Í ár fögnum við því að hundrað ár eru síðan konur fengu kosningarétt og kjörgengi til þingkosninga á Íslandi. Þar með var stórum áfanga náð í langri og strangri baráttu kvenna að fá til jafns við karlmenn að taka þátt í því að móta það samfélag sem þær bjuggu í. Það er gleðilegt að fagna slíkum áfanga en í dag, 20. apríl, ætla ég að fagna með því að nýta mér minn kosningarétt í rektorskjöri Háskóla Íslands og taka þátt í að móta það háskólasamfélag sem ég vil nema í, mögulega starfa í og get stolt mælt með. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í slíku kjöri hjá stærstu menntastofnun landsins.
Í síðustu viku fékk ég ásamt öðrum kvenkyns samnemendum Háskóla Íslands sent sms sem miðlaði þeirri staðreynd að af 8.699 kvenkyns nemendum skólans hefðu aðeins 3.180 kosið, það eru 36,56% Sendandi smsins var annar frambjóðenda til rektors, Guðrún Nordal. Í smsinu sagði orðrétt „Látum rödd okkar heyrast. Kynnið ykkur frambjóðendur og kjósið á mánudag!“ Hvergi stóð hvorn frambjóðandann ætti heldur að kjósa og voru konur almennt hvattar til að láta rödd sína heyrast. Fyrir mér var augljóst hvaða skilaboð smsið hafði að geyma. Að við konur, 69% allra nema í Háskóla Íslands, hefðum í höndum okkar einstakt tækifæri til að hafa áhrif á þessa merku menntastofnun, tækifæri sem kynsystur okkar börðust fyrir og lögðu grunninn að fyrir 100 árum síðan. Tækifæri sem við ættum ekki að láta fram hjá okkur fara. Smsið, ætlað stærsta hópnum á kjörskrá Háskóla Íslands, minnti mig ekki aðeins á hversu mikilvægt væri að ég nýtti mér minn rétt heldur hversu sérstaklega mikilvægt væri, á þessu „herrans ári,“ að við, kvenkyns nemendur, í Háskóla Íslands tækjum þátt í fögnuðinum með því að nýta okkur kosningaréttinn í rektorskjörinu.
Sjálf kýs ég Guðrúnu Nordal. Ég veit að ef við viljum beittan, kláran, ákveðinn en sjarmerandi rektor sem er tilbúinn að berjast og beita sér fyrir betri kjörum fyrir allt háskólafólk, eiga í samtali og samstarfi við háskólafólk og samfélagið allt, byggja upp sterkan Háskóla og leiða hann inn í framtíðina þá kemur ekki annað til greina en að kjósa Guðrúnu. Kosningabarátta hennar hefur verið drífandi, hreinskilin og skýr og hefur Guðrún komið til dyranna alveg eins og hún er klædd.
Í dag kjósum við á milli fortíðar og framtíðar, stöðnunnar og breytinga. Í dag fagna ég 100 árum af kosningarétti og nota minn rétt til að kjósa framtíðina og breytingar.
Höfundur er meistaranemi í Hagnýtri menningarmiðlun við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.