Þegar Brynjar Níelsson var í prófkjörsbaráttu í vor skrifaði hann pistil um takmarkaðan kjörþokka sinn. Pistillinn komst í fréttirnar enda hafði hann vafalaust nokkuð skemmtanagildi. Fólk hefur gaman af frambjóðanda sem tekur sig mátulega alvarlega. Meðal þess sem Brynjar mun hafa nefnt var að hann hafi leitað til sérfræðings í hegðun, framkomu og atferli fyrir stjórnmálamenn sem hafi upplýst hann um að „truntuskapur, fúllyndi og kaldhæðni“ væri ekki viðeigandi fyrir stjórnmálamann.
Þótt þetta hafi verið grín sem skilaði að lokum takmörkuðum ávinningi í prófkjörsbaráttunni, þá er þarna á ferðinni raunverulega áhugavert umræðuefni. Sérstaklega nú þegar kosningar nálgast. Spurningin sem gjarnan má velta upp er hverjir eigi erindi í framboð og hvort eitthvað geti útilokað stjórnmálaþátttöku. Geta orð, hegðun eða atvik – jafnvel persónuleiki – orðið þess valdandi að fólk verði að segja sig frá hlutverkum sem metnaður þeirra stendur til? Getur það jafnvel þurft að stíga til hliðar eftir að hafa tekið við hlutverkinu?
Bandaríski repúblikaninn Marjorie Taylor Green er líklega einn umdeildasti stjórnmálamaður samtímans. Í hvert sinn sem hún tjáir sig um eigin áform í stjórnmálum gengur hún fram af fólki. Flest af því sem hún hefur sagt kjarnast raunar í því viðhorfi hennar að staðreyndir þurfi ekki að vefjast fyrir frambjóðendum. Stjórnmálamaður sem lætur hafa slíkt eftir sér dæmir sig úr pólitísku lífi að mínu áliti. Trú á staðreyndir er nokkurs konar frumskylda kjörins fulltrúa. Gegn því viðhorfi mínu er gjarnan stefnt þeirri skoðun að það séu einungis kjósendur sem eigi að segja til um hverjir eigi sér framhaldslíf í stjórnmálum. Ef meirihluti þeirra gerir ekki kröfu um að frambjóðendur lifi í raunveruleikanum þá sé engin sérstök siðferðileg skylda til staðar um að trúa á staðreyndir.
Það fer ekki fram hjá neinum að það er geysilega mikið framboð af fólki þessa dagana. Kaldhæðnir einstaklingar tala stundum um offramboð þegar framboðslistar eru kynntir í aðdraganda kosninga. Má jafnvel stundum tala um þjóðarsport að gera lítið úr listunum og býsnast yfir mannvalinu sem er í framboði. Slíkt tal er nú varla til að styrkja lýðræðið og um leið skyggja slíkar alhæfingar á mikilvæga umræðu um að við eigum að gera siðferðilegar kröfur til þetta sem leitast eftir að gerast kjörnir fulltrúar. Enginn er svo ómissandi að við ættum að „horfa í gegnum fingur okkar“, eins og stundum er sagt.
Ég hef stundum tjáð mig opinberlega um þessa skoðun mína. Og þá hef ég jafnvel fengið það framan í mig að ég geri allt of miklar kröfur til kjörinna fulltrúa. Hannes Gissurarson mun einu sinni hafa skrifað um að ég sé einhvers konar forgöngumaður um það sem hann kallar „afturköllunarfár“ gegn stjórnmálamönnum og að ég ráðist sérstaklega að hægri mönnum. Nú hef ég ekki nokkurn áhuga á að rökræða við hann um hverjir teljist ekki-hægrimenn eða mínar eigin pólitísku skoðanir. Ég get hins vegar ekki annað en minnst á að Hannes misskilur eitthvað hlutverk mitt í opinberri umræðu. Sjálfur fer ég ekki í fjölmiðla til að lýsa yfir afstöðu minni um einstök mál, en ég svara ef ég er spurður.
Stundum skrifar maður hins vegar greinar um almennar skoðanir sínar. Tilefni þessara skrifa hér að nú er komið enn og aftur að kosningum. Á síðasta kjörtímabili komu upp nokkur atvik og umræður þar sem spurningar vöknuðu um hvort einstaklingar ættu að íhuga stöðu sína sem kjörnir fulltrúar. Kröfur komu fram um að þeir segðu af sér. Sumir tóku undir þær meðan aðrir vildu bíða til prófkjörs eða kosninga. Mér finnst örlítið bagalegt að aldrei náðist að fá þessa umræðu nægilega fram. Senn hefst nýtt kjörtímabil án þess að fyrir liggi hvaða siðferðilegu kröfur almenningur gerir til kjörinna fulltrúa. Og áður en við vitum af fara upphrópanir og stóryrði af stað aftur við næsta hneyksli íslenskra stjórnmála. Og við höfum ekki gert það upp við okkur hvað sé mikilvægast í okkar augum.
Yfirlýst verkefni síðasta kjörtímabils var að efla traust til íslensks stjórnmálalífs. Mest af því sem gert hefur verið hefur lítið að gera með að efla traust. Gagnsæi og reglusetning hafa orðið að haldreipi. Síðast þegar ég vissi var hvoru tveggja andstæðan við traust. Hugtakið traust notum við yfir samband fólks þar sem annar aðilinn (eða aðilarnir) þarf að gæta að trúverðugleika gagnvart hinum sem er berskjaldaður í stöðu sinni. Samband kjörinnar fulltrúa og kjósenda er þessa eðlis. Kjósendur verða að geta treyst fulltrúum sínum til ákvarðanatöku. Fulltrúalýðræði byggir á því að almenningur getur ekki haft til að bera sömu upplýsingar og hæfni. Almenningur hefur ekki tækifæri til að setja sig inn á mál á sama máta og er því í berskjaldaðri stöðu. Hann verður að treysta fulltrúum sínum.
Ef kjörnir fulltrúar bera einhverja frumskyldu – aðra en að lifa ekki í einhverjum hliðarveruleika við okkur hin – þá er það að vinna stöðugt í trúverðugleika sínum. Og siðferðileg staða þeirra verður ávallt að vera metin í því ljósi. Þegar upp koma erfið mál standa stjórnmálamenn andspænis ólíkum kostum sem litast af eðli þessara mála. Það er ekki eins og afsagnir séu eina leiðin sem stendur til boða. Trúverðugleiki liggur fyrst og fremst í því að láta í ljós skilning á eðli þess hlutverks sem maður gegnir. Stundum er ekki síður mikilvægt – og nægilegt – að gangast við því sem gagnrýnivert er. Að biðjast afsökunar getur mögulega gagnast býsna langt til að rétta við trúverðugleika sinn. En það fer einnig eftir því hvaða hlutverki maður gegnir. Það getur verið ríkari krafa um að ráðherra segi af sér heldur en óbreyttur þingmaður.
Í þessu samhengi er tvennt sem er mikilvægt er að taka fram. Stjórnmálalíf sem byggir ekki á trausti er mögulegt. Hver veita nema það sé eftirsóknarvert og henti íslenskri þjóð betur. En þá skulum við líka sammælast um að vera ekki að tala um traust (og trúverðugleika) og mikilvægi þess í kringum kosningar. Það má auðveldlega skerpa á siðareglum og auka gagnsæiskröfur umtalsvert og senda þannig þau skilaboð að traust sé ekki ofarlega á dagskrá. Síðara atriðið er að ef við viljum að stjórnmálalíf byggi á trausti þá megum við ekki gleyma því að traust er ekki það sama og vinsældir. Trúverðugleiki er ekki metinn í kjörkössum.
En hvernig er þá trúverðugleikinn metinn? Auðvitað er ekki til neitt endanlegt skapalón fyrir slíkt mat en mér sýnist þó af reynslu síðasta kjörtímabils að nokkur atriði séu þau sem eru mörgum kjósendum efst í huga. Sem dæmi má nefna að fólk ætti ekki fara í framboð ef það er óeðlilega skuldbundið öðrum aðilum (fjárhagslega til dæmis), á erfitt með að sætta sig við að gæta að óhæði sínu í ásýnd við afgreiðslu ákveðinna mála, vill ekki sætta sig við að verða að afþakka boð og fyrirgreiðslu sem það hefur áður þegið, og hafnar því að þurfa að sýna að sér aukið velsæmi og viðeigandi hegðun miðað við áður.
Nú kann einhverjum að þykja þetta óspennandi siðgæðisvarsla og óbærilega kröfur. Ég svara því nú yfirleitt til með því að benda á tvennt. Í fyrsta lagi gera kröfur um trúverðugleika í ákveðnu hlutverki ekki ráð fyrir því að maður skilji við einkalíf sitt. Það á enn að vera til staðar geysilegt rými til að velja sér farveg þar sem maður tjáir og túlkar eigin lífskosti. Þeir hafa fæstir áhrif á tiltekið hlutverk. Síðara atriðið er að við eigum ekki öll heima sem kjörnir fulltrúar. Við eigum fæst erindi í framboð. Og persónulega finnst mér þetta fremur litlar kvaðir sem ég taldi upp hér að framan. Það er nóg annað að fást við ef manni finnst óspennandi að gangast undir slíkt. Og það er enginn skortur á rétta fólkinu sem er traustsins vert, þótt flokkunum gangi stundum illa að koma auga á þessa einstaklinga.
Höfundur er heimspekingur.