Á mánudaginn 13. apríl ganga starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands til kosninga um hver muni leiða Háskóla Íslands næstu árin. Nýs rektors bíða spennandi og vandasöm verkefni, eins og að tryggja fjármögnun háskólans og efla rannsóknarstarf. Tryggja þarf að Háskóli Íslands standi jafnfætis rannsóknarháskólum í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við. Af þeim sem gefið hafa kost á sér teljum við Jón Atla vera bestan til þess fallin að taka það hlutverk að sér.
Jón Atli er frumkvöðull og aðkoma hans að verkefnum á því sviði ber vott um það. Hann stundaði doktorsnám rafmagnsverkfræði við Purdue-háskóla með áherslu á stafræna myndgreiningu og fjarkönnun. Sem prófessor við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands hafa rannsóknir hans hlotið verðskuldaða athygli á alþjóðavettvangi. Jón Atli hefur þar að auki komið víða við á ferli sínum og setið í nefndum og ráðum sem hlúa að rannsóknum og tækniþróun á Íslandi.
Rannsóknir Jóns Atla hafa m.a. stuðlað að framþróun í landupplýsingakerfum og læknisfræði svo dæmi séu tekin. Hann stofnaði fyrirtækið Oxymap ásamt Einari Stefánssyni prófessor í augnlæknisfræði og fleirum. Upp úr þverfaglegu samstarfi hafa færustu vísindamenn skólans þróað tæki til greininga á augnsjúkdómum. Þetta er dæmi um hvernig rannsóknir við Háskóla Íslands geta stuðlað að framþróun og bætt lífsskilyrði fólks um allan heim.
Það er Jóni Atla metnaðarmál að efla rannsóknir og kennslu í Háskóla Íslands og að starfið þar standist samanburð á alþjóðavísu. Framboð á doktorsnámi við Háskóla Íslands hefur aukist í hröðum skrefum á undanförnum árum og sem aðstoðarrektor vísinda og kennslu hefur Jón Atli leitt starf sem miðar að því að sammræma gæðamál innan skólans þannig að ekki sé slakað á í kröfum til námsins. Honum er annt um að efla rannsóknir og treysta rannsóknarinnviði.
Við teljum að framsýni, bakgrunnur, og forystuhæfileikar Jóns Atla Benediktssonar séu lykillinn að sókn Háskóla Íslands til eflingar rannsókna og nýsköpunar. Öflugur háskóli eflir innviði samfélagsins, fjölgar atvinnutækifærum og bætir lífsskilyrði á Íslandi.
Höfundar eru rafmagns- og tölvuverkfræðingar frá Háskóla Íslands. Georg Lúðvíksson er stofnandi og forstjóri Meniga, Ásgeir Örn Ásgeirsson er stofnandi og tæknistjóri Meniga og Guðmundur Hafsteinsson er Product Management Director hjá Google Inc.