Um áratugaskeið hafa íslensk stjórnvöld haldið hlífiskildi yfir viðbjóðslegum veiðum Íslendinga á einhverjum merkustu og stærstu lífverum Jarðar. Þessi dýr eru spendýr, og það felur einfaldlega í sér að þau eiga afkvæmi sem drekka mjólk af spena móðurinnar til að dafna. Rétt eins og mæður okkar hafa nært allar manneskjur um óratíma. Þetta eru vitanlega skíðishvalir, enda er nú búið að ganga svo nærri búrhvölum að þeir voru við það að verða aldauða. Og ennþá veita íslensk stjórnvöld leyfi til að skjóta sprengjuskutlum í langreyðar.
Nú þegar tölu verður ekki kastað á þær dýrategundir, sem eiga verulega undir högg að sækja um heim allan vegna taumlausrar græðgi auðugra manna, þá er það þyngra en tárum taki að á ný rumskar furðulega sjálfhverf íslensk risaeðla.
Kotroskinn hyggst íslenski óligarkinn Kristján Loftsson enn og aftur bjóða heiminum byrginn, til þess eins að viðhalda þeirri sjúklegu áráttu sinni að drepa hvali. Það vill hann gera enn og aftur með því að skjóta sprengjum í einhver stærstu og tilkomumestu spendýrin í sögu Jarðar, rétt eins og hann hefur komist upp með að gera í marga áratugi.
Þessi milljarðamæringur þykist geta grætt enn meiri pening og ætlar sér líkast til að bræða hvalina niður í fæðubótarefni fyrir gjörvallt mannkyn. Það var síðasta útspil óligarkans Kristjáns Loftsonar – þegar útséð var að honum dygði ekki að fragta hvalaslátrið sitt yfir meira en hálfan hnöttinn með skipum í óþökk allrar heimsbyggðarinnar með stórkostlegum tilkostnaði – og fólst í „glænýrri“ hugmynd hans um að það mætti mögulega græða á því að skjóta sprengjum í hvali og að breyta öllu þessu kjötgumsi úr þeim í fæðubótarefni, einkum fyrir bágstadda Asíubúa. Gamli, freki auðkýfingurinn bindur líkast til vonir við að vera áhrifavaldur í nafni fæðubótarefna. Enda þykist Kristján Loftsson vita það, að fátt er um þessar mundir mikilvægara fyrir mannkyn en niðurbrætt fæðubótarefni úr hræjum hvala. Það var og.
Þetta ræddi milljarðamæringurinn glaðhlakkalega nýverið við eitthvert mesta og stækasta afturhald okkar tíma á Útvarpi Sögu. Þar hampaði Kristján Loftsson þeirri skoðun sinni að hvalir væru fyrst og fremst til ama. Þetta væru bara einfaldlega að hans mati leiðindakvikindi. Eiginlega bara helber meindýr. Sem dæmi bar hann því við, að skip sigla stundum á hvali, sem honum þykir ákaflega slæmt – fyrir skipin. Eins benti þessi moldríki íslenski óligarki á að hvali reki stundum á strendur – mögulega eftir að skip hafa siglt á þá – og ef það eru sólarlandastrendur sem verða fyrir slíkum „hvalreka“, þá verður megn almenn óánægja með slíkar trakteringar af hálfu hafsins, enda væri það jafnan mikið og kostnaðarsamt umstang að draga hvalahræin á haf út. Að hans mati eru hvalir bara til óþurftar. Þarna hefur þessum moldríka gamla karli tekist að hafa endaskipti á ævafornri viðtekinni merkingu orðsins „hvalreki“. Fyrir honum eru hvalir meindýr.
Einhverra hluta vegna þá eru ótal Íslendingar sammála þessum þvættingi og virðast sammála því, að það að drepa þessar mögnuðu skepnur sé ekki einasta guðsþakkarvert, heldur ennfremur að slík ódæði séu í einhverju nánu sambandi við fornfálegar hugmyndir landans um „fullveldi“ Íslands. Að skjóta sprengjum í stórhveli varði beinlínis meint „sjálfstæði“ okkar. Þetta er vitanlega auðvirðilegt bull.
Það eru margvísleg nýleg dæmi af hvalveiðum okkar „sjálfstæðu og fullvalda“ Íslendingum, sem lýsa svo stórkostlegu miskunnarleysi í algerri yfirburðastöðu gagnvart þessum merkilegu skepnum, að það er einfaldlega ekki hægt að kalla það neitt annað en hreina og beina illmennsku. En það að sprengja endrum og sinnum upp sirkabát rúmmetra af holdi spendýrs telur Kristján Loftsson vera ásættanlegan fórnarkostnað. Fyrir hann sjálfan.
Þetta er einfaldlega bara háttalag manna sem eru í besta falli siðblindir og er nákvæmlega ástæða þess að við mennirnir erum nú að útrýma dýrategundum á skala sem má jafna við þær hamfarir, sem áttu sér stað þegar risastór lofteinn skall á Jörðinni og útrýmdi mestöllu lífi á landi fyrir einhverjum 65 milljón árum.
Bara sú hugmynd að „veiða“ hvali með því að skjóta í þá skutli með sprengihleðslu hlýtur sérhverjum sómakærum „sportveiðimanni“ að þykja viðbjóðsleg. Sá „sportveiðimaður“ má eiga sportið í því við sjálfan sig. Það breytir engu um að þetta er vitanlega launmorð gagnvart grunlausri skepnu. Hvalir eru nefnilega dálítið mikið eins og kýr. Þeir eru ekki styggir eins og hreindýr. Þeir synda bara makindalega um óravegu í hafinu og skófla í sig átu í úthöfunum, syngja sína söngva og vonast til að söngvar þeirra nái í gegnum sífelldan ærandi niðinn af siglingum ótal skipa. Þeir vilja bara fá sína magafylli og að geta af sér sín afkvæmi.
Samt sem áður eru nú komnar fram einhvers konar þrálátar þjóðsögur um íslenskar „fullveldishetjur“ sem skjóta sprengjum í hvali og virðast ævinlega reiðubúnir til að koma fram í fjölmiðlum til að hreykja sér af því. Næg eru dæmin. Þvílíkir vesalings aumingjar. Þeir gætu eins hafa skotið sprengjum í kýr.
Það er bara einn maður sem þverskallast við að halda þessari villimennsku til streitu. Þetta er gamli auðkýfingurinn sem gat beðið sjálfan sjávarútvegsráðherra íslensku þjóðarinnar – þann væna og bóngóða mann sem var svo umhugað um líðan vina sinna eins og dæmin sanna – um að breyta reglugerð um vinnslu á matvælum til manneldis sér í vil. Fyrst og fremst til að það mætti teljast algjörlega ásættanlegt að mávar skitu yfir aðgerðarplan hans. Vitanlega varð ráðherrann við því. Enda sér gjöf ævinlega til gjalda.
Allir sæmilega skynsamir menn vita sem er að styrkir íslenska óligarkans til Sjálfstæðisflokksins – sem vitanlega nema tugmilljónum króna – hafi markað pólitíska stefnu flokksins og „fullveldissinnaðra Íslendinga“ varðandi hvalveiðar undanfarna áratugi. Eins er nokkuð augljóst að Hafrannsóknarstofnun hefur gert út fjölmarga lærða hvalasérfræðinga, sem hafa samviskusamlega safnað saman ógrynni af „líffræðilegum sýnum“ úr sprengdum hvölum, án þess að allt þetta umstang þeirra hafi bætt nokkru við vísindalega þekkingu okkar á hvölum. Jafnvel prófessorar í líffræði spendýra kinoka sér við að andmæla þeirri fásinnu að sprengja hvali. Enda gætu þeir lent upp á kant við Sjálfstæðisflokkinn og fullveldið.
Og enn og aftur er blessaður karlinn mættur á ný uppá dekk og er farinn að rigga upp líkast til tvö hvalveiðiskip til að skjóta sprengiskutlum í sirkabát 200 langreyðar ef guð og gæfan lofar. Hann er tilbúinn að henda tugmilljónum í það verkefni. Enda á hann glás af seðlum.
Ef markmið þessa milljarðamærings væri aðallega að græða gríðarlega mikinn pening – sem hann á reyndar miklu meira en nóg af nú þegar – þá er fyrir löngu búið að benda honum á þá einföldu staðreynd, að það að breyta hvalveiðistöð sinni og flota í safn og hvalaskoðunarferðir gæfi honum miklu meiri arð. Það væri ekki einasta safn á heimsvísu, heldur gæti hann gert út einhverja merkustu hvalaskoðun heims! En honum stendur algerlega á sama. Því miður virðist gamli ríki karlinn fá meiri ánægju úr því að skjóta sprengjum í einhverjar merkilegustu skepnur Jarðar okkar.
Nýverið steig Svandís Svavarsdóttir fram og hreyfði við þeirri hugmynd að fátt styðji áframhaldandi hvalveiðar, enda sé með engu móti ljóst að nokkur ávinningur felist í viðlíka sprengjuskutlum fyrir þjóðarbúið. Eins og vænta mátti leituðu fjölmiðlar álits óligarkans, sem birtist þá okkur glottuleitur á skjánum með bláleita plasthúfu á kollinum, til þess eins að sýna okkur auðmjúku þegnunum fram á það hvað hann væri duglegur að varna því að mávar á aðgerðarplaninu myndu skíta á kollinn á honum.
Og sá hóf upp raust sína og benti viðkvæmum á að þetta væri bara „prívatskoðun“ ráðherrans.
Það var og. Prívatskoðun. Ólíkt skoðun hans.
Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn hefur nýlega fengið helstu hagfræðinga sína til að rýna í gildi stórhvela hvað varðar kolefnisjöfnun á heimsvísu. Þá kemur í ljós að sæmilega stórir skíðishvalir eru – upp á sitt einsdæmi – verðir um 300 milljóna íslenskra króna per stykki. Eitt helsta ágæti hvala felst nefnilega í því að þegar þeir þurfa að skíta, þá gera þeir það auðvitað ofarlega í sjónum. Fyrir vikið eru stórir hvalir einhverjir langbestu áburðardreifarar fyrir lífríki sjávarins. Um leið og þeir eru búnir að losa sig við úrganginn, þá kviknar aragrúi af lífi, allt frá gerlum og síðar þörungum með tilheyrandi ljóstillífun og yfir í þróaðri dýr sjávarins.
Upp úr því kviknar síðan litlu æðra líf eins og t.d. áta, og svo koll af kolli upp alla fæðukeðjuna, sem verður á endanum mestanpart æti fyrir þróaðri tegundir. Tegundir eins og þorsk, sem er jú undirstaða auðæfa Kristjáns Loftssonar. Ekki nóg með það, heldur má líka reikna inn í dæmið að þegar hræið af hvölum sekkur til botns, þá haldast kolefnin þar í óratíma.
En Kristjáni Loftssyni er einnig skítsama um svoleiðis þvætting. Hann hyggst jú framleiða fæðubótarefni og það með því að gera út „fullveldiskappa“, sem skjóta sprengjum í einhver glæsilegustu spendýr Jarðar. Til að varna því að skip rekist á hvalina.
Vitanlega veit hann sem er, að langflestir sæmilega skyni bornir menn í öllum þeim löndum, sem við berum okkur saman við, fyrirlíta hvalveiðar. Og hann veit einnig að ferðamenn koma ekki hingað til að sjá hann skjóta sprengjum í hvali. Einn vitleysingurinn hélt því nýverið fram að fjölmargir ferðamenn fari í hvalaskoðunarferðir og stormi síðan inn á Þrjá frakka til að éta hvali. Satt að segja held ég að enginn hafi áhuga á Kristjáni Loftssyni nema nokkrir makráðugir Sjálfstæðismenn. En sjálfum er honum skítsama, enda á hann glás af seðlum. Maðurinn þekkir augljóslega ekki sinn vitjunartíma.
Í ljósi alls þessa þá þykir mér það einfaldlega með miklum ólíkindum að ekki sé fyrir löngu síðan búið að lýsa yfir því að gjörvöll landhelgi okkar sé friðarríki allra hvali. Og jafnframt að ein ríkasta þjóð heims þurfi ekki að skjóta sprengjum í hvali. Flóknara er það ekki.
Meðan moldríkir óligarkar Íslands hafa jafn greiðan aðgang að ráðherrum – sem breyta t.d. reglugerðum snimmendis til að þóknast þessu furðulega blæti hr. Loftssonar – þá ætti þessi þjóðrembulega glámskyggni Íslendinga kannski ekki að koma á óvart. En þá má kannski horfa til þess að óligarkinn hefur stutt Sjálfstæðisflokkinn ríkulega, allt frá því að hann varð svona ógeðslega ríkur.
Öllu verra er að öll þessi ósvinna fer fram í skjóli svokallaðra Vinstri grænna. Þvílík öfugmæli!
Eða eins og einn ágætur maður sagði eitt sinn: „Money doesn´t talk, it swears.“
Höfundur er þýðandi.