Stefna Samfylkingarinnar um að endurreisa barnabótakerfið þannig að fleiri fjölskyldur njóti þess hefur vakið sundurleit viðbrögð í herbúðum ríkisstjórnarinnar.
Nokkrum dögum eftir að stefna Samfylkingarinnar var kynnt sagði formaður VG í landsfundarræðu að það þyrfti að „halda áfram endurreisn barnabótakerfisins og fjölga þeim sem eiga rétt á barnabótum“.
Það eru fréttir í sjálfu sér að forsætisráðherra viðurkenni þörfina á að endurreisa barnabótakerfið og að Vinstri græn skuli yfir höfuð tala á þessum nótum.
Á sama tíma telja sjálfstæðismenn að stuðningskerfið sé fínt þarfnist ekki endurreisnar.
Staðreyndin er auðvitað sú að slík endurreisn er hvorki raunverulega hafin né á dagskrá þeirra flokka sem nú eru við völd á Íslandi.
Hvers vegna vill Samfylkingin endurreisa barnabótakerfið?
Samfylkingin vill bæta kjör barnafjölskyldna og létta undir með fólki á því æviskeiði þegar baslið er mest. Þannig gerum við líf barna og foreldra betra. Um þetta fjallar fyrsti og einn mikilvægasti kaflinn í kosningastefnu Samfylkingarinnar.
Á Íslandi fær meðaltekjufjölskylda með tvö börn nær engar barnabætur en annars staðar á Norðurlöndum fengi sama fjölskylda allt að 50 þúsund krónur á mánuði. Rannsóknir hafa margsýnt að sterk almenn barnabótakerfi með viðbótarstuðningi við einstæða foreldra eru betur til þess fallin að draga úr barnafátækt til langs tíma heldur en kerfi skarpra tekjutenginga og skerðinga.
Frá árinu 1990 hefur stuðningur með hverju barni minnkað um meira en helming hérlendis í hlutfalli við landsframleiðslu. Til að snúa þessari þróun við dugar ekkert minna en endurreisn barnabótakerfisins.
Kosningastefna Samfylkingarinnar felur í sér að meðaltekjufjölskyldan með tvö börn mun fá 54 þúsund krónur greiddar í hverjum mánuði og upphæðin verður 77 þúsund krónur á mánuði fyrir einstæða foreldra. Þessi aðgerð kostar um 9 milljarða og hana má fjármagna með hóflegum stóreignaskatti.
Um hvað snýst ágreiningurinn?
Samfylkingin vill að barnabætur séu almennt stuðningskerfi fyrir barnafjölskyldur. Þetta er þveröfugt við stefnu Sjálfstæðisflokksins og sitjandi ríkisstjórnar um að barnabætur eigi nær einvörðungu að renna til hinna tekjulægstu enda sé velferðarkerfið og hvers kyns bætur bara ölmusa fyrir þau allra fátækustu í samfélaginu.
Í augum Samfylkingarinnar er velferðarkerfið fyrir okkur öll og engin skömm af því að fá stuðning. Við erum sterkari saman og það er löngu tímabært að Ísland taki upp barnabótakerfi að norrænni fyrirmynd.
Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.