Ég hef búið erlendis í 11 ár, en er afar treg til að viðurkenna að ég þekki hugtakið heimþrá af eigin reynslu. Að sjálfsögðu myndi ég vilja hafa fjölskyldu og vini mína á Íslandi nálægt mér, en þar sem það er ekki í boði hef ég gert samning við sjálfa mig um að einbeita mér heldur að því að njóta alls þess sem ég hef hér og hlakka bara þeim mun meira til að hitta fólkið mitt þegar ég er stödd í Gamla landinu.
Það eru nokkrir viðburðir sem fá mig til að langa meira heim en ella. Ég iðaði í skinninu þegar haldið var upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna í sumar. Eins fylgdist ég af ákefð með Druslughit öngunni svokallaðri og hefði gjarnan tekið þátt hefði ég komist. Menningarnótt trónir ofarlega á listanum góða, en ég hef reyndar verið svo heppin að komast á hana undanfarið. Sá árlegi viðburður sem togar hins vegar einna mest í mig eru Hinsegin dagar í Reykjavík. Ekki bara vegna þess hvað það gleður mitt litla hækjuhjarta að sjá hinsegin fólk fagna deginum sínum; frelsinu til að fá að vera það sjálft ásamt fengnum réttindum, þó alltaf megi gera betur, heldur einnig vegna gríðarlegrar allmennrar þáttöku í hátíðarhöldunum.
Nú bý ég reyndar ekki í Úganda eða Rússlandi heldur í Ósló. Hér er líka mikið um dýrðir í heila viku á ári eins og líklega í öðrum höfuðborgum í Norðanverðri Evrópu. Sporvagnar skarta hinsegin fánum og borgin ber þess ýmis merki um að hér styðji allmenningur hinsegin fólk, baráttu þeirra og frelsi. Hins vegar er ég nokkuð viss um að það sé einsdæmi að um fjórðungur þjóðar taki þátt í Gleðigöngu hinsegin samlanda sinna! Í öðrum hommavænum löndum flykkist fólk að Gleðigöngunni til að sýna hinsegin fólki stuðning, en á Íslandi er allmenningur ekki einungis með til að sýna hinsegin vinum og vandamönnum stuðning, heldur er hún orðin að sameiningartákni þar sem við fögnum því öll að okkur hefur í sameiningu tekist að skapa þjóðfélag þar sem mannréttindi ákveðins hóps eru ekki talin þeirra einkamál heldur hagur okkar allra.
Til hamingju með daginn, Íslendingar allir. Hvort sem þið eruð svona, hinsegin eða einhvern veginn allt öðruvísi!