Helgi Magnússon, varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og fjárfestir, sendi tölvupóst á 25 manna hóp, að mestu skipaðan áhrifamönnum innan atvinnulífsins, þann 16. mars 2014. Í póstinum rakti Helgi áhyggjur sínar af því ástandi sem hann taldi að skapast hefði á Íslandi á þeim tíma. Póstinn er hægt að lesa hér að neðan.
Einn þeirra sem svaraði póstinum var Sigurður Arngrímsson, fjárfestir, ráðgjafi og fyrrverandi starfsmaður Morgan Stanley-bankans í London. Orðrétt segir hann í svari sínu: „Ég fæ ekki betur séð en þetta sé allt rétt. Davíð er auðvitað að draga athyglina frá sjálfum sér hvað varðar klúður í Seðlabankanum. Ég fæ ekki betur séð en hann sé nú klárlega dýrasti maður lýðveldisins. Hvernig væri að fara svolítið yfir það?“
Í bakherberginu hefur þetta bréf verið rifjað upp í ljósi þess að umræddur Sigurður Arngrímsson er einn þeirra fjárfesta sem nýverið keypti hlut í Íslenskum verðbréfum. Á meðal þeirra sem keyptu einnig hlut í fyrirtækinu var Kaldbakur, fjárfestingafélag Samherja. En Kaldbakur er vitanlega einn stærsti eigandi Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, þar sem Davíð starfar sem ritstjóri. Líkt og Kjarninn greindi frá nýverið hefur Árvakur verið rekinn í miklum taprekstri á undanförnum árum og því upp á framlög eigenda sinna, m.a. Kaldbaks, kominn.
Það er þó ljóst að gagnrýni Sigurðar og félaga á Morgunblaðið og Davíð hefur ekki haft mikil áhrif á stjórnendur Kaldbaks, frændurna Þorstein Má Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson, þegar kom að því að fjárfesta með Sigurði í íslensku fjármálafyrirtæki.