„Ætli við byrjum ekki á því að knúsa barnabörnin,“ sögðu hjónin Sigrún Erla Sigurðardóttir og Páll Ásmundsson í viðtali hjá Ríkisútvarpinu að lokinni bólusetningu við COVID-19 í byrjun mars. Bólusetningin markaði sannarlega tímamót í lífi þeirra hjóna og yfirlýst ætlan þeirra talaði til okkar allra, því öll viljum við nánd við okkar nánustu – fjölskyldu og vini.
Þegar farsóttin braust út fyrir rúmu ári blasti við að bólusetning væri forsenda þess að lífið færðist aftur í fyrri skorður. Að vísindin ein gætu fært okkur frelsið á ný og tækifæri til að njóta lífsins. Mannlíf og mannslíf eru nefnilega sitt hvor hluturinn, en hvoru tveggja eitthvað sem allir þrá og þarfnast. Frelsið sem bólusetning færir þjóðum heimsins er yndislegt og hérlendis gengur hún nokkurn veginn í takt við áætlanir. Enn eru þó nokkrir mánuðir í að hjarðónæmi verði náð og því verðum við að sinna sóttvörnum vel næstu vikurnar. Góð teikn eru á lofti og það er táknrænt að dagsbirtan hafi náð yfirhöndinni yfir myrkrinu og stytti næturhúmið dag hvern.
Alþjóðahagkerfið er styrkjast – atvinnuleysi minnkar
Stærstu hagkerfi veraldar eru að taka við sér á kröftugan hátt. Spár gera ráð fyrir 6% hagvexti á heimsvísu sem er meiri efnahagsbati en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði. Tvennt skýrir þessa jákvæðu þróun; annars vegar gengur bólusetning vonum framar í stærstu hagkerfum veraldar og hins vegar umfang opinberra efnahagsaðgerða og stuðnings. Framhald alþjóða efnahagsbatans ræðst þó alfarið á gangi bólusetningar. Áfram er gert ráð fyrir öflugri viðspyrnu í Bandaríkjunum og að hagvöxtur nemi 6,5% í ár. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ráðist í fordæmalausar aðgerðir til að mæta farsóttinni af fullum þunga, bæði ríkissjóður og Seðlabanki Bandaríkjanna.
Íslenska hagkerfið heldur velli og sækir fram
Íslensk stjórnvöld brugðust faglega við Covid-ógninni og réðust í umfangsmiklar efnahagsaðgerðir til að styðja við hagkerfið. Snör viðbrögð skiluðu miklum árangri, því innlend eftirspurn dróst saman um aðeins tæp 2% á síðasta ári og ráðstöfunartekjur heimilanna jukust. Fyrstu viðbrögð og skýr sýn skiptu sköpum, hagkerfið tók vel við sér og fyrir vikið var þörfin fyrir opinber afskipti minni hérlendis en víða annars staðar. Góður sóttvarnarárangur leiddi líka til aukinnar eftirspurnar og stigveldisþróunar í hagkerfinu.
Hagspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að hagvöxtur á næsta ári verði 5% og stór hluti samdráttar í landsframleiðslu vegna faraldursins gangi til baka á næstu árum. Mikilvægt er að halda mjög vel vöku varðandi efnahagsaðgerðir og stöðugt þarf að huga að ákveðnu jafnvægi í þeim efnum. Þótt margt hafi gengið vel er ljóst að skaðinn af farsóttinni bitnar afar mismunandi á þjóðfélagshópum og atvinnugreinum. Sumir hafa næstum verið tekjulausir, en stjórnvöld hafa róið að því öllum árum að enginn falli milli skips og bryggju í björgunaraðgerðum ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nemur umfang efnahagsaðgerðanna hérlendis 9,2% af vergri landsframleiðslu, sem er það mesta á Norðurlöndunum. Ísland er því í hópi „grænna“ ríkja þar sem umfang stuðningsaðgerða er á bilinu 7,5-10% af vergri landsframleiðslu, en í þeim hópi eru t.d. Danmörk, Belgía, Frakkland, Ítalía og Spánn. Aðgerðirnar voru vel ígrundaðar og fyrir vikið var samdráttur innlendrar eftirspurnar á árinu 2020 einn sá minnsti í Evrópu, eða aðeins 1,9%.
Fjárfest í hugviti og verðmætasköpun til framtíðar
Í gömlu máltæki segir að fátt sé svo öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Krefjandi aðstæður undanfarinna 14 mánaða hafa þannig flýtt fyrir þróun hugverkadrifins hagkerfis, og stuðningi við nýsköpun sem gæti orðið ný stoð undir hagkerfinu. Fjárveitingar til nýsköpunar og þróunar, skapandi greina af ýmsu tagi og menntunar munu fjölga störfum til framtíðar og búa til öflugan mannauð. Leiðin út úr kófinu felst í áframhaldandi fjárfestingu í menntun, nýsköpun og rannsóknum og ríkisstjórnin hefur forgangsraðið í þágu þeirrar framtíðarsýnar. Við höfum lagt mikið kapp á að tryggja menntun og styðja við námsmenn. Fjárveitingar hafa aukist umtalsvert til menntakerfisins á síðustu árum og framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hafa aukist um 70% á kjörtímabilinu. Hagvöxtur og gjaldeyrissköpun verður í auknu mæli drifin áfram af hugviti og því er fjárfesting í hugviti efnahagsaðgerð sem mun til lengri tíma auka fjölbreytileika í gjaldeyrissköpun og draga úr sveiflum í hagkerfinu.
Sókn fyrir námsmenn
Námsmenn á öllum skólastigum hafa sýnt mikla þrautseigju á farsóttartímum. Stjórnvöld munu styðja við námsmenn, skapa þúsundir sumarstarfa á komandi sumri og koma þeim í sumarnám sem vilja nýta sumarið í slíkt. Alls verður um 3 milljörðum króna varið í þessar aðgerðir. Markmiðið er að skapa 2500 störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri og veita tæplega 6000 námsmönnum svigrúm til að stunda nám í sumar. Sams konar úrræði nýttust mörgum nemendum vel í fyrra, spornuðu við atvinnuleysi og styttu leiðina að námsmarkmiðum. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur jafnframt úthlutað 311 milljónum til að fjölga störfum í sumar, en markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til rannsókna- og þróunarverkefna.
Þá er rétt að nefna eitt stærsta hagsmunamál stúdenta um langa hríð og þann mikla áfangasigur sem náðist um mitt síðasta ár, þegar námslánakerfinu var gjörbreytt með nýjum lögum. Menntasjóður námsmann tryggir verulega betri fjárhagsstöðu námsmanna við námslok og lægri endurgreiðslur lána. Höfuðstóll námslána lækkar nú um 30% við námslok á réttum tíma og beinn styrkur er nú veittur til framfærslu barna, en ekki lán eins og áður. Ábyrgðarmannakerfið var lagt niður og verulegur uppgreiðsluafsláttur veittur á eldri lánum. Heilt yfir tryggir nýja námslánakerfið betri og réttlátari stuðning við námsmenn og til að bæta um betur er hækkun á framfærsluviðmiðum nú til skoðunar. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu fyrir 1. maí.
Þessa dagana gengur bólusetning vel og fréttir berast af aukinni framleiðslugetu lyfjarisanna. Hópur bólusettra Íslendinga stækkar hratt og þannig skapast aukin tækifæri til að opna samfélagið okkar. Samhliða erum við farin að sjá til lands og það er að birta til. Víða um heim allan eru hjón líkt og Sigrún Erla og Páll Ásmundsson, sem vita nákvæmlega hvernig þau ætla að nýta frelsið sem bólusetningin færir þeim.
Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.