Fólksfjölgunarspá Pew Center frá 2015 gerir ráð fyrir pólskiptum í landslagi trúarbragða heimsins næstu áratugina:
2050 mun útbreiðsla Islam nálgast útbreiðslu Kristninnar.
2070 yfirgnæfa múslimar kristna, sem í besta falli munu halda í við mannfjölgun.
Árið 2010 voru kristnir langfjölmennasta trúarhreyfing jarðarinnar, 2.2 milljarðar, eða u.þ.b. 31% hlutfall heildarfólksfjölda, 6.9 milljarða. Islam var í öðru sæti með 1.6 milljarða, eða 23% af heildar mannfjölda.
Haldist núverandi þróun óbreytt, mun Islam nálgast leiðandi útbreiðslu upp úr miðri öld eða innan 30 ára. Fólksfjölgunarspá Pew Center, 2010-2050 gerir ráð fyrir 35% aukningu jarðarbúa. Á sama tímabili gerir spáin ráð fyrir fjölgun múslima, sem eru hlutfallslega yngri og frjósamari, um 73%. Samkvæmt spánni mun kristnum einnig fjölga um 35%, sem er þó einungis í takt við almenna fólksfjölgun. Þannig mun Kristni standa í stað miðað við fólksfjölgun á sama tíma og Islam vaxa mjög.
Vestræn þjóðríki, flest hver, hafa borið gæfu til að þróast í átt umburðarlyndis og geta þess vegna skilgreint sig sem fjölmenningarsamfélög. Lýðræði, jafnrétti kynjanna, og þar með tjáningarfrelsi, grundvallar hugmyndafræðina sem stjórnkerfi og siðmenning Vesturlanda hvílir á. Kristnin á þarna hlut að máli og verulegan þátt í sköpun samfélaganna eins og við þekkjum þau. Kristnin er ekki einungis einkennandi í þjóðfána margra vestrænna ríkja, heldur grunnur að siðvæðingu þeirra: Heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, réttarkerfi og sá jöfnuður og dreifing auðs sem skattkerfin grundvallast á er að ýmsu leiti sprottin upp úr Kristninni. Vestræn þjóðríki hvíla þannig á hugmyndafræði mannúðar og trú á að kærleikur úthýsi illsku og óréttlæti, þó sú vegferð hafi verið, og sé í senn, löng og torfarin.
Saga baráttu fyrir mannréttindum kennir okkur að lýðræðið og tjáningarfrelsið er síður en svo sjálfgefið og þarf að standa vörð um.
Hvað er Kristni?
Gullna reglan er meginstoð kristinnar siðfræði. Hana er að finna í Matteusarguðspjalli og er úr ræðu Jesú Krists sem kallast fjallræðan. Gullna reglan hljóðar svo með orðum Jesú: „Allt sem þér viljið að aðrir geri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“
Álíka kenningu og gullnu regluna er að finna víðar í sögunni en hjá Jesú. Til að mynda kenndi kínverski spekingurinn Konfúsíus löngu fyrir daga Jesú: „Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér, þá mun engum mislíka við þig.“ Mahabharata hindúismans sagði: „Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér.“ Hillel, einn fremsti rabbíni gyðinga sem var uppi um svipað leiti og Jesús sagði: „Ekki gera öðrum það sem er andstætt þér – þetta er kjarni lögmálsins, allt annað eru bara skýringar á þessu.“ Samsvarandi upptalning á afbrigðum gullnu reglunnar gæti haldið áfram.
Jesú er hins vegar sá eini sem sett hefur þessa reglu fram með orðalaginu sem birtist í fjallræðunni og gerir gæfumuninn. Þannig varð kærleikur án skilyrða allt í einu þungamiðjan. Boðskapur Jesú var sveipaður dýpri visku en menn áttu að venjast – hann varð mannkyni einfaldlega opinberun. Jesú var byltingamaður sem krufði margar fyrri kenningar og umbreytti hefðbundnum viðmiðunum samtímans og hugarfari mannkyns í kjölfarið. Hann hóf gjarnan ræðu sína með því að segja: „Þér hafið heyrt að sagt var, en ég segi yður.“ Þannig umbylti hann einnig gullnu reglunni.
Boðskapur hans inn í framtíðina var skýr: Kristinn maður á ekki einungis að láta vera að gera öðrum eitthvað sem hann vill ekki að þeir geri sér. Heldur á hann að taka frumkvæðið og gera fyrir aðra það sem hann myndi vilja að þeir gerðu fyrir sig. Kristnum manni ber þannig að fylgja hjartanu og ganga fram fyrir skjöldu af ást og hugprýði án þess að ætlast til nokkurs í staðin. Honum ber að gera gott í nafni kærleikans en ekki aðeins láta vera að gera illt. Á þessu tvennu er reginmunur.
Með gullnu reglunni gerir Jesú þannig umhyggjuna fyrir náunganum að kjarnanum í lífi hvers kristins manns. Gullna reglan, eins og hann setti hana fram, er því byltingarboðskapur. Og sem slíkur undirstaða mannhelginnar og hugmynda vestrænna samfélaga um mannréttindi.
Kirkjan, sem nefnd hefur verið líkami Krists, óx af þörf mannsins til að finna sér tilgang með lífinu - að finna æðri tilgang með daglegum veruleika. Kirkjan varð þannig umleitan við þörf mannsins til að skilja, og á einhvern hátt samsvara, veruleika grundvallaðan á eftirbreytni þriggja ára í lífi eins manns. Ekki bara einhvers manns, heldur manns með hreina sál. Manns sem bjó yfir svo fallegum kenndum og hreinleika að valdkerfi samtímans, trúarleg sem veraldleg, sáu sér þann kost vænstan að losna við og útrýma - eða svo langt héldu þeir að vald þeirra næði.
Jesú var nefnilega manninum og mislögðum kerfum hans ógn. Það var hann fyrir tvö þúsund árum síðan og er það æði mörgum enn í dag. Kristin kirkja var því ekki stofnuð sem valdkerfi. Hún var stofnuð gegn valdkerfum, kreddum, misrétti og illsku. Uppruni hennar er hjá Jesú og fylgjendum hans – því fólki sem varð vitni að visku hans og undraverkum. Fólki sem yfirgaf sitt fyrra líf og fylgdi honum af hrifningu yfir ástinni og kærleikanum sem Jesú auðsýndi öllum – einnig andstæðingum sínum.
Hjá Jesú var kærleikurinn og trúin ávallt lausnin að líkninni. Lausn þeirrar uppsprettu samúðar, lækninga og kraftaverka sem raungerðist fyrir tilstilli bænarinnar. En ekki bara kærleikurinn, heldur kærleikur án skilyrða sem er kennd sem móðir brjóstmylkingsins þekkir best gagnvart reifabarni sínu. Þessi kennd Jesú í garð alls mannkyns, einnig kvalara sinna, var sú byltingakennda uppljómum og hreyfiafl sem leysti úr læðingi kristnina – þessa hugmyndafræði sem fyllti eðlislæga þörf mannsins fyrir ást og betra líf öllum til handa.
Trú grundvallast á innri þörf mannsins til að vaxa andlega og víkka út hugsunina – að nema hin óþekktu svið tilverunnar. Jesú var birtingarmynd ástarinnar og svar við þessari þörf í grunneðli mannsins – að elska og trúa. Líf hans og gjörðir samsvöruðu þannig eðlislægri þörf mannsins fyrir að lifa og vaxa í þeim frumkrafti sem ástin og Guð samsvara. Einu gilti þó hann hafi beðið ósigur í mannheimum og hafi opinberlega endað jarðvistarlíf sitt í kvalarfullri aftöku mitt í háðsglósum yfirvalda og almennings - þar sem Jesú snart hjörtu og vitund manna, gat takmarkað breytt því sem orðið var. Kristin kirkja var því stofnuð af mannfólkinu fyrir mannfólkið, grundvölluð á þeirri fallegu lífssýn sem Jesú birti manninum fyrir tvö þúsund árum.
Kristin kirkja hefur þannig verið þungamiðja boðunar Jesú Krists. Hún hefur auðgað menningu og gildi samfélaganna grundvallað á hreinlæti, sagnaritun, bókmenntum, kenningum, listum, mannvirkjagerð, vísindum og hjálpræði til handa sjúkum, fátækum og útskúfuðum. Kirkjan hefur þannig leitast við að boða lífssýn Jesú í orði og verki. Kirkjan og víðfeðm starfsemi hennar í uppbyggingu sjúkrahúsa og líknarsamtaka á sér engan samjöfnuð í sögulegum samanburði. Þannig hefur kristin kirkja sem alþjóðleg trúarhreyfing ýmist stofnað til, eða alið af sér, flest mannúðarsamtök sem starfrækt eru í heiminum í dag og nemur fjöldi þeirra tugum, ef ekki hundruðum þúsunda á heimsvísu.
Saga kristinnar kirkju er saga mannsins. Tilurð kirkjunnar, sem er ung hreyfing í þróunarsögunni, byggir á tvö þúsund ára tilraun mannsins til að skilja þetta undur sem Jesú var og er. Að reyna að líkja eftir honum í daglegu lífi – að finna honum stað í tilveru mannsins. Það hefur gengið eftir, eins langt og orðið er. Ljóst má vera, að kirkjunni er áskorun á höndum að varðveita og ávaxta þessa fallegu lífssýn í svörun mannssálarinnar og mun tímabil næstu ára, áratuga, alda og árþúsunda leiða þann árangur í ljós.
En hvað er svona sérstakt við Jesú umfram aðra hugsuði og spámenn fyrri tíma?
Hér eru nokkrar af staðhæfingum hans:
Ég er sá sem ég er. - Ég er ljós heimsins. – Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. - Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. - Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. - Ég og faðirinn erum eitt. - Enginn maður getur náð fullkomnun nema gegnum mig. - Ég fyrirgef þér syndir þínar.
Jesú mælti eins og sá sem yfir æðra valdi byggi. Enginn maður í veraldarsögunni hefur stigið þannig fram með Guðlegar staðhæfingar í líkingu við þær sem hann viðhafði – og uppfyllti. Því það sem fyllti orð hans sannleika, meir en fullyrðingarnar sjálfar – og meir en eldri ritningar um komu Messíasar boðuðu, voru athafnir hans og gjörðir, lækningar og kraftaverk, sem enga hliðstæðu áttu eða eiga í veraldarsögunni enn þann dag í dag, tvö þúsund árum síðar.
Jesú hafnaði ofbeldi og kúgun. Hann storkaði ríkjandi valdhöfum og trúarkerfum með orðum og gjörningum sem grundvölluðust á kærleika og réttlæti. Hann gekk ekki einungis gegn kreddum, hindurvitni, og hugmyndum manna um refsandi Guð, heldur gegn misrétti, fátækt og mannvonsku. Auðmjúkur, með visku og kærleika að vopni, gekk hann af hugprýði gegn rómverska heimsveldinu og ríkjandi valdkerfum trúar og stjórnmála. Allur hans boðskapur og gjörningar raungerðust í umhyggju, því Jesú vissi að kærleikurinn úthýsti illskunni – að þar sem ástin lifir, ríkir réttlæti og mannúð.
Hann talaði fyrir því að borin væri virðing fyrir börnum sem fullorðnum. Að borin væri virðing fyrir konum sem körlum. Að borin væri virðing fyrir sjúkum sem heilbrigðum og að engri manneskju bæri að þola einelti eða útskúfun. Að allir menn, óháð húðlit, kynþætti, þjóðfélagsstöðu, uppruna og efnahag, ættu kost á jafnræði til lífs, umönnun og lækningu – ef ekki fyrir atbeina hvors annars – þá með íhlutun Guðs fyrir bænina. Hann boðaði þannig í orði og athöfnum að maðurinn gæti orðið hluti af hringrás Guðs gegnum kærleika bænarinnar. Að maðurinn í jarðvistarlífi sínu væri einnig andlegur, auðnaðist honum að finna þá svörun í sál sinni, glæða og hlú að.
Jesú boðaði að lausnarkraftur Guðs væri kærleikur – að Guð væri kærleikur. Hann kenndi okkur að opna hjörtu og vitund fyrir Guði og varpa þannig fyrir róða hræsninni og skinhelginni. Hann sýndi okkur hvernig við gætum afklæðst efanum eins og gamalli slitinni flík og gengið í endurnýjun lífdaga sem betri manneskjur í Guðs ljósi – ljósi kærleikans. Jesú kenndi okkur að trú lifði innra með okkur og væri eðlislæg þörf daglegs veruleika. Hann kenndi okkur að biðja - að farvegur bænarinnar yrði að streyma gegnum hjartað – að við gætum orðið þessi farvegur. Hann sýndi okkur þannig í verki hvernig lækning og kraftaverk raungerðust fyrir fölskvalausa bæn.
Jesú hafði endaskipti á hugmyndum okkar um vald og opinberaði okkur hvernig auðmýkt gagnvart hinu æðra úthýsti hræsninni og yki okkur visku og mátt. Hann auðsýndi okkur þannig mátt viskunnar fyrir andann.
Jesú opinberaði manninum eigin breyskleika. Hann kenndi okkur að iðrast og fyrirgefa. Hann lofaði okkur að við öðluðumst eilíft líf fyrir hreinleika sálarinnar og sannaði eftir líkamsdauða sinn að slíkt gengi eftir. Þannig var upprisa Jesú einstakur atburður í veraldarsögunni.
Kristin hugmyndafræði eru trúarbrögð sem hvíla á heimildum úr lífi eins manns sem sýndi okkur í verki mátt Guðs raungerast gegnum mannssoninn í lækningum og kraftaverkum. Engin önnur trúarbrögð hvíla á jafn bjargföstum frásögnum af undraverkum og lækningum sem skráðar voru af fylgjendum hans sem og andstæðingum.
Jesú storkaði lögmálum náttúrunnar eins og mennirnir þekktu þau. Nú, tvö þúsund árum síðar, hefur vísindalegur þekkingargrunnur mannsins enn enga getu til að skilja eða skilgreina lækningar og kraftaverk hans sem mannleg. Hverju skyldi það sæta, að fyrir tvö þúsund árum síðan hafi orð og gjörðir handverkmanns á þrítugsaldri haft svo varanleg áhrif á viðteknar venjur og hefðir mannkyns, að heilu samfélögin og heimshlutarnir hafi aðlagað siðmenningu sína á eftirbreytni hans?
Saga kristninnar er samofin sögu mannsins og þeirri nútíma samfélagsgerð sem hvílir á lýðræði og tjáningarfrelsi.
Lestur yfirgripsmikillar skýrslu Pew Center um hnignun, eða í besta falli stöðnun fylgjenda kristninnar á heimsvísu, vekur áleitnar hugleiðingar um þær breytingar sem þessi þróun kann að hafa á vestræn samfélög.
Breytingar sem kunna að skekja grunngildi vestrænnar menningar eins og við þekkjum þau. Grunngildi sem m.a. umburðarlyndi fjölmenningarinnar hvíla á.
Höfundur er áhugamaður um betra líf.