Sveinn Valfells birti pistil á mbl.is hinn 15. maí 2015, þar sem hann hvetur til varfærni í töku ákvarðana um sæstreng til Bretland og leggur áherslu á, skýr framtíðarsýn þurfi að vera fyrir hendi. Þessi pistill er dæmi um það hvernig umræðan breytist þegar fram koma gagnlegar upplýsingar um stöðu mála. Á ráðstefnu Kjarnans og Íslenskra verðbréfa um fjárfestingu í sæstreng til Bretlands hinn 20/4-2015 lýsti Charles Hendry, fyrrverandi orku- og umhverfisráðherra Bretlands miklum áhuga breskra stjórnvalda á byggingu sæstrengs, sem hann taldi að endast mundi fram á miðjan næsta áratug. Hann sagði Breta fyrst og fremst hafa áhuga á grunnorku (ensk. „Base Load“), en það er raforka sem er afhent jafnt og þétt allt árið eins og orka til stóriðju hér á landi.
Eftir þessa ráðstefnu, orð Landsvirkjunar og gerðir á undanförnum árum blasir eftirfarandi mynd við. Bretar taka þátt í lagningu tveggja sæstrengja, hvor um sig 600 MW og tryggja reksturinn með annars vegar föstum samningum um 600 MW af grunnorku sem afhend yrði meðan annar hvor strengurinn er virkur og hinsvegar með niðurgreiðslum á allt að 600 MW af ótryggðri orku sem gerði nýjum vindmillum og nýju vatnsafli kleyft að bjóða orku inn á breska markaðinn meðan báðir strengir virka. Fjárfestingar hérlendis vegna þessa yrðu gróflega ágiskað af eftirfarandi stærðargráðu.
Vegna grunnorku 600 MW að afli, orkuflutningur 5000 GWh/ár.
- Jarðvarmavirkjanir: 14 vélasamstæður hver 45 MW á 5 jarðvarmasvæðum. Kostnaður 1500 M USD.
Vegna ótryggðrar orku 500MW að afli, orkuflutningur 2500 GWh/ár.
-
Vindmyllur: 80 myllur hver 5 MW. Kostnaður 200 M USD.
-
Stækkun eldri virkjana Landsvirkjunar um 250 MW. Kostnaður 500 M USD.
Flutningskerfi innanlands skrifað á útflutning. Kostnaður 300 M USD
Til viðbótar kemur fjárfesting í sæstreng sem yrði að mestum hluta bresk.
Með því að stækka eldri vatnsorkuver sín getur Landsvirkjun bæði unnið eitthvað af þeirri vatnsorku sem rennur nú ónotuð fram hjá aflstöðvunum og ekki borgar sig að nýta með öðrum hætti, en einnig getur fyrirtækið hægt á vatnsaflinu og nýtt í staðinn vindorkuna til að hækka í lónum meðan markaðsverð í Bretlandi er lágt og keyrt síðan út aftur þegar verðið hækkar. Fyrirtækið getur einnig nýtt vindorkuna þegar vatnsskortur hrjáir orkukerfi Landsvirkjunar, en sú ráðstöfun getur kostað sitt.
Hér yrði um ræða framkvæmdir upp á meira en 300 milljarða króna og munar um minna. Áhrif þessa á þjóðfélagið fara eftir því hver staða efnahagslífsins verður þegar framkvæmdir hefjast.
Umræðunni hingað til hefur nokkuð snúist um áhrif sæstrengs á verð og öryggi raforkunotenda á Íslandi. Ekki er ólíklegt, að Bretar muni vilja binda samninga sína og niðurgreiðslur við tilteknar nýframkvæmdir, rétt eins og þeir gera heima hjá sér, þannig að hér yrði um að ræða lokaðan markað. Ekki er þá ástæða til að óttast stefnubreytingu fyrirtækja raforkugeirans meðan eignarhaldi þeirra er eins fyrir komið og nú er, þannig að áhrifin á innlenda markaðinn yrðu hverfandi að minnsta kosti meðan fyrirtækin eru ekki komin á almennan hlutabréfamarkað. Það verður svo í höndum stjórnvalda að stýra verðinu, til dæmis með auðlindagjaldi og þá mun væntanlega verða tekið tillit til þess, hvað efnahagslífið þolir. Á þessu stigi er því rétt að beina augum til lengri framtíðar eins og Sveinn Valfells bendir á.
Ljóst er, að þessir samningar munu byggja á breskum niðurgreiðslum og Bretar munu ekki vilja horfa upp á óhóflegan hagnað tengdra virkjana hér umfram það sem þarf til að greiða lánin vegna framkvæmdanna. Þá er spurningin hvað verður ef samningarnir renna út án endurnýjunar. Það þarf þá að vera þannig frá samningum gengið, að þeir séu nógu langir og endi á fyrirsjáanlegan hátt svo tími gefist til að byggja upp annan markað hér innanlands. Skuldlausar virkjanir verða þá fremur tækifæri en byrði.
Fjármálaráðherra setti á dögunum fram hugmynd að áfallasjóði fyrir þjóðfélagið til að rétta úr kútnum eftir kreppur. Hugmyndin var að taka þangað inn auðlindarentu raforkugeirans. Fjárfestingar á borð við þær sem hér er um rætt seinka því að sú renta skili sér, en hún verður þá meiri þegar hún kemur. Það er helsta spurningin um uppbyggingu raforkugeirans hvað hún á að vera hröð. Eigum við að hægja á núna og hirða í sjóð þá auðlindarentu sem núverandi kerfi gefur, eða eigum við að herða á og taka því meira þegar fram í sækir.?
Ef við hægjum á raforkugeiranum núna, þá er álitlegt að leggja samskiptakapal til Evrópu og auka tækifærin á sviði fjarskipta og gagnavera, þannig að fjölbreytni atvinnulífsins og áhætta raforkugeirans dreifist. Þessi kostur hefur ekki hlotið viðhlítandi athygli í umræðunni hingað til.
Með sæstreng herðum við á um sinn, en eigum samt eftir góðan skammt af auðlindinni. Þegar þeir samningar renna út gefst gott færi á að byggja upp kolefnafrían bíla- og skipaflota. Uppbyggingu áfallasjóðs seinkar eitthvað.