Covid hefur reynt á íslenskt samfélag. Við höfum þurft að hugsa margt upp á nýtt og sumar umbætur höfum við þurft að bíða með. Við höfum tekið ákvarðanir sem gætu á endanum kostað ríkissjóð 6-700 milljarða. Því við töldum það vera samfélagslega rétt að beita ríkissjóði til að milda áfallið og tryggja að við kæmumst saman í gegnum faraldurinn. Markmiðin hafa verið skýr, að tryggja heilsu fólks og afkomu. Að tryggja að þrátt fyrir að störfum hafi fækkað tímabundið hefði fólk samt framfærslu.
Fyrir Covid voru gerðar breytingar á skattkerfinu sem nú hjálpa til. Fjármagnstekjuskatturinn var hækkaður. Nýtt þriðja þrep skattkerfisins tekið upp og það hefur gagnast þeim best sem lægstar hafa tekjur. Með þeirri breytingu hækkuðu ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna hlutfallslega mest. Grænir skattar (álögur á notkun kolefnaeldsneytis og kæliefni) hafa aukist þó við teljum að við þurfum að taka stærri skref, til að mynda með hækkun kolefnisgjalds á eldsneyti. Við þurfum líka að herða baráttuna gegn skattsvikum og skattaundanskotum. Við eigum öll að greiða til samfélagsins.
En hvernig verða næstu skref? Hvernig munum við stjórna fjármálum landsins (og þar með heimilanna óbeint) inn í næstu misseri? Okkar svar í Vinstri grænum er að við eigum ekki að borga reikninginn af Covid með auknum sköttum á þau sem minnst bera úr bítum í dag. Við ættum að skoða frekari þrepaskiptingu í skattkerfinu, þannig að þau sem hafi hæstu tekjurnar, hvort heldur er fjármagns eða launatekjur leggi líka hlutfallslega mest til samfélagsins. Það mætti til dæmis hugsa sér sem þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt þar sem hóflegur sparnaður fengi hærri skattleysismörk, og umtalsverð tekjumyndun fjármagns væri skattlögð meira en nú er gert. Þó að eignaójöfnuður hafi farið minnkandi á kjörtímabilinu þá er hann ennþá fjarri því að vera réttlátur. Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur er góð leið til að sporna gegn því að eignaójöfnuður aukist.
Við þurfum líka að tryggja að fólk hafi vinnu og framfærslu því þannig styrkjum við þá skattstofna sem við þurfum til að greiða Covid reikninginn inn í framtíðina. Þess vegna þarf að ná fullri atvinnu sem fyrst.
Skattkerfið á að vera tæki til að auka jöfnuð í samfélaginu, tæki til að tryggja að öll hafi tækifæri til að vaxa og dafna, og búi við það öryggi sem felst í traustum innviðum samfélagsins. Það á að vera metnaðarmál okkar allra að leggja til samfélagsins eftir efnum og aðstæðum. Góðir skattar tryggja gott samfélag.
Höfundar skipa 3. og 4. sæti á listum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Suðvestur- og Norðausturkjördæmi.