Það er auðvelt að missa sjónar á megintilgangi og detta í þras. Á stjórnmálasviðinu gerist þetta gjarnan með þeim hætti að fólkið í pólitíkinni fer að tala við sjálft sig um sjálft sig.
Björt framtíð var meðal annars stofnuð til höfuðs slíkri iðju. Við viljum fyrir alla muni ræða mál, við fólk, af sanngirni og án upphrópana og gera sem minnst af því að „fara í manninn“. Umfram allt viljum við þó framkvæma, gera gagn og ná fram þeim breytingum sem við teljum nauðsynlegar til að samfélagið í landinu blómstri.
Það er svo margt í íslensku þjóðfélagi sem þarf að huga að. Mörg grundvallaratriði sem kalla á athygli. Horfum á þau, frekar en hvert á annað.
Íslenskt samfélag iðar af krafti og frumkvæði. Ungt fólk er þar í fararbroddi, lyftandi hverju lokinu á fætur öðru af gömlum fúnum kössum, kallandi eftir breytingum og framþróun.
Almenningur vill miklu frekar ræða hvað á að gera, heldur en hver á að gera það. Fulltrúar gamla tímans eru hver á fætur öðrum að missa af lestinni, það fylgi sem ekki er bundið beinum hagsmunum tálgast af rótgróna flokkakerfinu á meðan það situr fast í fari gamalla vinnubragða, goggunarraðar og titlatogs.
Almenningur vill miklu frekar ræða hvað á að gera, heldur en hver á að gera það. Fulltrúar gamla tímans eru hver á fætur öðrum að missa af lestinni, það fylgi sem ekki er bundið beinum hagsmunum tálgast af rótgróna flokkakerfinu á meðan það situr fast í fari gamalla vinnubragða, goggunarraðar og titlatogs.
Staðan
Framtíðartækifæri Íslands eru óteljandi ef okkur auðnast að grípa þau. Nógur er krafturinn, svo mikið er víst.
Gróska á vinnumarkaði framtíðarinnar mun aukast um leið og við stökkvum á þau augljósu færi sem við höfum í þekkingu, nýsköpun og þróun ásamt því að gera öllum atvinnugreinum jafnhátt undir höfði hvað opinberan stuðning snertir.
Við þurfum að byggja upp sterka innviði í fjarskiptum, til þess að virkja allar byggðir jafnt, auk þess sem samgöngur í raunheimum þurfa að vera í lagi. Í þessu tilliti þarf landið allt að vinna sem heild, enda erum við ekki lengur bara að takast á við fólksflótta úr sveit í bæ, af landsbyggð í borg, heldur frá landi til umheims. Því fyrr sem við tökumst á við þann veruleika, því betra.
Framtíð okkar vill opinbera staðreyndir, tryggja aðgang að gögnum, vita hvað er á seyði. Og hún er ekki hrædd við að taka frumkvæðið. Á meðan fyrri kynslóðir brenndu undirföt og klæddust rauðum sokkum er nútíminn reiðubúinn að afklæðast alveg til að þvinga fram opnun á gömlum þagnargildum. Við eigum ekki að vera spéhrædd, við eigum að treysta fólki fyrir upplýsingum, þannig eru mestar líkur á að samfélagið taki virkan þátt í eigin umsýslu.
Framtíðin þarf á auðlindunum okkar að halda. Hún má ekki við því að þær séu gefnar fáum eða gerðar upptækar með öðrum hætti eða þurrausnar. Við erum með landið og miðin að láni.
Við verðum að gæta að því hvernig við tökum á móti gestum, þannig að jafnvægi náist milli mikilvægrar atvinnuuppbyggingar í ferðaþjónustu og varðveislu þeirra gæða sem fólk er að koma til að upplifa. Við þurfum að þora að setja mörk, gestirnir munu á endanum þakka okkur fyrir það.
Við verðum að þora að umgangast aðrar þjóðir á jafningjagrunni og eigum að axla ábyrgð andspænis neyð í öðrum löndum sem rekur fólk á flótta. Við eigum að vera mennsk.
Ein verðmætasta auðlind framtíðarinnar er æskan sjálf, sköpunarkrafturinn. Börnin þurfa að komast í heiminn, við verðum að tryggja heilbrigðiskerfi sem hlúir að ungum fjölskyldum hvar sem þær eru og leyfa vaxtarsprotunum að dafna á leið sinni um menntaveginn. Okkar er að styðja og tryggja örugga og greiða leið til þekkingarsköpunar, á þann hátt að kerfið bregðist við þörfum notenda frekar en öfugt.
Íslenskur almenningur er sífellt upptekinn, sífellt starfandi. Lífskjörin leggja fyrir okkur að því er virðist vonlaust dæmi, þar sem skuldbindingar viðhalda sér og vaxa sjálfkrafa en það sem við drögum í bú ekki. Vinnuvikan okkar er alltof löng, sérlega ef saman er borið erfiði og árangur.
Kynslóðirnar í landinu búa við mismunun hvað húsnæðiskjör varðar. Yngsta fólkið stendur höllustum fæti og framtíðarlausnir láta á sér standa.
Ef ég mætti ráða
Ef ég mætti ráða þá væri Ísland land með góðum og umhverfisvænum samgöngum, fyrsta flokks heilbrigðis- og menntaþjónustu, fjölskylduvænum vinnumarkaði sem kallaði til sín frumkvöðla á öllum sviðum á grunni nýrrar jafnt sem rótgróinnar þekkingar af öllu tagi. Horfið yrði frá því að byggja störf aðallega á staðbundnum náttúrugæðum og í ríkara mæli stefnt að landamæralausri nýtingu þekkingar.
Hér væri umgengni um landið í jafnvægi, við tækjum á móti gestum frá öðrum löndum af alúð og ábyrgð, bæði þeim sem kíkja við í svip og hinum sem staldra við.
Við myndum passa upp á auðlindirnar okkar og almenningur fengi meiri arð af nýtingu þeirra en nú er.
Stofnanir okkar myndu, í samræmi við þarfir notenda, styðja vel við íbúana á öllum aldursskeiðum. Vinnudegi fólks væri þannig háttað að næg orka og rými væri fyrir stórfjölskylduna, sem myndi styðja og hvetja holl félagsleg tengsl þvert á kynslóðir.
Ef ég mætti ráða þá væri hver og einn einstaklingur metinn að eigin verðleikum og aldrei dreginn í dilka. Fjölbreytni væri viðurkennd sem verðmæti, tækifæri sett framar hindrunum og kraftar allra nýttir.
Kerfin okkar myndu sýna af sér líf og hreyfanleika, ekki leitast við að viðhalda sjálfum sér heldur búa yfir snerpu til að aðlagast breytilegum þörfum, hugsa út fyrir kassa og laga sig að notendum.
Ef ég mætti ráða þá væri orðið pólitík ekki blótsyrði tengt sérhagsmunagæslu og poti, heldur væri það sjálfsögð iðja okkar allra að hafa áhrif á samfélagsmyndina. Áhrif fólks á samfélagið væru ekki bundin við kosningar á fjögurra ára fresti, heldur væri hægt að láta til sín taka í rauntíma. Almenningur ætti að sjálfsögðu greiða leið að allrahanda upplýsingum, sem er frumforsenda þess að geta tekið upplýsta afstöðu hverju sinni.
Ef ég mætti ráða þá væri orðið pólitík ekki blótsyrði tengt sérhagsmunagæslu og poti, heldur væri það sjálfsögð iðja okkar allra að hafa áhrif á samfélagsmyndina. Áhrif fólks á samfélagið væru ekki bundin við kosningar á fjögurra ára fresti, heldur væri hægt að láta til sín taka í rauntíma. Almenningur ætti að sjálfsögðu greiða leið að allrahanda upplýsingum, sem er frumforsenda þess að geta tekið upplýsta afstöðu hverju sinni.
Ef ég mætti ráða væru fjárhagslegur styrkur og rótgróin ítök ekki lykill að framgangi í stjórnmálaflokkum, almannahagur væri alltaf í forgrunni. Stjórnmálafólk myndi sýna í verki að það er kosið til að þjóna almenningi, tileinka sér þjónandi forystu.
Ef ég mætti ráða væri fólki í auknum mæli treyst fyrir eigin velferð. Stutt væri við frumkvæði á jafnréttisgrundvelli og forræðishyggja minnkuð.
Ef ég mætti ráða yrðu settir skýrari rammar til að styðja þann hluta samfélagsþjónustunnar sem rekinn er af hálfopinberum og einkaaðilum. Jákvætt yrði tekið í aðkomu fleiri en hins opinbera að veitingu þjónustu, ævinlega þó á forsendum samfélagsins og snúið yrði frá eldri aðferðum sem þjóðnýta tap en einkavæða gróða. Arðgreiðslur af grunnþjónustu myndu heyra sögunni til.
Vinnuvika landans er óþarflega löng, þrátt fyrir vitneskju um að lengri vinnutími eykur ekki afköst. Enn er launafólki frekar umbunað fyrir yfirvinnu en aukna þekkingu, enn er launamunur milli kynja. Þetta verður að breytast.
Grundvallarmannréttindi og jöfn tækifæri til samfélagsþátttöku eiga að vera frumkrafa en ekki afgangsstærð. Framlag til túlkaþjónustu á að ráðast af fjölda heyrnarlausra en ekki fyrirframgefinni upphæð á bókhaldslykli, svo nýlegt dæmi sé notað.
Almannaþjónustan á ekki að stjórnast af sérhagsmunum, kjörnir fulltrúar eiga að þjóna almenningi en ekki fjársterkum bakhjörlum. Stjórnmálin eiga ekki að stjórna fjölmiðlum heldur á fjórða valdið að fá frið til að starfa óáreitt.
Af hverju er ég að skrifa allt þetta?
Vegna þess að mér finnst umræðan um það hvað þarf að gerast vera að falla í skuggann fyrir vangaveltum um það hver á að koma því til leiðar. Mér finnst umræðan vera að missa sjónar af aðalatriðunum, af raunverulegum tilgangi okkar sem stofnuðum Bjarta framtíð.
Höfundur situr í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir Bjarta framtíð og er forseti bæjarstjórnar.