Í janúar s.l. skrifaði ég greinina „Góðar samgöngur eru fyrir alla“ hér í Kjarnann, en hana má lesa hér. Í greininni gagnrýni ég það sem við hjá samtökunum Samgöngur fyrir alla (SFA) köllum þunga Borgarlínu. Helstu rök aðstandenda þungu línunnar eru hrakin lið fyrir lið. Jafnframt geri ég grein fyrir tillögu SFA um svokallaða létta Borgarlínu (BRT-Lite) sem er margfalt ódýrari en þunga línan og mun hagkvæmari kostur. Tillögur SFA má finna á vefsíðunni https://samgongurfyriralla.com/
Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir umferðarspám í nýju samgöngulíkani fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar á eftir verður fjallað um áhrif bílaeignar á samkeppnishæfni almenningssamgangna. En fyrst nokkur orð um áróður fyrir þungu Borgarlínunni.
Blekkingar í áróðri fyrir þungu Borgarlínunni
Fyrir rúmum þremur árum skrifaði ég greinina „Einhliða áróður í samgönguskipulagi höfuðborgarsvæðisins“ hér í Kjarnann, en hana má lesa hér. Þar rökstyð ég þá skoðun mína að áróður fyrir (þungu) Borgarlínunni hafi gengið út í hreinar öfgar. Áróðursbrögðin ganga út á takmarkaðar upplýsingar, hálfsannleik, villandi upplýsingar eða jafnvel hreinar rangfærslur. Slík áróðursbrögð eru þekkt í heimi stjórnmálanna og munum við eflaust fá vænan skammt af þeim núna á lokametrunum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Við erum vön slíku og flest okkar tökum pólitískum áróðri með hæfilegum fyrirvara. Hins vegar erum við ekki vön áróðri af þessu tagi af hálfu skipulags- og samgönguyfirvalda. Þess vegna hafa margir látið blekkjast. Á þeim þrem árum sem liðin eru frá því að ég skrifaði umrædda grein í Kjarnann hefur áróður af þessum toga haldið áfram og mun ég víkja að því nánar hér á eftir.
Umferðarspár í nýju samgöngulíkani
Í ofangreindri grein minni í Kjarnanum frá því í mars 2019 rökstyð ég þá skoðun mína að (þunga) Borgarlínan muni í besta falli leiða til þess að bílaumferð árið 2040 verði 4 - 5 % minni en ella. Í svæðisskipulagi 2015-2040 er sett fram markmið um að ferðir með almenningssamgöngum aukist úr 4 % upp í 12 % af öllum ferðum, ferðir gangandi og hjólandi aukist úr 20 % upp í 30 % af öllum ferðum og ferðum með einkabíl fækki úr 76 % niður í 58 % af öllum ferðum. Elías B. Elíasson verkfræðingur sýnir fram á það í grein sinni í Kjarnanum 3. maí s.l. að félagsleg ábatagreining sem gerð var á árinu 2014 á þremur samgöngusviðsmyndum, þar sem þessi markmið voru ein sviðsmyndin, stenst engan veginn. Ef rétt hefði verið reiknað þá hefðu niðurstöðurnar orðið þær, að hvorki þung Borgarlína (BRT-Gold) né léttlest (LRT) myndu verða nægilega hagkvæm.
Í september 2020 gaf Vegagerðin út skýrsluna „Transport Model for the capital area of Iceland – SLH“, sem verkfræðistofurnar Mannvit og Cowi (M & C) unnu. Þar er gerð grein fyrir gerð nýs samgöngulíkans fyrir höfuðborgarsvæðið og birtar umferðarspár fyrir árin 2024, 2029 og 2034. Nýja líkanið getur spáð fyrir um umferð bíla, fjölda farþega í almenningsvögnum og fjölda hjólandi. Hins vegar eru ferðir gangandi ekki með í reiknilíkaninu. Eldra reiknilíkan gat aðeins spáð fyrir um bílaumferð. Í erindi sem ég helt á málstofu Vegagerðarinnar í október s.l. benti ég á það að best hefði farið á því ef nýja líkanið hefði verið tilbúið áður en ofangreind markmið voru sett í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Þá hefði komið í ljós að markmiðin voru ekki raunsæ. Umferðarspá 2034 gaf eftirfarandi niðurstöður (bls. 90 í fyrrgreindri skýrslu Vegagerðarinnar):
Þarna kemur fram að því er spáð að bílaumferð aukist um 41 % á tímabilinu 2019 – 2034, þrátt fyrir forsendu um að uppbygging Borgarlínu og hjólastíga verði skv. samgöngusáttmála. Rétt er að benda á að ferðir með bílum eiga við alla bíla, ekki aðeins einkabíla, heldur einnig sendibíla (Delivery Trucks, DT) og vörubíla (Heavy Goods Vehicles, HGV). Skoðum nú hvernig hlutur ofangreindra ferðamáta breytist á tímabilinu 2019 – 2034 miðað við spána:
Skv. spánni minnkar hlutur ferða með bíl um 1,6 prósentustig á tímabilinu 2019 – 2034. Ferðir með almenningsvögnum aukast um 1,4 prósentustig og ferðir hjólandi um 0,2 prósentustig. Af þessu má ráða að ef almenningssamgöngur verða ekki bættar frá því sem er í dag myndi bílaumferð árið 2034 verða 1,4 prósentustigum meiri en ella. Það samsvarar = (1,4/90,3) x 100 = 1,6 % hlutfallslegri aukningu. M.ö.o., ef almenningssamgöngur verða ekki bættar frá því sem er í dag myndi bílaumferð árið 2034 verða 1,6 % meiri en ella. Aukning upp á 1,6 % á 15 ára tímabili jafngildir um 0,1 % aukningu á ári. Ef við framreiknum til ársins 2040 myndi niðurstaðan verða um 2 %, sem er svo sannarlega í samræmi við fyrrgreint mat mitt um að Borgarlínan muni í besta falli leiða til þess að bílaumferð árið 2040 verði 4 – 5 % minni en ella (sjá fyrrgreinda grein í Kjarnanum 17.03.2019).
Eins og áður hefur verið greint frá eru ferðir gangandi ekki með í nýja samgöngulíkaninu. Ef við gefum okkur að ferðir gangandi séu 10 % af öllum ferðum árið 2019 þá lækkar hlutdeild hinna ferðamátanna. Við skulum jafnframt bera leiðréttar niðurstöður saman við niðurstöður ferðavenjukönnunar á höfuðborgarsvæðinu 2019:
Við fyrstu sýn virðist ekki vera nægilega góð samsvörun milli samgöngulíkansins og ferðavenjukönnunar 2019, einkum í ljósi þess að í samgöngulíkaninu er tekið tillit til niðurstöðu ferðavenjukönnunar 2017 (sjá bls. 46 í fyrrgreindri skýrslu Vegagerðarinnar frá september 2020). Ég tel að frávikið frá niðurstöðum ferðavenjukönnunar skýrist einkum af eftirfarandi:
- Ferðavenjukönnun nær eingöngu til þeirra ferða íbúa á höfuðborgarsvæðinu þar sem einkaerindum er sinnt. Dæmi: Leigubílstjóri ekur til vinnu á leigubílastöð á bíl sínum. Sú ferð er skráð í ferðavenjukönnun. Hins vegar eru atvinnuferðir leigubílstjórans þar sem hann ekur með farþega gegn gjaldi ekki skráðar í ferðavenjukönnun. Stór hluti ferða á höfuðborgarsvæðinu eru atvinnuferðir á fólksbílum, ferðir með sendi- og vörubílum, ferðir útlendinga, ferðir íbúa utan af landi, o.s.frv.
- Niðurstöður ferðavenjukannana eru ekki gefnar upp með aukastaf. Það skiptir töluverðu máli fyrir ferðir með almenningsvögnum. Í ferðavenjukönnun 2017 er hlutur ferða með almenningsvögnum gefinn upp sem 4 %. Hækkun úr 4 % 2017 upp í 5 % 2019 er 25 % aukning hlutfallslega sem er langt frá því að vera í samræmi við aukningu á farþegafjölda skv. ársskýrslum Strætó bs. Líklega hefur hlutur ferða með strætó verið tæplega 4,5 % árið 2017 og því gefinn upp sem 4 % þegar aukastaf er sleppt. Með sama hætti hefur hlutur ferða með strætó árið 2019 verið yfir 4,5 % og því gefinn upp sem 5 % þegar aukastaf er sleppt. Eðlilegra hefði verið að gefa upp hlut ferða með strætó og ferða hjólandi með einum aukastaf og gefa jafnframt upp tölfræðileg skekkjumörk.
- Tölfræðileg óvissa í samgöngulíkani og ferðavenjukönnun.
Skipulags- og samgönguyfirvöld hafa ekki haft fyrir því að gera almenningi grein fyrir því að ferðavenjukannanir ofmeta stórlega hlut ferða með almenningsvögnum þegar allar ferðir á höfuðborgarsvæðinu eru teknar með í reikninginn. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það að gera ekki neina grein fyrir þessu flokkast undir villandi upplýsingar eða hálfsannleik. Það að draga ályktanir út frá kolröngum forsendum flokkast undir hreinar rangfærslur. Málið er sérstaklega alvarlegt vegna þess að samgöngu- og skipulagsyfirvöld hafa ekki gefið nein viðhlítandi svör við athugasemdum SFA og fleiri um að umferðarspár í nýju samgöngulíkani gefi allt aðra og mun lakari niðurstöðu um fýsileika þungu Borgarlínunnar heldur en eldri spár. Þvert á móti hefur framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. vitnað í fyrrnefnda félagslega ábatagreiningu frá árinu 2014 á þremur samgöngusviðsmyndum máli sínu til stuðnings. Af hálfu stjórnvalda ríkir furðuleg þöggun um þessi mál. Hví skyldi svo vera?
Áhrif bílaeignar á samkeppnishæfni almenningssamgangna
Það er vel þekkt að í litlum bílaborgum með háa bílaeign er mjög erfitt fyrir almenningssamgöngur að keppa við einkabílinn. Á fyrrgreindri málstofu Vegagerðarinnar í október s.l. hélt Albert Skarphéðinsson, verkfræðingur hjá Mannvit, erindi um nýja samgöngulíkanið. Hann greindi frá því að skoðað hafi verið hvaða áhrif það myndi hafa á umferðarspána 2034 ef bílaeign væri aðeins 550 bílar pr. 1.000 íbúa. Niðurstöðurnar urðu þær að hlutur ferða með bílum lækkaði úr u.þ.b. 90 % niður í um 80 % og hlutur ferða með almenningsvögnum hækkaði úr 4,7 % upp í u.þ.b. 10 %. Hlutur ferða á reiðhjóli hækkaði úr 5,3 % upp í u.þ.b. 10 %.
Það eru nokkur ár síðan það kom fram að væntanlegt BRT-kerfi í Stavanger, „Bussveien“, er ein helsta fyrirmyndin að Borgarlínunni.
Um er að ræða 50 km hraðvagnakerfi í hæsta gæðaflokki og verður lokið við kerfið á næstu árum. Umfang hraðvagnakerfisins verður Evrópumet. Bílaeign hér á höfuðborgarsvæðinu er ein sú mesta í heiminum og miklu hærri en á Stavangersvæðinu. Þess vegna er fáránlegt að nota Stavangersvæðið sem fyrirmynd. En skipulags- og samgönguyfirvöld hér ætla samt að toppa frændur okkar í Stavanger og byggja 60 km hraðvagnakerfi í hæsta gæðaflokki. Það yrði þá líklega nýtt Evrópumet og örugglega heimsmet ef miðað er við höfðatölu.
Höfundur er samgönguverkfræðingur.