Tungumál er lífæð hverrar þjóðar og sérhvers málhóps þjóðríkja í tví- eða fleirtyngdum löndum. Að sjálfsögðu breytast öll tungumál með tíma, ýmist vegna innri þróunnar eða fyrir áhrif annarra tungumála. Ferlin eru sum óstýrilát og ómeðvituð en önnur eru tjáning á viðbrögðum einstaklinga við málfarsumhverfinu eða meðvituð aðgerð málhópa eða stofnana sem tilraun til breytinga. Hvort tveggja hefur lengi verið liður í samfélagsþróun.
Dæmi eru um að tekist hefur að semja ritmál á talmálssvæði eða koma í veg fyrir að stór hópur manna hætti að nota tiltekið tungumál. Auðvitað einnig dæmi um hið gagnstæða. Í hugum flestra er margþætt og áköf notkun tungumáls einn lykla að langlífi þess. Einkenni lifandi tungumáls (einkennin eru áreiðanlega allmörg) eru meðal annars fjölbreytt notkun þess í daglegum samskiptum fólks, menningarstarfi og opinberri þjónustu. Til þess að halda stöðunni þarf lágmarksorðaforða sem málvísindin hafa fellt inn í sínar rannsóknir og fræði. Það hlýtur að vera farsælt að orðaval almennings sé margslungið og orðaarfur, jafnt sem nýyrðasmíði, liti málþróunina. Ella verður vaxandi einhæfni til þess að arfleifð tungunnar nýtist of fáum, spenna hverfur úr málfari og æ fleiri nýta önnur tungumál við að tjá sig.
Til langs tíma litið kann samruni tveggja eða fleiri tungumála að verða allvíða staðreynd en það gerist þá helst til góðs þegar, og ef, friðsamlegur og mannvænn samruni þjóða og menningastrauma fylgir breytingunum þannig að samskipti fólks batna og jafnrétti eykst.
Ég hef kennt mér yngra fólki í skólum og á námskeiðum, miðlað þekkingu til almennings á marga vegu og skrifað alls konar texta, jafnt skáldskap sem almennan texta í vísindum og stjórnmálum. Haldið óteljandi ræður og erindi. Ég minnist á það hér til að leggja áherslu á að viðbrögð fólks við þessa iðju, og samskipti við margan manninn hennar vegna, leyfa mat á farnaði íslenskunnar í rúma hálfa öld. Einstaklingsbundið og harla huglægt eigið mat.
Í sem stystu máli einkennir einkum tvennt stöðuna: Íslenski orðaforðinn rýrnar og íslenska dagsins, hvað varðar sagnorðin mikilvægu, verður einfaldri og geldari, hægt en bítandi. Þess vegna gerir margur góðan mat, gerir tónlist og myndlist, bækur og leirmuni, gerir brýr, vegi eða jóga og gerir brátt líka ást ef langt verður seilst í framhaldinu.
Orðræðan um íslenskuna er mikilvæg og hún er áberandi. Hugtökin málrækt og ræktarsemi sjást víða og lang flestir vilja „tyggja framtíð íslenskunnar.“ Deilt er þó um aðferðir við það svo sem „boð og bönn“. Deilt er á orðræðu um rangt mál, hæðst að því að einhverjir vilja „berja á málvillum“, gagnrýnt að reynt sé að leiðrétta málfar, samin orðaröð á borð við, „sjálfsskipaða íslenskulöggu“ og hugtakið málfarsfasisti (?) stundum notað í umræðunni. Vönduð, jafnt sem gölluð umræða (og öll málræktin líka), birtir okkur vafalaust stöðu íslenskunnar árið 2100 sem enginn sér fyrir, enda finnst hvergi uppskrift að lífvænlegri íslensku 21. aldar.
Hvað má og hvað ekki þegar við reynum að hafa áhrif á þróun tungunnar? Ferlin eru hreint ekki óháð einstaklingum, sérfræðingum, málfarshópum, stjórnvöldum o.fl. Þróun tungumála tel ég að geti ekki verið vélgeng heldur hljóti hún að vera flókin, mannleg flétta. Hef aðeins ein skilaboð leikmanns á fyrsta fjórðungi nýrrar aldar: Andæfum orðafátækt í íslensku. Eldum mat, semjum tónlist, stundum myndlist, skrifum bækur, búum til leirmuni, smíðum brýr, leggjum vegi, iðkum jóga en setjum enskuna út fyrir sviga í beðmálum.
Höfundur er rithöfundur og jarðvísindamaður.