Að tónlistarkennarar skuli standa jafnfætis öðrum kennurum í launum er svo sjálfsagt mál að það á ekki að þurfa að ræða það. Á sama tíma og verkfall þeirra stendur í járnum streyma arðgreiðslur úr sjávarútvegsfyrirtækjum til einstaklinga sem afhent hefur verið sameiginleg auðlind okkar til að veðsetja, hámarka arð einsog sagt er. Er samhengi þarna á milli? Líklega myndu fáir viðurkenna það, en eru þessar arðgreiðslur ekki í undarlegri mótsögn við þá kenningu að allar kjarabætur, eiginlega sama hve litlar þær eru, setji allt samfélagið á annan endann?
Einar Már Guðmundsson rithöfundur.
Okkur er sagt á hverjum degi að við höfum ekki efni á heilbrigðiskerfi, skólastarfi og menningarstarfssemi og alls konar fautar gerðir út af örkinni til að hamra á því. En verðum við ekki að fara að spyrja okkur hvort við höfum efni á því að þessi sameiginlega auðlind okkar renni í örfáa vasa? Með allri þessari óbilgirni er í raun er verið að hvetja almenning til að rísa upp og umbylta öllu heila klabbinu. Ef spurningin er hverju við höfum efni á þá hlýtur svarið að vera að við höfum síst efni á makráðri yfirstétt sem finnst sjálfsagt að henda skúringakonum út í kuldann en splæsa á sjálfa sig rándýrum lúxusbílum, líklega til að undarstrika hve langt þeir eru komnir frá veruleikanum.
En þá að tónlistarkennurum. Allir eru að vegsama tónlistina og benda á árangur tónlistarfólksins sem á öllum sviðum, í öllum greinum tónlistar. Tónlistin fer víða og lætur svo sannarlega að sér kveða. Mér skilst að Svíar hafi gengið í gegnum þessa umræðu fyrir nokkrum áratugum. Þá átti að skera niður tónlistarskóla landsins og kennarar voru á allt of lágum launum. Settist þá glöggur maður yfir hagtíðindi landsins og kom þá í ljós að tónlistin var engin smásúla í súluritum samfélagsins. Það þarf ekki að nefna nein nöfn þegar Svíar eru annars vegar. Slíkan mýgrút eiga þeir af músík.
Á þessum stað stendur íslenskst samfélag nú. Þó sumir skilji aðeins hagtölur og ekkert bíti á þá nema að hægt sé að bíta í það þá eru þessi hagrænu rök engan veginn eina réttlætingin á tilveru tónlistarnáms og tónlistarsköpunar. Þau rök eru miklu dýpri og varða alla andlega heilsu samfélagsins, tilfinningu okkar fyrir gleði, sköpun, hið mikla dópamín sögunnar eða endorfín eða hvað menn vilja kalla það. Engu að síður hafa tónlistarskólarnir átt sinn þátt í umbyltingu tónlistarlífsins og skapað hér blómaskeið sem líklega er einstakt í sögunni. Það mun framtíðin leiða í ljós. Því hljótum við borgarar þessa lands að krefjast þess að viðsemjendur semji við tónlistarkennara strax og hætti þessu glamri svo við getum notið þeirra tóna sem í vændum eru.
Höfundur er rithöfundur.