Ísland mætti með veikburða stefnu og óskýrt hlutverk til loftslagsráðstefnunnar í Glasgow í nóvember. Markmið höfðu ekki verið uppfærð og stefnuskjal var sett fram í formi sviðsmynda, fremur en ákveðinnar leiðar. Skömmu síðar endurnýjuðu ríkisstjórnarflokkarnir heitin og sammæltust um nýtt markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands árið 2030 miðað við árið 2005. Í stjórnarsáttmálanum er ennfremur lýst áhuga á að setja loftslagsmálin í forgang. Þar sem eftir er að útfæra aðgerðir eða hvernig eigi að fjármagna leiðina að 55%, er hér gerð tilraun til að ramma inn nokkra þætti sem grænt plan þyrfti að taka til.
Orðum fylgi aðgerðir, og aðgerðum fjármagn
Til að mögulegt verði að ná 55% markmiðinu 2030 og kolefnisleysi 2040, þarf strax að hefjast handa við að ramma inn verkefnið og gera skýra áætlun. Í loftslagsaðgerðum Íslands er þó ekki nóg að horfa einungis á losun á því sem heyrir undir beina ábyrgð stjórnvalda, heldur þurfa þau jafnframt að líta til losunar hér á landi sem fellur undir ETS kerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir, og það þarf að takast á við losun frá landi, kolefnisbindingu og förgun með skipulegum hætti og fjárfesta í aðgerðum.
Í sem stystu máli þurfa stjórnvöld að koma sér út úr því að reyna sífellt að fegra myndina og smætta vandamálið, heldur takast á við loftslagsmálin af raunverulegum metnaði og krafti. Að orðum fylgi aðgerðir og aðgerðum fylgi fjármagn. Sú nálgun getur skapað ýmis tækifæri fyrir Ísland um leið og árangur næst gegn hamfarahlýnun.
Það þarf bæði að standa sig vel á heimavelli, við að draga úr útblæstri, binda kolefni og styðja við tækni, nýsköpun og frumkvöðlastarf, en einnig að stuðla að jákvæðum breytingum á alþjóðavísu, með ötulum málflutningi, samstarfi við lykilþjóðir, stuðningi við atvinnulíf og miklu öflugri og markvissari nálgun í utanríkismálum og þróunarsamvinnu.
Skýrt skipulag um verkefnið
Fyrst þarf að ná utan um verkefnið og leiða það frá toppnum. Stjórnsýsla loftslagsmála hefur verið brotakennd og við því þarf að bregðast. Ein leiðin væri að ráðherranefnd um loftslagsmál undir forsæti forsætisráðherra hefði forystu um Grænt plan fyrir Ísland með starfsfólki og stjórntækjum til að tryggja framkvæmd og eftirfylgni þess innan alls stjórnarráðsins. Í þeirri nefnd ættu að vera forsætisráðherra, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, fjármálaráðherra og ráðherrar sem fara með samgöngur, vísindi, iðnað og nýsköpun, sjávarútveg og landbúnað, og utanríkisráðherra.
Hinn kosturinn væri að fela umhverfis-, orku og loftslagsráðherra að leiða Grænt plan fyrir Ísland þvert á ráðuneyti og leita í skipulag hliðstætt því sem sett var upp við undirbúning og framkvæmd umsóknar Íslands að Evrópusambandinu 2009 þegar utanríkisráðherra leiddi starfið og skipaði vinnuhópa með sérfræðingum úr öllum ráðuneytum og utan úr samfélaginu, en átti samráð við forsætis- og fjármálaráðherra í ráðherranefnd um Evrópumál. Þá var einnig að störfum nefnd á Alþingi til að tryggja breiðari aðkomu og lýðræðislegt aðhald og loftslagsmálin verðskulda einnig slíkt þverpólitískt samráð.
Þá þarf frá upphafi að hnýta inn samráð stjórnvalda við einkageirann, atvinnulífssamtök, vísindasamfélagið og launþegahreyfinguna osfrv. til að byggja vöxt og velsæld inn í planið og stuðla að því að umskiptin verði bæði réttlát og sjálfbær. Tryggja verður að lykilráðherrar og ráðuneyti vinni saman sem eitt lið en ekki hvert í sínu horni. Verði hver skrifstofa stjórnarráðsins látin um að vinna málin á sínum forsendum án samræmdrar stýringar að ofan, mun árangur ekki nást, yfirsýn mun skorta og veiting fjármuna til að ná markmiðinu verður ómarkviss.
Græn fjárfestingaáætlun
Tengt hinni miðlægu stýringu er nauðsynlegt að gera heildstæða fjárfestingaráætlun fyrir loftslagið. Þannig þarf að safna saman þvert á ráðuneyti og stofnanir fyrirhuguðum opinberum fjárfestingum á næstu fjórum árum og svo til ársins 2030 og fara vendilega yfir öll þau áform með loftslagsmarkmið í huga og bæta nýjum við. Þannig verði stórframkvæmdir í samgöngumálum hugsaðar út frá því hvernig þau vinni með markmiði stjórnvalda um 55% samdrátt í útblæstri til ársins 2030 og önnur fjárfestingaverkefni einnig. Undir þetta fellur fjárfesting í flutningskerfi raforku sem veitir ekki af uppfærslu í til að tryggja aðgengi að orkuskiptum um allt land.
Á sama hátt þurfa stjórnvöld að vinna með stærstu sveitarfélögum og öðrum sem hafa hagsmuna að gæta að því að koma á verkefni um græna húsnæðisuppbyggingu þannig að hugað sé að því hvernig tekist verði á við kolefnisspor í byggingariðnaði, unnið að orkuskiptum innan þess geira og stuðlað að virku hringrásarhagkerfi til að ná aukinni yfirsýn, betri nýtingu og minni sóun.
Þegar græn fjárfestingaráætlun liggur fyrir, er hægt að huga að því hvernig skuli fjármagna þau verkefni með grænni fjármögnun bæði innanlands og með alþjóðlegu fjármagni.
Hröð orkuskipti
Uppfært markmið kallar á hraðari orkuskipti en hingað til hefur verið stefnt að. Mestur útblástur á ábyrgð Íslands kemur frá samgöngum og til þess að ná honum niður þarf að breyta bílaflotanum sem mest yfir á endurnýjanlega orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis á tiltölulega fáum árum. Best væri að á sama tíma tækist að fækka bílum með betra skipulagi, öflugum almenningssamgöngum og fjölbreyttari ferðamátum, þannig að hvert heimili þyrfti ekki að reka fleiri en einn bíl.
Til þess að þetta náist, þarf að fjárfesta í almenningssamgöngum og þéttari byggð, tryggja innviði og orkuframboð. Enn fremur verður að líta heildstætt á verkefnið út frá því hvert orkan er nú seld en 80% af raforku fer nú til stóriðju, bundin í samningum sem koma til endurskoðunar á næstu árum. Sú stóriðja sér um þriðjung af allri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Þegar horft er á orkuskipti í samgöngum, verður að skoða þau út frá ólíkum gerðum ökutækja. Um 40% nýrra bíla undanfarin ár, hafa verið bílaleigubílar sem koma síðan nokkrum mánuðum síðar inn á almennan markað. Mikilvægt er að tryggja innviði til að auka verulega hlut hreinorkubifreiða í bílaleiguflotanum. Þá þurfa að vera til staðar leiðir til að hvetja fyrirtæki sem reka stóra bílaflota að skipta yfir í hreinorkubíla, að tryggja innviði fyrir bæði leigubifreiðar og önnur atvinnutæki til að geta skipt yfir í rafbíla.
Einnig þarf að útfæra aðgerðir að stuðla að orkuskiptum fyrir stærri ökutæki. Þar er nauðsynlegt fyrir Ísland að fjárfesta í þekkingu og framleiðslugetu á grænu vetni sem verður að líkindum notað fyrir flutningabifreiðar fyrir vörur og fólk og vinnuvélar. Æskilegt væri að íslensk stjórnvöld styddu vel við sprotafyrirtæki sem eru að hasla sér völl á þessu sviði og í sambærilegri þróun.
Að lokum þarf að vinna áfram að orkuskiptum í höfnum landsins og vinna að nýsköpunarverkefnum sem snúast um að koma á orkuskiptum í sjávarútvegi og flugi til lengri tíma. Ísland hefur allar forsendur til að vera vettvangur fyrir nýsköpun á þeim sviðum.
Almenningssamgöngur og fjölbreyttur ferðamáti
Til að sækja fram í loftslagsmálunum er ekki nóg að afla meiri orku eða skipta út brunabílum fyrir rafbíla. Jafnframt verður að byggja betur upp loftslagsvænar almenningssamgöngur, mest í þéttbýli en einnig milli landsvæða. Stjórnvöld þurfa að vera ófeimin við að koma með auknum krafti með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu í borgarlínuverkefnið en einnig fylkja sér á bakvið uppbyggingu innviða til að fólk geti ferðast gangandi og hjólandi.
Þarna verða ríki og sveitarfélög að vinna enn betur saman. Það dugar ekki fyrir stjórnvöld sem ætla að hafa metnað í loftslagsmálum að velta allri ábyrgð á almenningssamgöngum yfir á sveitarfélög, eins og nú virðist stefna í. Til að mynda er eftirsóknarvert að almenningssamgöngur færist sem mest yfir á endurnýjanlega orkugjafa. Græn tenging milli Reykjavíkur og flugvallarins í Keflavík gæti orðið fullkomlega raunhæf innan nokkurra ára og við það gæti opnast byggingarland í hjarta höfuðborgarinnar sem gæti orðið eitt mikilvægasta loftslagsmál Íslands þegar fram í sækir.
Græn nýsköpunar- og atvinnustefna
Eitt stærsta verkefni næstu ára er að byggja upp grænt hagkerfi á grunni auðlindahagkerfisins, þar sem allar lykilatvinnugreinar minnka kolefnisspor sitt til muna og nýjar verða til með tilheyrandi sköpun grænna starfa. Slík störf geta orðið í matvælaframleiðslu og í nýsköpun, í grænni atvinnustarfsemi sem nýtir raforku osfrv. Stjórnvöld þurfa að taka því alvarlega að stóriðjuverkefnin sem nýta nú stærsta hluta orkunnar, eru ekki öll líkleg til starfa áfram í marga áratugi.
Hér þarf að virkja ýmsa krafta til samstarfs, stjórnvöld þurfa að skapa rétta umgjörð fyrir græn nýsköpunarverkefni sem áhugi væri á að fjárfesta í og þróa hér á landi með útfærslu á ívilnunum og hvötum þannig að fjárfestar og frumkvöðlar geti gengið að því sem vísu hvaða stuðning er mögulegt að fá frá hinu opinbera.
Eins eru tækifæri í að veita frumkvöðlum tækifæri til að þróa sprota hér á landi sem gætu síðan haslað sér völl annars staðar. Þá þurfa stjórnvöld að setja aukna vinnu í að greiða fyrir þátttöku íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum styrkja- og rannsóknaráætlunum.
Græn fjármál og -fjárfestingar
Til þess að greiða fyrir þróuninni úr auðlindahagkerfi yfir í grænt þekkingarhagkerfi, þarf að búa fjármálafyrirtækjum, fagfjárfestum og fjármálamörkuðum umgjörð af því tagi sem verið er að þróa innan Evrópu með færslu yfir í græn fjármál. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa á síðustu misserum rankað við sér og eru byrjaðir að taka þátt í því að fjárfesta í auknum mæli í loftslagsvænum verkefnum. Það er mikilvægt að í þeirri vinnu sem nú fer fram um endurskoðun á lífeyrissjóðakerfinu, að þar verði tekið til skoðunar sú þróun sem hefur orðið í Evrópu um að færa eignasafn lífeyrissjóða í auknum mæli í átt til ábyrgra fjárfestinga. Nokkuð sem mætti töluverðri mótstöðu fyrir aðeins örfáum árum, gæti nú verið mögulegt. Fylgi fjármagnið ekki með, munu sjálfbær umskipti taka mun lengri tíma, fylgi það með, getur það orðið hreyfiafl mikilla breytinga. Mjög margt hefur gerst á allra síðustu árum á þessu sviði, en enn eru íslensk fjármálafyrirtæki og fagfjárfestar langt að baki því sem hefur verið að gerast í Evrópu.
Alþjóðlegt hlutverk – græn utanríkis og þróunarsamvinnustefna
Íslendingar eiga langt í land með að verja sambærilegum framlögum til þróunarmála og okkar næstu nágrannar. Langt er síðan alþingi samþykkti að auka framlögin stig af stigi til að ná því sem samið var um fyrir margt löngu í Mexíkó um að hvert þróað ríki verði amk 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarmála.
Á sama tíma og þjóðir heims hafa þegar svikið það heiti sem þær lofuðu í París að verja 100 milljörðum Bandaríkjadollara á hverju ári til græna þróunarsjóðsins, eru tækifæri til að endurhugsa þróunarsamvinnu Íslands með það fyrir augum að gera loftslagsmálin að kjarnamáli í þróunarsamvinnu. Það ætti að vera hluti af grænni utanríkisstefnu sem ætti að lita allt okkar alþjóðastarf. Slík stefna gæti eflt orðspor Íslendinga til muna en einnig orðið til þess að skapa útflytjendum ný tækifæri. Vel útfærð græn þróunarsamvinnustefna yrði eðlilegur þáttur í metnaðarfullu grænu plani fyrir Ísland.
Höfundur er ráðgjafi um ábyrgar fjárfestingar.
Greinin birtist fyrst í jólablaði Vísbendingar, sem hægt er að lesa með því að smella hér.