Ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra var flutt undir dynjandi mótmælum, en í henni sagði Sigmundur Davíð það sem eflaust margir geta verið sammála um. Ísland er gott land, og það getur orðið enn betra, sagði forsætisráðherra. Góð vísa er aldrei of oft kveðin, hvað þetta snertir.
Þetta er rétt hjá forsætisráðherra, og full ástæða til þess að minna á þetta á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Fólkið í bakherberginu hefur rætt það margsinnis, hversu mikilvægt það er að huga ekki aðeins að góðum hagtölum, heldur ekki síður að mannauði þjóðarinnar og hvernig þekking flæðir til og frá landinu. Hagvöxtur segir nefnilega ekki svo mikið um hvort staðan í hagkerfinu er góð eða slæm, heldur er mun mikilvægara að fylgjast grannt með því hvaða þekking er að fara úr landinu, og hvers konar störf eru að koma í staðinn.
Margt bendir til þess að verðmæt þekkingarstörf hafi verið að fara úr landi, meðal annars á sviði verkfræði og í iðngreinum ýmis konar, á meðan láglaunastörf, meðal annars í ferðaþjónustu, hafa orðið til í staðinn. Þetta þarf ekki að vera slæmt til skamms tíma, en til lengdar er þetta óæskilegt.
Það hefur áður verið á það minnst í bakherberginu, að Þjóðskrá Íslands fylgist ekki með því hvernig þekking er að fara til og frá landinu, og því hefur Hagstofan ekki góð gögn til þess að vinna úr þegar að þessu kemur.
Forsætisráðherra fjallaði, skiljanlega, mikið um Ísland á þjóðhátíðardaginn (Orðið Ísland kom 15 sinnum fyrir í ræðunni), en það er líka mikilvægt að fjalla um það hvernig Ísland er að þróast innan frá og spyrja spurninga um hvort mannauður þjóðarinnar sé að hreyfast í rétta átt eða ekki. Til framtíðar mun hagvöxturinn ekki geta komið frá auðlindadrifnum hluta hagkerfisins, heldur úr alþjóðavæddum þekkingargeira. Þess vegna þarf að rækta mannauðinn ekki síður en að horfa til góðra hagtalna.