Friðrik Jónsson formaður BHM finnur sig knúinn – „að gefnu tilefni“ til að „árétta fyrir félögum aðildarfélaga […] sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum að þau eiga rétt á að sækja sér námskeið á borð við íslenskukennslu á vinnutíma“. Þetta gerir hann á Facebook með orðunum: „Nei sko, haldiði að það sé svo ekki bara hægt að skella sér í íslenskunám á vinnutíma samkvæmt fjölmörgum samningum BHM-félaga [Broskall].“
Auðvitað eru þetta góðar fréttir fyrir erlenda félagsmenn, einkum þá sem þegar skilja íslensku nógu vel til að geta lesið fréttina sem birtist eingöngu á íslensku. Tímasetningin bendir þó óneitanlega til þess að fréttinni sé aðallega ætlað að vera innlegg í umræður um þá hugmynd háskólafólks að það sé upplagt fyrir samninganefndir láglaunafólks að verja tíma sínum í að reyna að fá íslenskukennslu á vinnutíma – eins og hjá BHM – frekar en einbeita sér að kröfunni um um laun sem dugi fyrir mat út mánuðinn – eins og hjá BHM.
Margt láglaunafólk á íslenskum vinnumarkaði fær svo léleg laun að það nær ekki endum saman og þarf jafnvel að reiða sig á matargjafir góðargerðarfélaga til að brauðfæða sig og börn sín. Um lífskjör láglaunafólks hafa verið ritaðar skýrslur sem Friðrik ætti endilega að kynna sér þannig að hann sé betur upplýstur um samfélagið sem við búum í og átti sig kannski á þeim raunveruleika sem blasir við stórum lágtekjuhópum. Það er ekki menntunarskortur sem heldur vinnandi fólki í fátækt – innlendu eða aðfluttu – heldur virðingarleysið fyrir störfunum sem mun alltaf þurfa að vinna og fólkinu sem vinnur þau.
Öll sem hér búa og vilja læra íslensku ættu að eiga kost á góðri íslenskukennslu við hæfi. Um það er ekki deilt, hverju sem útúrsnúningamenn vilja halda fram. Skortur á íslenskukennslu fyrir aðflutt fólk er ekki nýtt vandamál og ekki tilkominn vegna konu sem hefur í fáein ár verið í forystu fyrir verkalýðsfélag láglaunafólks. Hann hefur verið þekktur frá því að erlendu starfsfólki í ýmsum greinum, – fyrst og fremst láglaunastörfum – tók að fjölga verulega hér á landi, ekki síst í kjölfar evrópskra samþykkta um frjálsa för vinnuafls en einnig fyrr. Ríkið og sveitarfélögin – þau sem tryggja háskólamenntuðu starfsfólki sínu íslenskukennslu á vinnutíma – hafa ekki brugðist við, frekar en aðrir atvinnurekendur sem reiða sig á störf aðflutts verkafólks. Formaður félags kvenna af erlendum uppruna brást heldur ekki við vandanum þegar hún sat á þingi fyrir Bjarta framtíð fyrir nokkrum árum þótt flokkur hennar væri í ríkisstjórn og upplagt að vinna þar að bættu aðgengi að íslenskukennslu, sem hið opinbera ætti með réttu að sinna og tryggja fjárveitingar til.
Allt þetta vita öll sem vilja. Samt kýs ótrúlegasta fólk að láta eins og íslenskukennsla fyrir útlendinga strandi á samninganefndum láglaunafólks sem eigi alls ekki að einbeita sér að sér að baráttunni um laun sem dugi fyrir framfærslu, heldur skuli þau sóa tíma og kröftum sínum og viðsemjenda sinna í karp um íslenskukennslu sem hvorki er til kennsluefni fyrir né kennarar til að sinna. Og eru þá ótalin og óleyst praktísk úrlausnarefni eins og hvort eða hvar í leikskólanum, á byggingasvæðinu eða í sláturhúsinu kennslan á að fara fram á vinnutíma. Eða hvernig þessi viðbótarstytting ætti annars að útfærast.
Ekki er ljóst hve stóran vanda Bandalag háskólamanna leysir fyrir félagsmenn sína með íslenskunámi á vinnutíma þar sem ekki kemur fram hve stórt hlutfall það er sem ekki talar íslensku en hefur áhuga á að læra hana. Félagar sem ekki skilja íslensku fá a.m.k. ekki mikla þjónustu hjá BHM ef marka má vefinn www.bhm.is. Frumstæð heimasíða kostar bandalagið um 4 m.kr. á ári en er nánast alfarið á íslensku og mikilvægustu upplýsingar um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði ekki einu sinni aðgengilegar á ensku, hvað þá öðrum tungumálum. „Mínar síður“ eru aðeins á íslensku og upplýsingar sem BHM sendir frá sér á Facebook sömuleiðis.
Það er erfitt að átta sig á hvaða markmiðum formaður BHM telur sig vera að ná fyrir okkur sem tilheyrum félögum háskólamanna með því að senda láglaunafólki tóninn, fólkinu sem m.a. annast börnin okkar, byggir hús og leggur vegi, þrífur vinnustaðina okkar og aðstoðar gamla fólkið, og fær fyrir það laun sem halda því mörgu í sárafátækt.
Flest erum við líklega sammála um að samfélag verði aldrei fyllilega gott meðan stórir hópar fólks hafa það slæmt. Þau sem hafa völd og áhrif í þjóðfélaginu bera ábyrgð á að beita þeim góðs. En frekar en hlusta á þau sem lýsa ömurlegum efnahagslegum aðstæðum láglaunafólks – og sýna kjarabaráttu þeirra þótt ekki væri nema eitthvað sem gæti nálgast lágmarksvirðingu – velur formaður bandalags hinna sem hafa það hvað best í samfélaginu að láta standa sig að forréttindagrobbi.
Það sæmir hvorki honum né bandalaginu okkar.
Höfundur er háskólamenntaður ríkisstarfsmaður.