José Ángel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, gerði það að umtalsefni þegar stofnunin var hér á dögunum, að vinna að stöðumati sínu á stöðu hagkerfisins, að svo kynni að fara að ríkissjóður Íslendinga yrði notaður til þess að greiða sjávarútvegsfyrirtækjunum í landinu bætur vegna viðskiptabanns Rússlands.
Pistill Fréttablaðsins fjallar um þetta í gær, og segir að hugsanlega kunni bætur til sjávarútvegsyrirtækjanna að vera réttlætanlegar.
Það er ekki hægt að segja annað, en að þessi sjónarmið, að sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi, einkum þau sem selja makríl á Rússlandsmarkað, kunni að eiga rétt á bótum úr ríkissjóði vegna þeirrar ákvörðunar stjórnvalda í Rússlandi að setja viðskiptabann á íslensk fyrirtæki, séu stórundarleg og vafasöm.
Rökin gegn því, að ríkissjóður Íslands verði notaður til þess að greiða bætur til sjávarútvegsfyrirtækja vegna viðskiptabanns Rússland, eru yfirþyrmandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mörg má nefna, meðal annars að Rússar eigi ekki að geta þvingað fram ríkisábyrgð á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, en hér eru fáein önnur nefnd.
Í fyrsta lagi eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki starfandi á einkaréttarlegum grunni, eins og þau hafa margítrekað sjálf, og reyndar túlkað oft svo vítt að það hefur orðið uppspretta pólitískra deilna á Alþingi, einkum og sér í lagi þegar aflaheimildir eru til umræðu. Bara þessi staða ein og sér þýðir að ríkissjóður ber enga ábyrgð á vandræðum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við að selja afurðir sínar.
Í öðru lagi er ekki hægt að segja það um leið og viðskiptabannið hefur verið sett á, að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi orðið fyrir það miklu tjóni að ríkissjóð Íslendinga eigi að nota til að greiða bætur til sjávarútvegsfyrirtækjanna, einkum og sér í lagi vegna þess að ekki er fyrir hendi samhengi milli ábyrgðar ríkissjóðs og rekstrar sjávarútvegsfyrirtækjanna. Á undanförnum árum hefur mesta góðæri í sögu sjávarútvegs á Íslandi átt sér stað, ekki síst vegna þess hve vel hefur gengið að skapa verðmæti með veiðum, vinnslu og sölu á makríl til Rússlands.
Hluthafarnir hafa notið góðs af þessu, eðlilega, og greitt tugi milljarða í arð, sé mið tekið af árinu 2009 og fram á þetta ár. En undir niðri, þegar kom að makrílnum, var alltaf pólitísk áhætta, meðal annars vegna milliríkjadeilna um makrílveiðarnar. Bara af þeirri ástæðu einni og sér hefðu hluthafar hugsanlega átt að fara varlega við að greiða arð úr félögunum, og halda fjárhag fyrirtækjanna eins sterkum og mögulegt var til að mæta áföllum, sem alltaf gat komið upp.
Það er ekki hægt að setja hendurnar ofan í ríkissjóð til að styrkja fyrirtækin þegar illa árar, hvort sem vandræðin eru vegna breytinga á leikreglum erlendis eða einhverju öðru. Gjaldeyrisþurrð í Rússlandi er áhættuatriði í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og ríkissjóður ber blessunarlega enga fjárhagslega ábyrgð á henni.
Í þriðja lagi er það síðan staða ríkissjóðs, og hin pólitíska hlið málsins. Það að taka fé úr skuldsettum ríkissjóði, og gefa sjávarútvegsfyrirtækjum, í þeim aðstæðum sem uppi eru í landinu, þar sem fjölmargar krefjandi áskoranir bíða stjórnmálamanna við hagstjórn, væri fordæmalaus spilling. Nóg ætti að vera komið af glórulausum gjöfum úr ríkissjóði til fólks sem þarf ekkert á því að halda, eftir hina svonefndu leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðisskuldum sumra, en bótagreiðslur til útgerðarfyrirtækja sem hafa verið að selja afurðir til Rússlands myndi skapa alveg ný viðmið í heimsku.