Á það var minnst í pæling dagsins í morgun, að Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu Rammasamnings um loftslagsbreytingar hjá Sameinuðu þjóðunum, hefði á fundi í Hörpu, hinn 18. maí, sagt að það væri beinlínis „fáranlegt“ að ekki væri búið að rafvæða bílaflotann á höfuðborgarsvæðinu, í það minnsta að stærstum hluta.
Einhverjum kann að finnast þetta vera fjarri lagi, í ljósi núverandi stöðu, en eins og tækniframfarir í bílaiðnaði og hugbúnaðargeiranum eru þessa dagana, þá gætu falist mikil tækifæri í því fyrir Ísland, og þá einkum höfuðborgarsvæðið, að kanna hvort það er mögulegt að komast í forystu í þessum efnum. Óvíða í heiminum eru betri innviðir þegar kemur að raforku, þekkingu á vistvænum orkugjöfum og almennum internettengingum til heimila, svo eitthvað sé nefnt.
Svo eru hagsmunirnir miklir sömuleiðis, þar sem Ísland gæti sparað sér milljarða á ári í gjaldeyri, með því að vera með rafvæddan bílaflota í daglegu amstri á höfuðborgarsvæðinu.
Kannski þarf að hafa samband beint við Google, sem leiðir nú mikla tæknibyltingu í bílaiðnaði ásamt Tesla Motors og fleirum, og benda á þann möguleika, að Reykjavík og nágrenni hefði mikla hagsmuni að því að taka þátt í innleiðingu nýrrar tækni sjálfakandi rafmagnsbíla. Það kann að vera að þeir myndu lenda í vandræðum í hálkunni. En varla verða þeir verri en þegar fólkið er að reyna að stýra!
Líklega er nú hægt að sættast á það, þegar allt er skoðað, að það er hægt að ganga miklu, miklu lengra í þessum efnum hér á landi, það er að ýta undir skynsamlegar og umhverfisvænar tækninýjungar í bílaiðnaði, en þegar hefur verið gert.