Í maí síðastliðnum var tekið fyrir í Hæstarétti fyrsta forsjármálið í langan tíma. Þetta var tækifæri fyrir dómstólinn til að öðlast skilning á þeim vanda sem horfir við í þessum málum í dag, bæði á Íslandi og um heim allan. Tækifæri til að leggja traustan grunn að velferð og öryggi barna og beina þeim boðum til lægri dómstiga að foreldrahlutverkið fjalli um ástúð, velvild, umhyggju og ábyrgð, ekki líffræði. Því miður gerði dómstóllinn ekkert af þessu. Í staðinn tók hann ákvörðun um óbreytt ástand sem er síst til þess fallið að auka traust mæðra og barna til kerfis sem er að bregðast þeim.
Þetta mál var eftirtektarvert fyrir að vera það fyrsta á Íslandi, með upphaflegri ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur, sem bar glögglega vitni um hættulega þróun sem orðið hefur víða um heim. Forsjá var færð til föður sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barninu, á þeim grunni einum að móðir hafi hindrað umgengni barnsins við hann. Um gjörvalla Evrópu og Norður-Ameríku gerist það alltof oft að fjölskyldudómstólar skipa föður fulla forsjá eftir að móðir greinir frá ofbeldishegðun hans gagnvart barni þeirra. Mæðrum er refsað fyrir að vekja athygli ríkisins á ofbeldi gegn börnum og öryggi barna er hunsað.
Þó að Landsréttur hafi snúið þessari skelfilegu niðurstöðu við, þrátt fyrir að hafa líkt og héraðsdómur litið framhjá hegðun föðurins, var það ákvörðun Hæstaréttar að fjalla um dómsniðurstöðuna. Vonir stóðu til þess að áhyggjur Hæstaréttar beindust að upphaflegu ákvörðuninni og ætlunin væri að senda skýr skilaboð til Héraðsdómstóla um að slíkur fjandskapur í garð kvenna og barna væri ekki umborinn. En í stað þess að skoða og gagnrýna hvernig fjölskylduréttarkerfið bregst, valdi Hæstiréttur að bregðast með sama hætti.
Hæstiréttur hefði átt að nýta úrræði sín til að öðlast nákvæman skilning á því hvað er að gerast í forsjármálum um heim allan og hvernig þessir þverþjóðlegu straumar hafa fundið sér farveg inn í íslenska dómstóla. Í Bandaríkjunum er áætlað að um 58.000 börn séu þvinguð ár hvert inn í ótryggar aðstæður af fjölskyldudómstólum. Sú stefna hefur leitt til hörmulegrar niðurstöðu þar sem hættulegir feður myrða börn í kjölfar þess að þeim er veitt full forsjá eða umgengni við börnin án eftirlits.
Tvö lagafrumvörp liggja nú fyrir hjá löggjafarvaldinu í Pennsylvaníu og New York fylkjum sem ætlað er að vinna gegn þessu fyrirbæri. Frumvörpin eru nefnd, „Kayden’s Law“ og „Kyra’s Law“ eftir tveimur börnum sem myrt voru af feðrum sínum vegna þess að fjölskyldudómstólar þessara fylkja brugðust. Hæstiréttur hefði átt að vera meðvitaður um að ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur sendi Ísland rakleitt inn á þessa skelfilegu braut, og hefði átt að leitast við að setja fordæmi sem kæmi í veg fyrir að við þurfum að feta í þau hræðilegu fótspor að nefna nýja löggjöf eftir myrtum börnum. En það gerði hann ekki.
Upphafleg ákvörðun héraðsdóms var undir áhrifum hrakinnar kenningar, „Parental Alienation Syndrome (PAS)“ sem fær dómara til að trúa því að mæður séu í eðli sínu svikular og undirförular, að þær hindri normalíseraða umgengni við föður af illgirni, fremur en vegna þess að þær hafi áhyggjur af öryggi barnsins. Að minnsta kosti tvö önnur forsjármál eru nú í umfjöllun Héraðsdómstóla þar sem þessari kenningu er beitt gegn mæðrum sem reyna að verja börn sín frá ofbeldismönnum. Hugsunarhátturinn er greinilega afhjúpaður á fyrstu stigum málsmeðferðar, þar sem í öðru forsjármálinu er lögheimili fært til bráðabirgða til föður sem beitir ofbeldi, en í báðum málunum eru frásagnir af heimilisofbeldi markvisst tortryggðar í forsjárhæfnimati dómkvaddra matsmanna.
Fyrir liggur yfirgnæfandi fjöldi rannsókna sem sýna að ekki einungis er PAS vísindalega ógild kenning, heldur grefur hún undan bæði innlendri löggjöf og alþjóðlegum samningum um réttindi barna. Af þessum ástæðum hafa ný barnalög á Spáni bannað notkun á PAS fyrir þarlendum fjölskyldudómstól. Spænska löggjöfin leggur sérstaka áherslu á hættuleg áhrif hugtaksins og var samin með það að markmiði að vinna gegn staðalímyndum og fordómum í garð kvenna, bæði í velferðarkerfinu og fyrir dómstólum, sem leiða endurtekið til þess að börn eru þvinguð í hættulegar aðstæður. Viku áður en Hæstiréttur Íslands fjallaði um áðurnefnt forsjármál, var það Hæstiréttur Ítalíu sem sýndi hvernig æðsti dómstóll ætti að haga sér, þá sjaldan hann tekur fyrir forsjármál. Hinn ítalski Hæstiréttur viðurkenndi og fjallaði með virkum hætti um hvernig kerfið bregst, og tók ákveðið á þeim vanda sem hlýst af notkun PAS. Dómstóllinn dró einkum fram þá djúpstæðu kvenfyrirlitningu sem felst í hugtakinu, þar sem það útheimtir að réttarákvörðun byggi á því hverjir einstaklingar eru, en ekki á háttsemi foreldris til hins betra eða verra. Karlmönnum sé með því úthlutað forréttindum eingöngu fyrir að vera karlar en konur alltaf álitnar tortryggilegar vegna þess að þær eru konur.
Það eru þessar rótgrónu og ósanngjörnu hugmyndir um karla og konur sem knýja einnig áfram umgengnisréttarmenningu (e. pro-contact culture), sem hefur sligað barnaverndarkerfin hér á Íslandi og í kringum hnöttinn. Líffræði er það sem hefur vægi innan þessara kerfa, ekki hegðun. Þó kaldhæðnislega sé það einungis karlkyns líffræði sem fær úthlutað þessum forréttindum. Þrátt fyrir að konur eigi megnið af líffræðilegu vinnunni ásamt þunganum af umönnun barna, hefur þeirra líffræði ekki sama vægi í kerfinu.
Vegna þess hversu umgengnisréttarmenningin er sterk, er það að koma á umgengni, en ekki að skapa öruggt og gott umhverfi fyrir börn, orðið að markmiði dómstóla. Það að einblína á þetta hefur leitt til þess að umgengnisfyrirkomulagið sjálft er orðið mælikvarðinn á velferð barna, í stað góðra tengsla foreldris við barn. Ef að móðir fullyrðir að faðirinn sé hættulegur maður, er ekki litið þannig á að hún sé að gera hið rétta með því að vernda barn sitt, heldur að hún standi í vegi fyrir markmiðum dómstólsins. Vísbendingar um hegðun föður sem kemur í veg fyrir þetta sama markmið, eru ítrekað hunsaðar, gert lítið úr þeim eða þær afsakaðar. Vísbendingar um hegðun hans skapa nauðsyn þess að draga heilindi móður í efa. Hin gamalkunna söguskýring um reiða konu í hefndarhug verður sjónarhorn dómstólsins.
Í afstaðinni fyrirtöku Hæstaréttar Íslands, spurðu dómarar ekki hvaða ráðstafanir móðirin gerði til að tryggja öryggi og velferð barnsins, heldur spurðu þeir hvers vegna hún var ekki að sjá til þess að „eðlileg“ umgengni við föður færi fram. Þetta er það sem umgengnisréttarmenning gerir; endurstillir hugsun dómstóla, frá öryggi og velferð barna, að því að bæta úr gremju karla sem móðir telur að sýni hættulega hegðun. Réttur barna er fjarlægður frá þeim og hann afhentur körlum sem beita ofbeldi.
Í júní árið 2020 birti breska dómsmálaráðuneytið skýrslu, „The Harm Report“, sem útlistaði nákvæmlega hvernig þessi umgengnisréttarmenning, bæði innan fjölskyldudómstóla og velferðarkerfis, stofnar lífi barna í hættu. Skýrslan dregur fram hvernig kerfið er heltekið af þeirri trú, að vöntun á normalíseraðri umgengni við föður sé skaðlegri barninu en hverskyns ofbeldi sem faðirinn beitir. Þessi trú gerir það nánast útilokað fyrir mæður að vernda börn sín frá mönnum sem beita ofbeldi.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2020 var föður í öðru máli dæmt lögheimili barns, þar sem þó lá fyrir rökstuddur grunur um kynferðisbrot hans gegn barninu, en auk þess áverkavottorð sem sýna líkamlegt ofbeldi föðurins gegn móður. Héraðsdómur kannaði ekki vilja barnsins í málinu en Landsréttur sem staðfesti síðan niðurstöðuna fór ekki að vilja þess varðandi skýrar óskir um samvistir með móður, jafnvel þó barnið hafi náð þeim aldri sem almennt er talinn nægilegur til að afstaða þess sé lögð til grundvallar dómi. Í beiðni móður um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar þann 5. júlí síðastliðinn er bent á að það brjóti almennt í bága við grundvallarreglu barnaréttar, eins og fram kemur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og rétt barns til að tjá sig um mál samkvæmt íslenskum barnalögum, að líta framhjá vilja þess. Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðninni í ágúst síðastliðnum og sá ekki að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi né að það varðaði sérstaklega mikilvæga hagsmuni móðurinnar.
Það undirstrikar enn frekar menningarlega bresti innan dómskerfisins í forsjármálum, að Hæstiréttur hafi samþykkt áfrýjunarbeiðni ætlaðs ofbeldismanns, eins og hann gerði í málinu sem flutt var í maí, en hafi hafnað áfrýjunarbeiðni þolanda ofbeldis, eins og hann gerði í ágúst.
Hæstiréttur ætti að vera dómstóll sem stundar af alvöru krítíska greiningu á þeim hugtökum sem beitt er í forsjármálum, auk þess að fjalla um viðbrögð dómskerfisins sjálfs við þessum hugtökum. Það ætti að vera tilgangurinn þegar hann samþykkir að taka forsjármál fyrir. Hæstiréttur ætti að leitast við að þekkja og skilja vankanta kerfisins í heild sinni , samhliða því að þróa víðtækari hugmyndafræði um gildi foreldrahlutverksins og uppeldis barna, og mikilvægi þeirra fyrir heilbrigði íslensks samfélags. Nota þannig vægi sitt til að senda sterk skilaboð til lægri dómstóla um þessi mál.
Það er röð spurninga sem dómarar Hæstaréttar hefðu átt að velta upp varðandi þetta forsjármál en þeir létu ósvarað:
Hvers vegna metur dómskerfið líffræði fram yfir hegðun feðra?
Er það til bóta fyrir íslenskt samfélag að gerðar séu minni kröfur til föðurhlutverksins? Hvers vegna væntum við minna af körlunum okkar?
Er það sanngjarnt gagnvart börnum að dregið sé úr kröfum sem gerðar eru um gæði þeirra barnæsku? Hvernig mun það hindra þroska þeirra?
Hvaða gildi hefur sú hugmyndafræði að normalísera umgengnisrétt? Er þessi hugmyndafræði smíðuð í þágu barna, eða til að verja húsbóndavald karla?
Hvers vegna tekur réttarkerfið heimilisofbeldi ekki alvarlega?
Hvers vegna þvingar ríkið börn til samskipta við þá karla sem hafa beitt þau ofbeldi? Ríkið myndi ekki þvinga brotaþola nauðgunar til að búa með árásarmanninum, hvers vegna er það gert við börn?
Hefur réttarkerfið haldgóðan skilning á ofbeldishegðun og sálfræði ofbeldis?
Er réttarkerfið meðvitað um hvernig menn sem beita ofbeldi nota kerfið sem vopn gegn börnum sínum og fyrrum maka?
Hvers vegna er tortryggni og fjandsemi í garð kvenna svo rótgróin í réttarkerfinu?
Þetta er allt rækilega fram komin gagnrýni á kerfið sem Hæstiréttur hefði í það minnsta átt að gefa sér tíma til að íhuga. Sér í lagi, hefði Hæstiréttur átt að vera forvitinn um hvers vegna héraðsdómur tók í upphafi svo órökrétta og siðferðislausa ákvörðun, og leitast við að skilja hvernig kerfið er orðið svo spillt að mögulegt væri að taka slíka ákvörðun.
Grimmd af hálfu stofnana er sjaldan byggð á bersýnilegri illgirni, heldur er henni viðhaldið þegar aðilar innan kerfisins einfaldlega neita að hugsa. Þegar þessir aðilar beygja sig undir ríkjandi menningu gagnrýnislaust og neita að spyrja sjálfa sig hvers vegna þeir taka þær ákvarðanir sem þeir gera. Dómstólar á Íslandi, barnaverndarkerfið og Sýslumenn þjást öll af þessum skorti á sjálfsgagnrýni.
Hæstiréttur tók fyrir mál sem hefur mjög djúpstæðar afleiðingar; mál sem fjallar um meðferð íslensks samfélags á sínum berskjölduðustu, um gildi foreldrahlutverksins, um mikilvægi velferðar barna, um hvernig kerfi sem gert er til að vernda börn gerir endurtekið hið gagnstæða, og hann sýndi ekki snefil af áhuga á neinu af þessu.
Þess í stað tók dómstóllin máttlausa ákvörðun til varnar óbreyttu ástandi. Hann staðfesti niðurstöðu Landsréttar með óyggjandi hætti, fékk móður fulla forsjá til þess að raska ekki þeim aðstæðum sem barnið þekkir, en úrskurðaði barnið í aukna eftirlitslausa umgengni við hættulega föðurinn. Með þessari ákvörðun er staðahæft enn frekar að faðerni sé eingöngu bundið við líffræði og að það veiti föðurnum tiltekinn rétt óháð hegðun hans.
Með þessari ákvörðun brást Hæstiréttur í því hlutverki sínu að setja nýtt fordæmi sem myndi taka á hrottalegum ágalla í ákvörðun héraðsdóms. Hann brást í því að skapa öruggara og traustara samfélag fyrir börn á Íslandi, brást í að þroska skilning á almennu gildi þessa öryggis, brást í því að efla traust þeirra kvenna og barna til réttarkerfisins sem búa við ótryggar heimilisaðstæður.
Sigrún Sif Jóelsdóttir starfar við rannsóknir sem verkefnastjóri hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er talskona samtakanna Líf án ofbeldis.
Grant Wyeth er stjórnmálarýnir og pistlahöfundur hjá The Diplomat.