Kaup hóps fjárfesta á fimm prósent hlut í Símanum, fyrir 1.330 milljónir króna, hafa vakið athygli. Kjarninn greindi frá viðskiptunum með ítarlegum hætti í dag. Hópinn leiðir hollenski fjárfestirinn Bertrand Kan, sem er fyrrum yfirmaður hjá Morgan Stanley. Kan þekkir vel til Símans, en hann stýrði meðal annars söluferli hans árið 2005, þegar Síminn var einkavæddur, fyrir hönd Morgan Stanley.
Á meðal annarra sem keyptu er Orri Hauksson, forstjóri Símans, sem keypti samtals 0,4 prósent hlut fyrir um 106 milljónir króna.
Fyrrum forstjóri eins helsta samkeppnisaðila Símans, Vodafone á Íslandi, er á meðal þeirra fjárfesta sem tilheyra hópnum. Það er Ómar Svavarsson og stýrði Vodafone á Íslandi í fimm ár, eða þar til í maí 2014 þegar honum var sagt upp störfum. Ómar hafði þá starfað hjá Vodafone frá árinu 2005.
Í dag var einnig tilkynnt um að stjórn Símans leggi til að fastráðnir starfsmenn fyrirtækisins fái allir tækifæri til að eignast hlutafé í félaginu þegar það verður skráð á markað í haust. Starfsmenn munu geta á fimm árum tryggt sér hlutabréf fyrir allt að sex hundruð þúsund krónur árlega. Sama verð mun standa starfsmönnunum til boða í valréttaráætluninni og fjárfestarnir sem keyptu í dag fengu bréf sín á, eða 2,5 krónur á hlut.
Það sem hefur vakið athygli fólksins í bakherberginu er verðmiðinn á hlutnum í Símanum, en miðað við kaupin á fimm prósenta hlutnum er fyrirtækið metið á 26,6 milljarða, eða sem nemur tæplega eigið fé félagsins, sem var 29,9 milljarðar um síðustu áramót.
Sé litið til markaðsvirðis keppinautar Símans á markaði, Vodafone, er þetta frekar lágt verð. Eigið fé Vodafone er um átta milljarðar en markaðsvirðið um 15 milljarðar. Ef sami margfaldari væri notaður á virði Símans, væri markaðsvirði þess 56,8 milljarðar en ekki 26,6 milljarðar.
Síminn verður skráður á markað í haust og þá mun koma í ljós hvernig markaðurinn verðleggur félagið. Það mun ekki koma eins og þruma úr heiðskíru lofti ef verðmiðinn verður eitthvað hærri en sá sem miðað er við í viðskiptunum í dag. En eins og alltaf þegar kemur að hlutabréfamörkuðum þá getur ýmislegt ófyrirséð hreinsað burtu mikil verðmæti í félögum á skömmum tíma. Það er því ekki á vísan að róa í þessum viðskiptum frekar en öðrum...