Orðið frekja gæti kallað fram mynd af einhverjum að rífa sig í hugum sumra, mynd af agalausu barni í hugum annarra og mynd af einhverju allt öðru hjá hinum. Ég sé frekju fyrir mér sem afstætt fyrirbæri, visst hugarástand sem lýsa mætti sem almennu agaleysi. Að vilja fá eitthvað svona af því bara og helst ekki þurfa hafa of mikið fyrir því.
Valgerður Jónsdóttir.
Mér finnst íslenska þjóðarsálin svolítið frek eftir því sem ég velti þessu meira fyrir mér. Þannig finnst mér íslenska gerviþörfin vera viss frekja.
Safna eða kaupa hluti á raðgreiðslum?
Á dögunum var það rætt í Síðdegisútvarpi Rásar tvö að íslenska þjóðin fengi falleinkunn í fjármálalæsi samanborið við aðrar þjóðir. Þetta tengdi ég strax við gerviþörfina og er ég ekki undanskilin þar. Sjálf á ég iPhone, Macbook pro tölvu og ýmsa dýra innanstokksmuni. Gat ég réttlætt þetta allt fyrir mér á þeim tíma sem fjárútlátin áttu sér stað? Já. Er ég með yfirdrátt? Já. Er ég agalaus? Já, greinilega. Safna sér fyrir fallegum hlutum eða henda þeim á Vísa-rað? Kannski bara Vísa-rað, það er næstum eins og að fá eitthvað gefins. Er nauðsynlegt að eiga allt saman? Nei.
Ég tel að íslenska gerviþörfin, og hugsanlega dass af skammsýni, gætu verið hluti af þeim vanda sem blasir við okkur í dag.
Svona hugsunarháttur einkennist af því sem má kalla afstæðan skort, það er að segja ég lít svo á að ég líði skort af því það eiga svo margir í kringum mig fína hluti. Ef þau eiga fína hluti, þá hef ég rétt á því líka. Þetta held ég að sé mjög sterkt í okkur og ég held þetta brengli sýn okkar á hlutina.
Það væri dásamlegt ef við gætum öll sem eitt breytt forgangsröðuninni okkar. Við viljum vera best og eiga það flottasta en við viljum eflaust líka vera krútt. Íslenska krúttþjóðin þarf að rísa aftur upp og velferðarsamfélaga sig í gang.
Þjóðarátak 2015
Ég tel að íslenska gerviþörfin, og hugsanlega dass af skammsýni, gætu verið hluti af þeim vanda sem blasir við okkur í dag. Spítalinn að hruni kominn, ójöfn skipting lífsgæða, sumir hafa það rosa gott en aðrir lifa á vonarvöl. Við veitum því samt ekki mikla athygli fyrr en við förum að finna það á eigin skinni.
Mig langar til að það verði þjóðarátak 2015 sem felur í sér að við horfum einu skrefi lengra, gerum greinarmun á frekjunni í okkur og alvöru þörf. Við þurfum að bæta þjóðfélagið okkar. Mér sýnist stjórnvöld ekki hafa tök á því þannig að það gæti verið á okkar höndum. Beinum sjónum okkar að alvöru þörfinni, heildarmyndinni. Því sem þarf að laga. Verum íslensku krúttin sem hjálpast að í staðinn fyrir að vera á neyslufylleríi og í keppni með vísa rað.
Höfundur er háskólanemi.