Flest tökum við lán einhvern tímann á lífsleiðinni enda auðveldar lántaka kaup á hlutum sem erfitt væri að staðgreiða. Hérlendis er aðgengi að lánsfé gott og skiptir þá ekki máli hvort verið er að fjármagna kaup á bíl, eldhúsinnréttingu, tölvu eða sófa svo fáein dæmi séu nefnd. Seljendur sjá sér stundum hag í því að veita viðskiptavinum sínum lán, til dæmis símafyrirtæki sem veitir lán fyrir snjallsíma, en oftast er lánveitandinn annar en seljandinn.
Lánveitendur taka ákvarðanir um útlán sem byggja á mati á því hvort lántaki sé líklegur til að geta endurgreitt lán og nota þeir oft ólíka og misgóða mælikvarða við slíkt lánshæfismat. Þeir sem standast lánshæfismat eiga þess kost að fá lán á stöðluðum kjörum. Að bjóða stöðluð kjör er einföld og þægileg aðferð fyrir lánveitendur sem er þó hvorki gallalaus né vönduð. Stærsti gallinn er augljóslega sá að enginn greinarmunur er gerður á lántökum sem fullnægja lágmarkskröfum um lánshæfi: Þeir bestu í þeim hópi fá sömu kjör og þeir lökustu. Þannig eru lánakjör þeirra bestu ákvarðað á grundvelli lánshæfismats þeirra sem hafa lakasta lánshæfismatið í hópi hæfra lántaka. Í því felst að lánakjör þeirra verða óhagstæðari en tilefni er til. Á þróuðum lánamörkuðum, til dæmis Bandaríkjunum og Bretlandi, endurspeglast lánshæfismat lántaka alla jafna í lánakjörum – betra lánshæfismat, hagstæðari lánakjör.
Íslenskir lánveitendur hafa tækifæri til að bæta útlánaaðferðir sínar og um leið styrkja samkeppnisstöðu sína með því að horfa í auknu mæli til niðurstöðu lánshæfismats við ákvörðun lánakjara. Vísir að bætum lánaviðskiptum má sjá hjá einstaka lánveitendum sem eru farnir að bjóða lánakjör sem taka mið af því hversu gott lánshæfismat lántakinn hefur. Sem dæmi um slíkt má nefna bílalán þar sem vaxtakjör taka mið af lánshæfismati lántakans. Þá eru dæmi um að lánveitendur eigi frumkvæði að því að bjóða lántökum afslátt á lántökugjöldum, hærri lánsfjárhæðir eða draga úr kröfum um ábyrgðir eða tryggingar í takt við bætt lánshæfismat.
Lántakendur á Íslandi eiga að þekkja samningsstöðu sína þegar kemur að lántöku og gildir einu hvort um er að ræða lántöku til lengri eða skemmri tíma. Þeir eiga að geta gengið á milli lánveitenda og freistað þess að fá kjör sem taka mið af því hversu góðir greiðendur þeir eru. Fyrsta skrefið í þá átt er að spyrja lánveitanda að því hvort lánakjör endurspegli niðurstöðu lánshæfismats.
Höfundur er stjórnarformaður Creditinfo.