Er ég sá eini sem heyrir yfirgengilega mikið sagt um of lítinn pening í heilbrigðiskerfinu?
Er ég sá eini sem las fréttina um maurana í Landspítalanum?
Er ég sá eini sem finnst það ótrúlega skringilegt að byrjunarlaun presta séu hærri en lækna?
Nú hyggur starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins á það að endurgreiða Þjóðkirkjunni þær 660 milljónir sem hún skar niður umfram aðrar stofnanir eftir efnahagshrunið. Ekki einu sinni fara þessar milljónir í laun presta. Þau eru nógu há fyrir; 585.000 krónur á mánuði, byrjunarlaun. Þessar milljónir fara í „bætta aðstöðu” fyrir starfsmenn kirkjunnar.
Sigurður Bjartmar Magnússon.
Það ætti að vera borðleggjandi að þessar 660 milljónir ættu frekar að fara í heilbrigðiskerfið. Finnum einn einstakling sem er hvorki prestur né sérhagsmunaðili í þessu máli sem telur þessar 660 milljónir frekar eiga heima í Þjóðkirkjunni en í heilbrigðiskerfinu. Að þessi peningur eigi frekar heima í stofnuninni sem 62% þjóðar er andvíg að sé tengd ríkinu. Ég dreg ekki úr starfi kirkjunnar. Ég geri mér grein fyrir mikilvægi sáluhjálparaðstoð hennar og annarra starfa. Ég vel kirkjuna ekki eina og sér af öllum stofnunum til að rægja af engum sökum. Ef meirihluti þjóðarinnar, 62%, styður aðskilnað ríkis og kirkju, þá á hann að láta heyra í sér.
Fjársvelti er mikið í heilbrigðiskerfinu og spítalar uppfullir af ævafornum tækjum og tólum. Spítalar og slíkar stofnanir eiga að vera í algjörum forgangi hvað varðar kaup á nýjum búnaði. Hvernig getur manneskjum dottið það í hug að dæla hvorki meira né minna en 660 milljónum í Þjóðkirkjuna þegar jafnmikil óánægja er með ástandið í heilbrigðiskerfinu?
Leyfum læknunum í verkfallinu að gelta að vild um hærri laun. En dokum aðeins við – voru prestarnir að biðja um betri stóla og Iittala-glös? Látum þá fá 660 milljónir!
Hvort viljum við betri og nýrri búnað á spítala eða ánægðari presta með gylltar biblíur?