan, um tvö prósent.
Vandi er að spá fyrir um hvað sé framundan, helstu atriðin sem eru að valda áhyggjum hjá fjárfestum má skipta í fjögur atriði.
1. Óvissa, innviðir hlutabréfamarkaðarsins. Stundum myndast þannig staða á hlutabréfamörkuðum að þeir fara að hreyfast snögglega eftir dægursveiflum, án þess þó að miklar skýringar liggi fyrir um hvað gekk á. Í þetta skiptið, sé horft til byrjunar ársins, og undanfarnar tvær vikur sérstaklega settar undir kastljósið, er það einkum staða mála í Kína sem er að valda áhyggjum. Ekki endilega undirliggjandi þættir, þó þeir hafi sýnt veikleikamerki (3,9 prósent lækkun fasteignaverðs, minni eftirspurn eftir bílum, minnkandi hrávöruviðskipti), heldur einnig hlutabréfamarkaðurinn í Shanghai sem slíkur. Hvernig eru innviðir hans og hvað er eiginlega að gerast á honum? Öll ávöxtun ársins er nú farin, en sveiflan á fjögurra mánaða tímabili, frá apríl til ágúst, bendi til þess að eitthvað skrítið sé á seyði. Eins og myndin hér meðfylgjandi sýnir, voru gríðarlega miklar hækkanir á markaðnum í apríl og maí, meira en tvöföldun á markaðsvirði hlutabréfa. Svo hallaði undan fæti í júní og verðið hefur hrunið síðan. Þessar sveiflur hafa verið úr takti við gang mála á alþjóðamörkuðum, sé horft yfir nokkurra mánaða tímabil. Inngrip stjórnvalda, meðal annars beinar skipanir um að kaupa bréf fyrirtækja og bann við sölu hjá kjölfestu fjárfestum, hafa líka dregið fram ólíkar leikreglur í Kína samanborið við aðra þróaða markaði. Stjórnvölda ráða för ef í harðbakkann slær, ekki hin ósýnilega hönd markaðarsins.
Eins og sést á þessu grafi, sem fengið er frá Bloomberg, hefur mikið gengið á á kínverska verðbréfamarkaðnum á árinu. Fyrst mikill uppgangur, og svo algjört hrun. Mynd: Bloomberg.
2. Viðvörunarljós, viðbrögð. Lengi hefur verið rætt um stöðu kínverska hagkerfisins en fáir hafa verið þrálátari í sínum viðvörunum en Kenneth Rogoff, prófessor í hagfræði við Harvard háskóla. Hann er annar höfundar metsölubókarinnar This Time is Different, sem fjallar meðal annars um fjármálakreppuna frá 2007 til 2009, og samhengi hennar við stöðu heimsbúskaparins. Í stuttu máli telur Rogoff að kínverska hagkerfið sé viðkvæmt vegna of mikillar skuldsetningar innan þess. Einstakir geirar - fasteignamarkaður ekki síst - séu of skuldsettir til að takast á við þrengingar. Vaxtarskeiðið hafi verið drifið áfram síðustu misserin með skuldsetningu fremur um sjálfbærum vexti. Í pistli sem birtist á vef New York Times í gær er meðal annars vitnað í greiningar ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Company, frá miðju ári í fyrra. Það kemur fram að skuldir kínverska ríkisins hafi hækkað úr 7 þúsund milljörðum Bandaríkjdala árið 2007 til tæplega 28 þúsund milljarða Bandaríkjadala árið 2014. „Margir einstaka geirar eru áhyggjuefni: Helmingur lána er tengdur beint eða óbeint við fasteignaverkefni, skuggabankastarfsemi sem ekki lítur regluverki eða eftirliti fær að þrífast og ber ábyrgð á um helmingi nýrra lána, og skuldir einstaka sveitastjórna eru líklega til þess að vera ósjálfbærar,“ segir meðal annars í skýrslunni. Vogunarsjóðsstjórinn James Chanos er síðan annars sem hefur talað um alvarlega stöðu Kína. „Hvernig sem þú heldur að það sé, þetta er verra,“ segir Chanos.
Spurningin er; hvernig verða viðbrögðin við vandamálum í Kína, til lengdar litið? Þjóðir sem eru háðar eftirspurn í Kína á útflutningshliðinni, eins og Brasilía, Suður-Afríka og Rússland, eru allar að glíma við mikil vandamál þessa dagana. Gjaldeyrisskort, lágt olíuverð (Brasilía, Rússland, tunnan lækkað úr 110 Bandaríkjadölum niður í 40 á innan við ári) og minni eftirspurn eftir öðrum hrávörum sömuleiðis. Það virðast ekki vera skjól í augsýn þar sem þessar þjóðir geta dvalist í efnahagslegu óveðri. Rogoff segir raunar að það sé „stórmerkilegt“ að Rússland hafi ekki gengið í gegnum fjármálakreppu nú þegar, en það hljóti að fara koma að því.
3. Alþjóðleg viðbrögð, Kína og umheimurinn. Enginn er eyland. Það er auðvelt að tala um vandamál Kína, eins og þau séu einangruð við risann í Austri, fjölmennasta ríki heimsins með 1,4 milljarða íbúa af rúmlega sjö milljörðum. Í bók dr. Jóns Orms Halldórssonar, Breyttur heimur, er meðal annars fjallað um hvernig valdajafnvægið í heiminum hefur breyst, og er að breytast hratt. Á þrjátíu árum hefur hagkerfi Kína fertugfaldast, að því er fram kemur í bókinni, á sama tíma og hagkerfi lands eins og Ítalíu hefur staðið í stað. Rúmlega hundrað borgir í Kína eru stærri en Kaupmannahöfn, að því er Jón Ormur nefndi í viðtali þegar bókin kom út. Í ofanálag er síðan hin mikla breyting í lífi fólks, að þróun í einu landi hefur bein áhrif á líf fólks í öðru. Upplýsingar berast hratt og nánast milliliðalaust á milli, ákvarðanir eru byggðar á þróun þvert á landamæri. Í þessu samhengi stendur Kína eins og klettur, jafnvel þó hann sé viðkvæmur fyrir úr öllum áttum vegna innanmeina, að mati sérfrðinga eins og Rogoff. Hin mikla breyting alþjóðlegs viðskiptaheims er kannski sú, samandregið, að hann er orðinn háður Kína og mun þurfa að súpa seyðið með honum ef til hruns eða niðursveiflu kemur, óháð því hvort fjárfestum líkar það betur eða verr. Slíkar eru stærðirnar.
4. Tímasetningar, pólitískt svið, hraði. Þó kastljósið sé á Kína í augnablikinu, og margir telji sig sjá augljós hættumerki vegna stöðunnar þar, þá er vandi að spá fyrir um afleiðingar eða tímasetningar. Fjárfestar sem eru að greina stöðu mála á hverjum tíma, vegna hagsmuna sinna, þurfa óhjákvæmilega að taka þátt í því „veðmáli“. Móta sér sýn á stöðuna og taka ákvarðanir sem byggja á henni. Eins og alltaf í viðskiptum eru það tímasetningar sem skipta sköpum, hvort það sem keypt þegar sveiflan er að fara upp eða niður, skipti alltaf máli að lokum.
Pólitíska sviðið, þegar Kína er annars vegar, er ekki aðeins stórt og mikið heldur líka sá staður þar sem hlutirnir gerast, ef svo má segja. Íslensk fyrirtæki hafa átta sig á þessu, og reyna iðulega að fá stjórnmála- og embættismenn með sér til að auka líkurnar á því að dyr opnist þegar landið er heimsótt. Ef það tekst að opna þær, á hvaða sviði sem er, þá felast í því mikil verðmæti. Það sama má segja önnur lönd sem hafa lagt mikið upp úr því að stykrja viðskiptapólitískt samband við Kína. En þrátt fyrir að langtímasýn Kínverja sé heimsþekkt, það er að þeir séu alltaf að hugsa um leiki númer þrjú og fjögur en ekki bara eitt eins og margir aðrir, þá virðast flestir gera sér grein fyrir því að þeir viti ekki alltaf best eða hvað sé framundan. Margir aðrir eru færir um að greina stöðuna og enginn leyndarhjúpur er um stöðu mála í Kína þegar hún er greind, eins og Hank Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hefur bent á. Ákvarðanir stjórnvalda í Kína um að lækka virði gjaldmiðilsins og síðan í dag um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur upp í 4,6 prósent, til þess að örva efnahagslífið, sýna að þau eru tilbúin að grípa til aðgerða hratt og örugglega, til að verja sýna hagsmuni. Sem svo hafa áhrif á aðra hagsmuni og daglegan púls markaða.
Það hafa ekki verið álitlegar tölurnar á verðbréfamörkuðum í Kína upp á síðkastið. Mynd: EPA.