Það er vart hægt að draga aðra ályktun en að það leikrit sem sett var á fót í vikunni af stjórnarflokkunum hafi verið afar vel ígrundað. Að undirbúa breytingar til að auka pólitísk yfirráð yfir Seðlabankanum og að slíta viðræðum við Evrópusambandið (ESB). Það er vart hægt að komast að annarri niðurstöðu en að báðir forvígismenn flokkanna hafi legið yfir afleiðingum aðgerðanna og hafi ákveðið að þær myndu leiða íslenska þjóð inn í samfélag sem væri þeim að skapi. Ef þeir hafa ekki gert það þá er um að ræða mesta pólitíska gáleysi sem átt hefur sér stað hérlendis. Nokkru sinni.
Eftir þá viku sem var að líða er nefnilega kýrljóst hvert Ísland stefnir. Hvernig Ísland framtíðar verður. Það verður hafta- og millifærslusamfélag með mikilli pólitískri miðstýringu helstu stofnanna hagkerfisins og reglulegum gengisfellingum til að rétta af hag stoðatvinnugreina. Þetta samfélag verður órafjarlægð frá því frjálsa markaðskerfi sem þorri Íslendinga vill vera hluti af.
Bannað að reynsluaka
Þegar hin mjög illa skrifaða og gildishlaðna þingsályktun um viðræðuslit, sem lögð var fram í lok síðustu viku, verður samþykkt mun hún hafa ýmis konar afleiðingar. Hún reynir til að mynda að binda hendur Íslendinga framtíðarinnar með þeim hætti að ekki á að vera unnt að sækja um aðild að ESB nokkru sinni aftur án þess að þjóðaratkvæði fari fram. Það er eins og að setja það í neytendalög að fólk megi ekki kaupa bíl nema að hafa alls ekki reynsluekið honum. Bílakaupin eigi að grundvallast á útliti bílsins og þeim eiginleikum sem sölumaðurinn segir að hann búi yfir.
Þessi þjóðaratkvæðagreiðslubinding er líka kostuleg í ljósi þess að ríkisstjórnarflokkarnir, sem báðir hafa margítrekað lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna, eru að grípa til þessarra slit-aðgerða núna til að forðast slíka. Þeir treysta ekki þjóðinni núna þegar hluti upplýsinganna um hvað aðild þýðir liggur fyrir, en vilja endilega treysta henni í fjarlægri framtíð ef ákveðið verður að byrja allan sirkusinn upp á nýtt.
Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé fjarstæðukennt að setja hálfbakaðan aðildarsamning í þjóðaratkvæði. Það á að ljúka viðræðum og leyfa fólki að kjósa á vitrænum nótum með raunverulega niðurstöðu fyrir framan sig. Ekki að láta rangtúlkanir, ofsa og oft á tíðum vanþekkingu þeirra sem telja að ESB leysi öll okkar vandamál eða einfeldinga úr Skagafirði sem halda að það vaxi á okkur horn við inngöngu vera uppistöðuna í ákvörðunartöku þorra þjóðarinnar.
Það er bannað að vera með höft
Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um Evrópusambandið er ekki þess eðlis að hægt sé að nota hana sem grundvöll og rökstuðning slita á aðildarviðræðum. Þetta er ekki skoðun. Þetta er staðreynd. Þeir sem efast um það skulu einfaldlega lesa skýrsluna. Hún er fín og fræðandi. En leiðir engan nýjan sannleik í ljós.
En slitin, sem munu sannarlega raungerast á næstunni í ljósi mikils þingmeirihluta stjórnarflokkanna, munu hafa fleiri beinar afdrifaríkar afleiðingar. Íslendingar eru aðilar að samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið (EES). Sá samningur veitir okkur nokkurskonar aukaaðild að mikilvægasta þætti Evrópusambandsins, innri markaði Evrópu, án tolla og gjalda á all flestar vörur. Á árinu 2012 fór rúmlega 78 prósent af útfluttum vörum Íslendinga inn á EES-svæðið. Þessi samningur er því, vægast sagt, langmikilvægasti viðskiptasamningur þjóðarinnar.
Þegar Ísland undirgengst EES-samninginn í byrjun árs 1994 samþykkti landið líka að innleiða hið ófrávíkjanlega fjórfrelsi ESB: innan svæðisins sem samningurinn nær til gildir frjálst flæði fólks, varnings, þjónustu og fjármagns.
Þegar Íslendingar innleiddu fjármagnshöft í kjölfar hrunsins þá brutu þeir gegn einni af þessum grunnstoðum. Þ.e. frjáls flæðis fjármagns. Hluti af aðildarferlinu að ESB var að setja á fót samstarfsvettvang þar sem unnið var að losun þessarra hafta svo skilyrðið væri uppfyllt. ESB hefur nú dregið sig út úr því hjálparstarfi og eftir að aðildarviðræðunum verður slitið mun sannarlega verða sett fram sú krafa að Íslendingar uppfylli það. Vandamálið er að meira segja kokhraustustu rörsýnismennirnir, sem eru að rifna úr stórhættulegu sjálfstrausti eftir að Icesave-veðmálið gekk upp, viðurkenna að það verður ekkert hægt að afnema höft hér að fullu á meðan að við erum með íslenska krónu sem gjaldmiðil. Það má því alveg með réttu draga þá ályktun að EES-samningurinn sé núna í uppnámi.
„Verðmiðinn“ að EES
Tvennt annað styður þá ályktun. Í fyrsta lagi hefur ESB breyst gríðarlega á þeim 20 árum frá því að EES-samningurinn var gerður. Innan sambandsríkjanna ríkir hvorki þolinmæði né skilningur gagnvart þessari sérlausn sem undanskilur þrjár þjóðir undan byrðum ESB að mestu en veitir þeim aðgang að stærsta ávinningi þess, hinum sameiginlega innri markaði.
Í öðru lagi borgar Ísland fyrir EES-samninginn með ýmsum hætti. Stærstur hluti þeirrar borgunar fer í gegnum vettvang sem kallast Þróunarsjóður EFTA. Hann er oft nefndur verðmiðinn inn á innri markað ESB. Frá því að Ísland og Noregur skrifuðu undir EES-samninginn hafa þau greitt í þennan sjóð. Hann úthlutar svo fjármagni til þeirra fimmtán aðildarríkja sem fá greiðslur úr sjóðnum.
Samningar um framlög í sjóðinn eru teknir upp á fimm ára fresti. Síðast var samið um tímabilið 2009-2014. Framlög í hann voru áætluð um 155 milljarðar króna á verðlagi dagsins í dag á því tímabili. Af því framlagi var áætlað að Ísland greiddi tæplega fimm prósent, eða allt að sjö milljörðum króna. Á árinu 2014 greiðum við til að mynda 1,4 milljarða króna í sjóðinn samkvæmt fjárlögum. Liechtenstein borgar rétt yfir eitt prósent af kostnaðinum og Noregur tæplega 95 prósent.
Auk þess er til sérstakur Þróunarsjóður Noregs sem þróunarríki ESB fá úthlutað út úr. Norðmenn borga um 125 milljarða króna inn í hann á tímabilinu. Norðmenn borga því ca. 260-270 milljarða króna fyrir aðgöngu að innri markaðnum. Ísland hangir í pilsfaldinum og fær að fylgja með.
Bæði Norðmenn og ESB í fýlu
Í ár þarf að semja upp á nýtt um „verðmiðann að innri markaðnum“. Líkt og alltaf mun verðmiðinn hækka. Ísland er að sigla inn í þær viðræður í bullandi makríldeilum við Norðmenn, sem borga uppistöðuna af verðmiðanum, og í skammakróknum hjá ESB fyrir að hafa dregið sambandið á asnaeyrum árum saman einungis til þess að verða fyrsta ríkið til að slíta aðilarviðræðum af því að áhrifamiklir frekjuhundar sem eiga eyru ráðamanna þora ekki að bíða eftir niðurstöðu aðildarviðræðna.
Það er ekki óvarlegt að álykta að samningsaðstaða Íslands verði ekki góð. Ef ekki tekst að semja þá þýðir það að EES-samningurinn verður í uppnámi. En það er kannski enn eitt veðmálið sem kokhraustu Icesave-banarnir eru tilbúnir að leggja þjóðina undir í. Það er alltaf hægt að demba sér bara í aukna fríverslun við Kína og Rússland.
Söluræðurnar fyrir nýja-gamla-Ísland eru líka byrjaðar að heyrast. Forsætisráðherra skrifaði hressa sjálfshólsgrein í Morgunblaðið fyrir helgi þar sem hann raðaði, enn og aftur, öllum sem eru honum ósammála í lið með erlendum vogunarsjóðum og mældi árangur sinn út frá fjölda þeirra sem sýna samfélagsbreytingum hans mótþróa. Þetta er umræða sem við hér á Kjarnanum könnumst vel við, enda hafa aðstoðarmenn Framsóknarráðherra borið út sögur um að starfsemi okkar sé fjármögnuð af slíkum vogunarsjóðum vegna þess að í skoðanadálkum útgáfunnar hafa birst aðrar skoðanir en Framsóknarflokksins. Hér skal það enn ítrekað að þetta er fjarstæðukennt, rætið og háalvarlegt bull.
Í grein sinni kom forsætisráðherra líka inn á aukinn hagvöxt og minna atvinnuleysi. Hann vildi þakka ríkisstjórninni þessa framför, sem er að hluta til réttmætt. Hér verður meiri hagvöxtur á næstu árum en áður var spáð. En hann verður ekki byggður á aukinni framleiðni, heldur einkaneyslu (vegna aukins veðrýmis þeirra sem fá gefins peninga í skuldaniðurfellingunni og eyðslu séreignalífeyrissparnaðar fyrirfram) og stórtækra byggingaframkvæmda. Þessu mun fylgja aukin verðbólga og því er um að ræða klassískt piss í skóinn.
Áhrifahópur í kastinu
Það kemur svo sem ekkert á óvart að Framsóknarflokkurinn hafi þá afstöðu sem nú er að raungerast gagnvart ESB. Það kemur hins vegar meira á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn sé að beygja sig undir hana. Birgir Ármannsson getur vel reynt að tala niður þær sprungur sem myndast hafa á milli fylkinga í flokknum með því að segja að það hafi verið óvarlegt að lofa einhverju í aðdraganda kosninga sem henti flokknum ekki núna að standa við, en það kíttar ekki upp í sprungurnar.
Sjálfstæðisflokkurinn er margir flokkar með mjög ólíkar stefnur sem sameinast undir þeirri regnhlíf að vera eini hægri flokkurinn á landinu. Þarna er mjög sterkt afturhaldsamt íhald sem hefur enga aðra hugsjón en stórtæka sérhahagsmunagæslu, gegnheilir kratar, einhverskonar jakkafatasósíalistar, bullandi frjálshyggjumenn og alþjóðasinnaðir, frjálsyndir, hófsamir hægrimenn.
Síðasti hópurinn er stór. Og áhrifamikill. Á meðal þeirra sem teljast til hans eru Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður flokksins, Helgi Magnússon, ókrýndur lífeyrissjóðakóngur Íslands, Björgúlfur Jóhannsson, formaður Samtaka Atvinnulífsins og forstjóri Icelandair Group, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Benedikt Jóhannesson, Þórður Magnússon, Hreggviður Jónsson og fleiri áhrifamenn innan íslensks atvinnulífs. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið flokkur atvinnulífsins í gegnum söguna. Nú gætu orðið þáttaskil.
Viðskiptaráð, Samtök Atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök Iðnaðarins og flest öll önnur hagsmunasamtök fyrirtækja utan LÍÚ og milljarðaniðurgreiddra bænda eru fjúkandi yfir aðgerðum stjórnvalda. Þeirra afstaða er að króna í höftum sé afleittur kostur fyrir íslenskt viðskiptalíf.
Ekki vanmeta aðlögunarhæfni
Það gæti því átt sér stað söguleg slit milli fjármagns og Sjálfstæðisflokks ef þessir aðilar ákveða að búa til nýjan frjálslyndan hægri vettvang. Sá gæti orðið best fjármagnaðasta stjórnmálaframboð allra tíma og hægt væri að kalla til fullt af fólki með mikla reynslu í herkvaðningunni sem því myndi fylgja.
En mun þessi hópur þora? Hann er voða reiður núna en maður efast einhvern veginn um að af þessu verði. Flestir innan hans eru með fálka-DNA. Sjálfstæðisflokksfylgnin og frændhyglin mun líklegast trompa þá staðreynd að hópurinn á enga hugmyndafræðilega samleið með Sjálfstæðisflokknum lengur. Áhrifafólkið mun aðlagast hafta- og millifærslusamfélaginu og koma ár sinni fyrir borð þar. Fyrirtækin sem skilgreina sig sem alþjóðleg flytja til annarra landa og hæfileikafólk sem verður þreytt á því að fá borguð laun í mynt sem hefur ekki raunverulega verðmyndun fylgir í kjölfarið.
Afturhvarfið til fortíðar blasir við. Game over skiltið er farið að sniglast inn á skjáinn.