Ein af götunum í Hoholiv — bæ rétt austan við höfuðborg Úkraínu, Kyiv — ber nafn Mikhail Lermontov, rússnesks skálds frá 19. öld. Lermontov heimsótti aldrei Úkraínu og aðeins fá ljóð hans snerta úkraínsk efni. En götur um alla Úkraínu eru samt kenndar við hann og aðra rússneska bókmenntajöfra, sem er arfleifð sovéskrar heimsveldisfortíðar.
Bærinn Hoholiv, þar sem háðir voru harðir bardagar í mars síðast liðnum, heiðrar á sama hátt Anton Tsjekhov, Vladimir Mayakovskíj og Aleksander Pushkin. Að gefa götum í hverri borg, bæ og þorpi nöfn er aðeins eitt tæki heimsveldis til að nefna og stjórna nýlendusvæði sínu. Sérhvert áberandi rússneskt nafn var leið til að útiloka annað úkraínskt. Götunöfn eru tæki til að eyða staðbundnu minni.
Stórmenni í bókmenntum Rússlands lánuðu þó ekki bara nöfn sín til heimsveldisáætlana lands síns. Miklu meira en almennt er viðurkennt, hjálpuðu skrif þeirra einnig til við að móta, flytja og festa í sessi heimsveldishugsjón og þjóðernislega heimsmynd Rússlands.
Hvað er með Lermontov? Hann hefur ákveðna ímynd í rússneskum bókmenntum sem rithöfundur, hermaður, málari, kvennamaður og rómantískt skáld. Hann töfraði fram friðsælar myndir af Kákasus, sem fönguðu ímyndunarafl hans eins og svo margra annarra frægra rússneskra rithöfunda. Líkt og Pushkin lést hann voveiflega, af byssuskoti er hann hlaut í einvígi.
En að baki rómantísku stefnunnar snemma á 19. öld býr nokkuð annað: kaldur hrammur heimsveldis. Frægasta ljóð Lermontovs – Mtsyri eða „Nýliðinn,“ samið árið 1839 – er siðferðisleg frásögn af kákasískum munki sem var tekinn til fanga af rússneskum herforingja sem drengur. Lykiltilfinning ljóðsins er vonleysistilfinning: Hin stolta og glæsilega saga íbúa Kákasus liggur í fortíðinni og er glötuð að eilífu, og söknuður aðalpersónunnar eftir horfinni fortíð segir okkur að hann tilheyri hinum sigraða hluta mannkyns.
Í Ulansha, ruddafengnu ljóði Lermontovs, snemma á ferlinum, segir hann frá hópnauðgun rússneskra hermanna á konu; textinn virðist ekki bera nein auðsæ merki um samúð með fórnarlambinu. Annað ljóð, Kavkazets („kákasískt“), gefur í skyn að hinir sönnu Kákasíumenn séu ekki innfæddir heldur rússneskir hermenn sem lögðu undir sig svæðið snemma á 19. öld – rétt eins og sovéskir hermenn sem sendir voru til að ráðast inn í og hernema Afganistan voru í daglegu tali kallaðir „Afganar. ”
Rétt eins og Lermontov sem orti um Kákasus út frá sjónarhorni keisaralegrar rússneskrar nýlendustefnu, orti Pushkin með sama hætti um Úkraínu. Tökum Poltava, ljóð Pushkins um Ivan Mazepa, úkraínska kósakkaforingjann sem gerði uppreisn gegn þáverandi Rússakeisara Pétri mikla þar sem hann var að herða yfirráð Rússlands yfir Úkraínu (og sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti nefndi nýlega sem eftirdæmi, í ræðu um að endurheimta lönd rússneska heimsveldisins).
Fyrir Úkraínumenn er Mazepa tákn þjóðlegrar andspyrnu gegn yfirráðum Rússa og áminning um að á 17. öld braut Rússakeisari sáttmála um að varðveita sjálfstjórn kósakka (Úkraínumanna framtíðarinnar) gegn hollustu við Moskvumenn (Rússa framtíðarinnar). Hvað Úkraínumenn varðaði þá braut Pétur samninginn; fyrir Rússa þótti allt tilkall Úkraínumanna um sjálfstjórn svik – líkt og Pútín heldur fram núna. Pushkin tekur afstöðu með Rússlandi þegar hann lýsir Mazepa sem ótíndum svikara sem mundi „úthella blóði eins og það væri vatn“. Úkraínumenn eru aumkunnarverðir og fyrirlitlegir, eins og segir í ljóðinu, og „unna blóðugum og fornum tíma.“
Sömu skilaboðin má finna í frægri sögulegri skáldsögu rússneska rithöfundarins Nikolai Gogol um Úkraínu: Taras Bulba. Þegar Gogol —úkraínskur að uppruna — aðlagaði sjálfsmynd sína að rússneskri heimsveldisstefnu, eyddi hann miklu af hæfileikum sínum í að sanna að allt sem héti úkraínskt væri úrelt og það sem meira var, grimmt. Að sögn Gogols þurftu fólkið í Úkraínu á rússneska heimsveldinu að halda svo það gæti orðið siðmenntaðar manneskjur.
Það var auðvitað önnur leið til að skoða hlutina. Nokkrum árum eftir að Gogol og Pushkin bjuggu til ímynd sína af úkraínsku kósökkunum sem hluta af úreltri og grimmilegri fortíð, var Taras Shevchenko – úkraínskt skáld, málari og þjóðhetja – að segja samlöndum sínum að andstaða kósakka gegn harðstjórn og sá lýðræðislegi andi sem ríkti á meðal þeirra, væri ekki leifar frá fortíðinni heldur fyrirboði framtíðarinnar.
Skoðun Shevchenko á Kákasus var að sama skapi frábrugðin sýn Lermontovs: ekki friðsælt landslag þar sem rómantísk yfirráð Rússlands höfðu þurrkað út söguna heldur mjög dramatískur vettvangur þar sem ofbeldi keisaraveldis var uppspretta blóðfljóta og andspyrnan var sterk og ósveigjanleg. Boritesya—poborete ("Berjist, og þið munuð sigra"), íkonískt slagorð Shevchenko um uppreisn gegn harðstjórn, kemur úr ljóði hans Kavkaz ("Kákasus") og á jafnt við um baráttu Kákasíu og Úkraínu gegn keisaraveldi Rússlands.
Á meðan Kákasus Lermontovs er drifhvítt, kalt og fjarlægt mannlegum þjáningum, er Kákasus Shevchenko blóðrautt og á kafi í frelsisbaráttu íbúanna. Lermontov skrifar ljóð um hópnauðgun frá sjónarhóli rússneskra gerenda; Ímynd Shevchenko sem snýr aftur er af pokrytka - úkraínska fyrir „fallna konu“. Ögrandi trúarljóð hans Mariia ( „María “) dregur upp hliðstæðu á milli úkraínskrar pokrýtku sem fæðir óskilgetið barn með hermanni frá Moskvu, ef til vill eftir nauðgun, og móður Jesú – einmana, þjáðar mæður. Samúð með konum sem urðu fyrir kynferðisofbeldi er svar Shevchenko við skáldskap Lermontovs um nauðgun - þar sem í báðum tilfellum er gerandinn rússneskur og fórnarlambið hernumin manneskja.
Þegar farið er að leita eftir því kemur í ljós að rússneskar bókmenntir eru stútfullar af heimsvaldastefnu, rómantískum landvinningum og grimmd, en um leið ríkir þögn um afleiðingarnar. Þótt verkin virðist sýna samúð með þegnum í nýlendum keisaraveldisins, eins og í Taras Bulba eða Mtsyri, er þessi samkennd aðeins rómantísk hugmynd um þau dapurleg örlög þegnanna er þekkja ekki annað en eilíft framtaksleysi og kúgun. Á sama tíma og evrópska austurlandafræðin (oríentalisminn) var að þróa þá ímynd af afrískum og asískum samfélögum að þau ættu sér enga sögu þess virði að segja frá, voru rússneskar bókmenntir að skapa þá ímynd af Kákasusþjóðunum og Úkraínu að ofbeldisfull saga samfélags þeirra ætti eingöngu skilið að gleymast.
Samsvörunin við rússneska landvinningapólitík nútímans má finna víða og hún ristir djúpt. „Þið rógberar Rússlands“ eftir Pushkin er merkilegt dæmi um and-evrópskan bækling sem talar fyrir árásargjarnri rússneskri heimsvaldastefnu. Meðferð hans á pólsku uppreisninni 1830-1831 er að sumu leyti lík þeirri skoðun Kremlverja nú til dags á hinum svokölluðu litabyltingum í fyrrum Sovétlýðveldum. Pushkin hótar Evrópu opinskátt með stríði („Höfum við gleymt að sigra ennþá?“) og minnir lesendur á gífurleg völd og landvinninga Rússa („Frá heitum gresjum Kolkis að snæviþökktum fjöllum Finnlands“).
Hugmyndafræði Pushkins fellur vel að orðræðu nýrrar heimsvaldastefnu nútímans. Eitt af slagorðum Rússa í stríðinu milli Rússlands og Úkraínu hefur verið „við getum gert það aftur“ – þar sem meðvitað er vísað í fyrri eyðileggingar- og landvinningastríð til að hræða ímyndaða óvini Rússlands. Á sama hátt fagnaði rússneska skáldið Fjodor Tyutchev, er var samtímamaður Pushkins, að þegar byltingar skóku Evrópu 1848 væri rússneska heimsveldið varnarvígi Evrópu er kæmi í veg fyrir að hið hættulega lýðræði gæti breiðst út - rétt eins og Rússland í dag er fyrirmynd einveldisdólga og styður andlýðræðisöfl, bæði til hægri og vinstri í Evrópu.
Þegar vestrænt fræðafólk vísar til gullaldar rússneskra bókmennta á 19. öld sem vitsmunalegrar baráttu á milli vestrænna viðhorfa og slavneskrar menningar, yfirsést því þjóðernis- og heimsvaldasinnuð undiralda sem er sameiginleg báðum fylkingunum. Jafnvel hinir svokölluðu vestrænt þenkjandi voru fylgjendur rússneskar sérstöðuhyggju, og breyttust oft í róttæka andstæðinga þess sem þeir töldu að frjálslynd Evrópa stæði fyrir og studdu þess í stað harðstjórnarlíkan samfélagsins. Fáir höfundar sýna þetta fyrirbæri betur en rússneski rithöfundurinn Fjodor Dostojevskí, sem snerist frá sósíalískri róttækni í æsku til einarðs bókstafstrúarmanns síðar á ævinni. Frægt var er hann sagði að rússneskir sósíalistar og kommúnistar væru „ekki Evrópubúar“ og „þeir munu enda á að verða sannir Rússar“ – með öðrum orðum, enda með því að hafna Vesturlöndum. Í skáldsögunni Djöflarnir lýsir Dostojevskí vestrænum hugmyndum sem „djöfullegum“ freistingum sem beri að fordæma.
Burtséð frá því hvort þessir rithöfundar aðhylltust vestrænar hugmyndir í orði eða ekki, þá hjálpaði þjóðernissinnuð heimsveldissýn þeirra til við að leiða Rússland til meiri harðstjórnar, ekki minni. Meira að segja framsæknar vestrænar hugmyndir féllu á rússneska grund og umbreyttust þar síðan í nýja og öflugri harðstjórn – hvort sem það var á tíma nútímavæðingar Rússlands undir stjórn Péturs mikla á átjándu öld eða bolsévika á þeirri tuttugustu, en morðóð harðstjórn þeirra byggði á evrópskum sósíalískum hugmyndum.
Allt þetta er enn til staðar í dag. Þegar Rússar eyddu Tsjetsjníu á tíunda áratug á síðustu aldar, réru undir og komu af stað aðskilnaðarbaráttu í Moldóvu og Georgíu á sama tíma, réðust síðan inn í Georgíu árið 2008 og léku sama leikinn í Úkraínu árið 2014, áttu þessi grimmdarverk sínar vitsmunalegu undirstöður í hinum miklu sígildu rússnesku bókmenntum og viðhorfum höfunda þeirra, er hallir voru undir nýlendustefnu og landvinninga heimsveldisins.
Enn þann dag í dag eru verk þessara höfunda að segja Rússum að það sé ekkert nokkurs virði í löndunum sem rússneskir hermenn hernumdu. Þegar Pushkin sýndi úkraínska kósakka sem blóðuga og grimma, var það bara 19. aldar útgáfan af áróðursfrásögn nútímans um Úkraínumenn sem meinta nasista sem eiga ekki önnur sögulegt örlög en uppgjöf og dauða. Þegar Tyutchev sýnir Rússland á 19. öld sem glæstan frelsara Evrópu undan lýðræðinu, endurómar hann baráttu Pútíns sem vill kollvarpa litabyltingum í Úkraínu og víðar.
Rússnesk menning er að sjálfsögðu engin ein orsök fyrir rússneskum glæpum og tengsl menningar og stjórnmála eru aldrei línulegar. En það er barnalegt að halda að rússnesk menning sé flekklaus og laus við heimsvaldaumræðuna sem hefur verið kjarninn í rússneskum stjórnmálum um aldir. Og þrátt fyrir að vestrænir háskólar rannsaki heimsvaldastefnu og viðhorf til Austurlanda í vestrænni bókmenntakanónu – skáldsagnahöfundarnir Gustave Flaubert, Rudyard Kipling og Joseph Conrad koma strax upp í hugann – hafa þeir nánast algjörlega litið framhjá sambærilegum efnistökum í bókmenntum síðasta óendurskoðaða nýlenduveldis heimsins, sem stendur í keisaralegu landvinningastríði, nú um stundir þegar þessi orð eru rituð.
Þannig að ef leitað er að rótum rússnesks ofbeldis gagnvart nágrönnum sínum, löngun þess til að þurrka út sögu þeirra, menningu og rótgróna andúð á hugmyndum frjálslynds lýðræðis, þá má finna nokkur af svörunum á síðum bóka skáldjöfranna Pushkins, Lermontovs og Dostojevskís.
Höfundur er menntaður heimsspekingur, og bókmenntafræðingur ritstjóri UkraineWorld, stjórnandi greininga á Internews Ukraine og heldur úti hlaðvarpsþættinum Explaining Ukraine. Twitter: @yermolenko_v
Greinin birtist fyrst í Foreign Policy.
Ástþór Jóhannsson þýddi.