Tölur þjóðhagsreikninga um framleiðslu og tekjur á mann duga ekki til að lýsa efnahagslífi lands og þjóðar nema kannski til hálfs. Þessar tölur þarf að vega og meta í samhengi við aðrar hagstærðir. Engum heilvita manni dettur í hug að meta verðbréf með því einu að skoða væntanlegan afrakstur bréfanna. Verðbréf þurfa menn að vega og meta í tveim víddum: ekki bara væntanlegan afrakstur, heldur einnig áhættuna.
Sama ætti að réttu lagi að gilda um landsframleiðsluna. Það er ekki nóg að vita hversu mikil hún er, heldur þurfum við einnig að kunna skil á skiptingu hennar milli manna.
Tökum tvö lönd með sömu framleiðslu á mann en gerólíka tekju- og eignaskiptingu þannig að í öðru landinu hirðir lítill hópur manna næstum allar tekjurnar og á næstum allar eignirnar en í hinu landinu er tekjum og eignum miklu jafnar skipt. Í hvoru landinu vildir þú heldur búa? Í hvoru landinu heldur þú að meiri hluti kjósenda vildi heldur búa? Síðari spurningin svarar sér sjálf.
Tekju- og eignaskipting lá utan við alfaraleiðir hagfræðinga þar til fyrir fáeinum árum þegar misskipting ruddi sér loksins leið inn í meginstraum efnahagsmálanna þar sem hún á heima. Samt virðist misskiptingin vera hálfgert feimnismál. Hagstofur heimsins flagga henni yfirleitt ekki á forsíðum vefsetra sinna þótt þar ætti hún að réttu lagi að vera.
Einn vandinn er sá að tiltækar tölur um tekju- og einkum eignaskiptingu eru ófullkomnar þar eð mikið fé er falið í skattaskjólum eins og heiðvirðir og kjarkaðir blaðamenn hafa leitt í ljós síðustu ár og alþjóðastofnanir eins og Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komast nú ekki lengur hjá að fjalla um í skýrslum sínum. Hagstofurnar þurfa að fylgja þessu fordæmi bankans og sjóðsins.
Margar vistarverur, margar víddir
Tvær víddir duga hagfræðingum ekki heldur til fulls. Við þurfum ekki bara að vita hver landsframleiðslan er og hvernig hún skiptist milli manna heldur þurfum við einnig að vita og skilja hvort undirstaðan sem framleiðslan hvílir á fer vaxandi eða minnkandi.
Við getum spurt hliðstæðra spurninga um gegnsæi, heilbrigði, lýðræði, traust og þannig áfram. Í húsi hagfræðinnar eru margar vistarverur, margar víddir líkt og í eðlisfræði (þar sem strengjafræðingum duga ekki færri víddir en 26, en það er önnur saga).
Lýðræði
Stöldrum við eina þessara hagrænu vídda, lýðræði. Það var ekki fyrr en frekar nýlega að hagfræðingar tóku að gefa lýðræði verðugan gaum sem eins konar hagstærð. Það gerðist þegar mínir menn áttuðu sig loksins á því að hagvöxtur til langs tíma litið lýtur efnahagslögmálum og ekki bara tækniframförum. Mikil verðbólga og vond hagstjórn draga til að mynda jafnan úr hagvexti hvað sem tækniframförum líður svo sem rök og reynsla hafa leitt í ljós. Sama á við um fjölda annarra stærða, ekki bara hagstærða í hefðbundnum skilningi þess orðs, heldur einnig stjórnmálastærða (t.d. lýðræði) og félagsvísa (t.d. langlífi); sjá Þorvaldur Gylfason (2019).
Gildi langlífis skýrir sig sjálft. Langlífi er eftirsóknarvert í sjálfu sér líkt og góð afkoma fólks og fyrirtækja í efnahagslegu tilliti. Framfarir sums staðar um heiminn lýsa sér enn betur og skýrar í batnandi lýðheilsu og lengri meðalævi en í hækkandi tekjum. Auk þess er batnandi lýðheilsa sjálfstæður aflvaki efnahagslífsins þar eð heilbrigður og hraustur mannafli er ánægðari og skilar jafnan meiri afköstum við vinnu sína en lasburða starfsfólk.
Lýðræði er aðeins flóknara mál. Lengi vel var ekki auðveldlega innangengt í félagsvísindum milli lýðræðis og efnahagslífs þar eð menn töldu sig vita fram undir 1990 að hagvöxtur væri til langs tíma litið ónæmur fyrir öllu öðru en tækniframförum svo ósennilega sem sú kenning hlýtur að hljóma í eyrum nútímans. Margir tóku því ekki fullt mark á tölfræðilegum vitnisburðum stjórnmálafræðinga sem bentu til að framleiðsla á mann og lýðræði hneigðust til að haldast í hendur frá einu landi til annars. Síðan kom á daginn að hagvöxtur fer – nema hvað! – einnig eftir fjölmörgu öðru: fjárfestingu, erlendum viðskiptum, menntun mannaflans, innviðum samfélagsins (góð stjórnsýsla, sjálfstæðir dómstólar og fjölmiðlar o.s.frv.) auk margs annars.
Og þá spurðu menn loksins af fullum þunga: Hvert er þá sambandið milli efnahagslífs og lýðræðis eftir allt saman?
Tvö sjónarmið komu fram áður en gagnavinnslan komst í fullan gang. Sumir sögðu: Lýðræði teflir upp í hendur harðsnúinna hagsmunahópa og dregur þannig úr hagkvæmni og hægir á hagvexti. Aðrir sögðu: Lýðræði leyfir öllum röddum að heyrast og þúsund blómum að blómstra, auðveldar friðsamleg stjórnarskipti og eflir þannig hagkvæmni og hagvöxt.
Frekari rannsóknir síðustu ár virðast heldur styðja síðari tilgátuna, þá tilgátu að lýðræði örvi hagvöxt og öfugt. Um lýðræði gegnir að því leyti til sama máli og um lýðheilsu að lýðræði líkt og önnur mannréttindi er eftirsóknarvert í sjálfu sér, svo mjög að mannréttindi eru algild í skilningi laga og trompa því aðrar stærðir samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Þannig kveður Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á um að hægt er að draga menn til lagalegrar ábyrgðar fyrir að brjóta gegn mannréttindum en ekki fyrir að halda fólki í fátækt sé það gert án þess að ganga gegn mannréttindum.
Hvað sem því líður er spurningin um landslag efnahagslífs og lýðræðis um heiminn nú glaðvöknuð. Efnahagslífið er auðmælt í krafti langrar reynslu af slíkum mælingum þótt landsframleiðsla sé ófullkominn efnahagsmælikvarði eins og fram kom í upphafi þessa máls. Lýðræði er á hinn bóginn tormælt því þar er í mörg horn að líta.
Félagsvísindamenn styðjast einkum við þrjár uppsprettur gagna um lýðræði um heiminn.
Maryland
Lýðræðisvísitalan sem helzt er notuð var í byrjun búin til af stjórnmálafræðingum í Háskólanum í Maryland í Bandaríkjunum (Polity5 Project, Center for Systemic Peace) og nær aftur til aldamótanna 1800 þegar lýðræði leit aftur dagsins ljós og fram til ársins 2018 þegar gert var hlé á gagnaöfluninni. Vísitalan er ofin saman úr mörgum þráðum lýðræðis því lýðræði snýst ekki bara um frjálsar kosningar með reglulegu milli heldur einnig margt annað. Vísitalan nær frá -10 í harðsvíruðum einræðisríkjum (t.d. Sádi-Arabía) upp í +10 í óskoruðum lýðræðisríkjum (t.d. Svíþjóð).
Mynd 1 sýnir hvernig lýðræðisríkjum hefur fjölgað úr engu um aldamótin 1800 upp í hundrað 2018 og hvernig einræðisríkjum fjölgaði úr 10 um aldamótin 1900 upp í 90 árið 1990 og hvernig þeim fækkaði síðan aftur niður í 20 árið 2018.
Staðan 2018 var því þessi: 100 lýðræðisríki, 50 fáræðisríki og 20 einræðisríki. Lýðræðisríkin voru þá orðin fleiri en nokkru sinni fyrr, en samt hefur hallað á lýðræði flest árin frá 2006; sjá Larry Diamond (2020). Jafnvel Bandaríkin hljóta ekki lengur hæstu einkunn +10 fyrir lýðræði heldur var einkunn þeirra lækkuð í +8 árið 2016 og hélzt þar 2017 og 2018. Tölur um árin 2019-2023 verða birtar 2024. Þegar hefur verið greint frá því að Bandaríkin féllu niður úr lýðræðisflokknum með einkunnina +6 árið 2020 og voru flokkuð sem fáræðisríki (+5) undir árslok 2020, en einkunn þeirra var hækkuð aftur upp í lýðræðisflokk 2021 (+8).
Ísland er ekki í þessu gagnasafni þar eð lönd með færri íbúa en 500.000 eru ekki talin með.
Washington
Bandaríska stofnunin Freedom House hefur einnig haldið úti lýðræðisvísitölum um flest lönd heimsins síðustu hálfa öld. Þar er um 200 löndum, stórum og smáum, skipt í þrjá flokka: frjáls, frjáls að hluta og ófrjáls eftir þeim einkunnum sem löndunum eru gefnar fyrir ástand stjórnmálaréttinda annars vegar (kosningafyrirkomulag, fjölræði, þátttaka almennings og stjórnsýslu) og borgararéttinda hins vegar (skoðana- og trúfrelsi, fundafrelsi, skilvirkni réttarríkisins og frelsi einstaklingsins). Annar tveggja stofnenda Freedom House 1941 var Eleanor Roosevelt forsetafrú Bandaríkjanna 1933-1945. Freedom House lækkaði lýðræðiseinkunn Bandaríkjanna smám saman úr 93 fyrir 2013 niður í 83 fyrir 2022. Á sama tíma lækkaði lýðræðiseinkunn Íslands úr 100 (fullt hús stiga) 2013 niður í 94 fyrir 2022.
Gautaborg
Síðustu ár hefur Lýðræðisstofnun Gautaborgarháskóla rutt sér til rúms með nýja samsetta lýðræðisvísitölu fyrir flest lönd heimsins og tekur í sama streng og hinar gagnaveiturnar tvær. Á Gautaborgarlistanum skipa Bandaríkin 29. sæti í hópi 179 landa. Ísland er feti framar í 25. sæti. Svíþjóð og Danmörk skipa tvö efstu sætin. Rússland er í 151. sæti og Kína í 172. sæti.
Stjórnmálafræðingarnir í Gautaborg skipta lýðræði í fjóra flokka: Opin lýðræðisríki (e. liberal democracies), lokuð lýðræðisríki (electoral democracies), opin einræðisríki (electoral autocracies) og lokuð einræðisríki (closed autocracies). Mynd 2 sýnir fækkun í flokki opinna lýðræðisríkja frá 2006. Hnignun lýðræðis lýsir sér sem sagt með tvennum hætti: annars vegar með lægri einkunnum landa sem flokkast þó áfram sem lýðræðislönd eins og hjá þeim í Maryland og hins vegar með fækkun í flokki lýðræðislanda eins og hjá þeim í Gautaborg. Hér er engu ósamræmi til að dreifa heldur ólíkum áherzlum og skilgreiningum.
Að endingu
Lýðræðið er ein merkasta uppfinning mannsandans, næsti bær við eldinn, hjólið og hjónabandið frá mínum bæjardyrum séð, og hefur borið ríkulegan ávöxt þegar alls er gætt.
Höfuðkostur lýðræðisins er ekki sá að það skili endilega ævinlega beztu hugsanlegu niðurstöðu og stjórnvizku. Nei, höfuðkostur lýðræðisins er sá að það leiðir af sér þá reglu að menn þurfa að sætta sig við leikreglur lýðræðisins, þar með talin sú regla að menn uni niðurstöðum lýðræðislegra kosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna hvort sem þeim sjálfum líkar niðurstaðan eða ekki.
Ein myndbirting hnignunar lýðræðis í Bandaríkjunum og á Íslandi undangengin ár er sú að Donald Trump, þá Bandaríkjaforseti, og menn hans reyndu hvað þeir gátu til að komast hjá að hlíta úrslitum forsetakosninganna þar vestra 2020 líkt og Alþingi hefur ekki enn fengizt til að hlíta niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um nýja stjórnarskrá.
Ekkert þessu líkt gæti gerzt annars staðar á Norðurlöndum.
Höfundur er doktor í hagfræði.
Tilvísanir
Larry Diamond (2020). „Breaking Out of the Democratic Slump,“ Journal of Democracy 31(1), janúar, bls. 36-50.
Lýðræðisstofnunin í Gautaborgarháskóla (2022). V-Dem Institute.
Þorvaldur Gylfason (2019). „From Equality, Democracy, and Public Health to Economic Prosperity.“
Þorvaldur Gylfason (2020). „Falsaðar hagtölur,“ Vísbending, 11. nóvember.