Þegar talað er um frjálsan markað missir fólk stundum sjónar á því að það eru til mismunandi form markaða sem hafa mismunandi eiginleika. Þetta á kannski sérstaklega vel við þegar talað er um svonefndan frjálsan markað, því þar missir fólk bæði sjónar á því að til eru mismunandi markaðir og á þeirri staðreynd að frelsi er ekki bara eitthvað huglægt grundvallarfyrirbæri heldur kristallast það í því hvaða svigrúm og val fólk hefur í sínu lífi.
Frelsi eins getur þannig hæglega farið að skerða frelsi annarra og það er ekki alltaf einfalt úrlausnarefni að finna jafnvægispunkt þar sem sátt ríkir um.
Markaður með húsnæði er til dæmis svokallaður einokunarsamkeppnismarkaður. Það þýðir að hver og ein vara á markaðnum er einstök og einstakir veitendur vörunnar hafa óveruleg áhrif á verðmyndun á markaði. Þannig er heildarábati ekki hámarkaður heldur verður til allratap vegna þess að verð á markaði er hærra en hámörkun ábata samkeppnisaðila. Opinberar reglur til að draga úr allratapinu geta því vel átt rétt á sér að mati hagfræðinga. Þetta á sérstaklega við um leigumarkað. Það þykir almennt ekki heppileg aðferð að setja fast þak á leiguupphæðir en hins vegar þykja svokallaðar annarrar kynslóðar leigureglur heppilegar. Í þeim felst viðleitni til að vernda leigjendur fyrir hækkunum á leigu umfram markaðsvirði og styrkja stöðu þeirra gagnvart leigusölum. Frelsi eins styrkt á kostnað frelsis annars. Það er allavega viðleitnin þó deila megi um tilgang og nauðsyn.
Annað sem skiptir verulegu máli í þessu samhengi er hið margumrædda Airbnb og áhrif þess á verðmyndun á húsnæði, sér í lagi miðsvæðis. Eðlilega er freistandi fyrir marga að leigja út til ferðamanna sem geta borgað vel. Einnig er freistandi fyrir þá sem eiga peninga að fara út í fjárfestingar í húsnæði gagngert í þeim tilgangi að leigja út, frekar en að búa þar sjálfir. Þegar rætt er um reglur til að sporna við þessari þróun, til dæmis að skylda fólk til að búa í því húsnæði sem það leigir út með þessum hætti, bregðast sumir ókvæða við og tala um frelsisskerðingu. Aftur snýst málið hins vegar um að draga úr einu frelsi til að auka annað.
Nú hefur húsnæðismarkaðurinn, fyrir utan það að vera einokunarsamkeppnismarkaður, líka þann eiginleika að húsnæði er vara sem allir þurfa á að halda, kostar mikið að búa til, og tekur langan tíma að búa til. Framboð dregst þannig eiginlega alltaf aftur úr eftirspurn þar sem ekki er farið út í byggingu húsnæðis fyrr en augljóst er að framboðið mun vera til staðar. Íhaldssemin er því mikil á framboðshliðinni en eftirspurnin getur sveiflast hratt til, sérstaklega á milli svæða. Umframeftirspurnin ýtir auðvitað verðinu upp og dregur úr frelsi hvers og eins sem þarf á húsnæði að halda til að finna sér húsnæði við hæfi á hæfilegu verði. Kostnaður við að eiga þak undir höfuðið hefur síðan áhrif á frelsi fólks til að nýta peninga sína í allt það annað sem það þarf á að halda og því hugnast.
Ásókn ferðamanna í húsnæði, frelsi til að leigja til þeirra og frelsi þeirra til að nýta sér fjármuni sína til að gista á góðum stöðum miðsvæðis getur síðan haft veruleg áhrif á verðmyndunina og jafnvel getu íslensks almennings til að búa miðsvæðis á annað borð.
Ásókn ferðamanna í húsnæði, frelsi til að leigja til þeirra og frelsi þeirra til að nýta sér fjármuni sína til að gista á góðum stöðum miðsvæðis getur síðan haft veruleg áhrif á verðmyndunina og jafnvel getu íslensks almennings til að búa miðsvæðis á annað borð. Ef flestallt góða húsnæðið miðsvæðis er upptekið af ferðamönnum þarf innlendur almenningur að leita annað – en það eru lífsgæði í sjálfu sér að búa miðsvæðis og þétting byggðar um miðkjarna hefur margvíslega kosti í för með sér.
Það að fólk sé að græða á húsnæði er auðvitað út af fyrir sig alveg gott og blessað, rétt eins og það er gott og blessað almennt að fólk græði á hinu og þessu. Í tilfelli útleigu til ferðamanna er líka verið að koma inn með gjaldeyri sem er jákvætt í sjálfu sér. Málið er hins vegar að þó þessir peningar sem græðast nýtist alveg örugglega í margar góðar fjárfestingar er eitt sem þeir munu ekki nýtast í, en það er meira af nákvæmlega eins húsnæði og því sem gróðinn skapaðist út frá. Húsnæðismarkaður er jú einokunarsamkeppnismarkaður sem þýðir að engin vara er eins. Ef við viljum meira húsnæði þegar umframeftirspurnin er orðin það mikil að fólk beinlínis hefur ekki efni á húsnæði eða skortir það verður það húsnæði að vera annars staðar.
Í mjög öfgafullri mynd, til að útskýra hvað hér er átt við með smá hugsunaræfingu, gæti óheft ásókn ferðamanna í húsnæði miðsvæðis þannig rutt öllum öðrum í húsnæði á jaðri byggðarinnar, með tilheyrandi ókostum sem því fylgja. Við værum að græða fullt á því að leigja ferðamönnum en borga fyrir það með hærri húsnæðiskostnaði og dreifðari byggð. Þarna verða mjög bókstafleg ruðningsáhrif; íbúabyggðinni er rutt úr miðbænum. Þetta er það sem gerist almennt með hækkuðu húsnæðisverði, þar sem ásóknin er oftast mest miðsvæðis og áhrifin verða ýktust þar. Verðið rýkur upp miðsvæðis og byggðin þenst út.
Í stuttu máli er húsnæði ákveðin frumþörf og það hvaða reglur gilda um það (eða ekki) hefur afleiðingar á getu fólks til að fullnægja þessari þörf og þar af leiðandi líka öðrum þörfum sínum. Óheft gróðahyggja er nokkuð sem sumir vilja í þessum efnum, út frá þeim rökum að annað sé óeðlileg skerðing á frelsi. Það er alveg afstaða út af fyrir sig en þá verður fólk líka að vera tilbúið að taka umræðuna um hinar raunverulegu afleiðingar af slíkri stefnu – hvaða áhrif hún hefur á annars konar frelsi fólks.
Þegar við höfum áttað okkur almennilega á því er kannski hægt að svara því af viti hvað við viljum.
Höfundur er borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík.