Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er maður sem kann vel við sviðsljósið. Og hann er betri en flestir að koma sér þangað. Ein slík leið er að gefa út loðnar yfirlýsingar um hvort hann hyggist sitja áfram í embætti eða ekki.
Í nýársávarpi sínu 2012 sagði forsetinn að hann ætlaði ekki að halda áfram þrátt fyrir að tímarnir væru „markaðir verulegri óvissu og er þá einkum vísað til stöðu stofnana og samtaka á vettvangi þjóðmálanna, að stjórnarskráin hafi verið sett í deiglu breytinga, fullveldi Íslands orðið dagskrárefni vegna viðræðna við Evrópuríki og áríðandi sé að málstaður þjóðarinnar birtist skýrt í alþjóðlegri umfjöllun.“
Þremur mánuðum síðar snérist honum hugur og tilkynnti að hann ætlaði víst að bjóða sig fram. Í stuttri tilkynningu rökstuddi Ólafur Ragnar það m.a. með því að vísa í „vaxandi óvissu varðandi stjórskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis sem og átaka um fullveldi Íslands“.
Í tilkynningu Ólafs Ragnars bað hann þjóðina hins vegar líka um að sýna því skilning að þegar stöðugleiki hefði skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og "staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda".
Ljóst er að Ólafur Ragnar hefur ekki látið verða af því að reyna á skilning þjóðarinnar gagnvart því að hætta á miðju kjörtímabili enda vel hægt að færa rök fyrir því að ekkert þeirra skilyrða sem hann setti fyrir að hætta hafi uppfyllst.
Eftir að þjóðin samþykkti innihald nýrrar stjórnarskrár í kosningum ákvað Alþingi að hunsa þann þjóðarvilja og afgreiða ekki stjórnarskrána. Sú ákvörðun er m.a. talin stór breyta í hruni á fylgi Samfylkingarinnar og stórauknu fylgi Pírata. Með stjórnarskrármálin í slíku uppnámi hefur varla skapast stöðugleiki í stjórnskipan landsins og stjórnarfari. Það má því einnig færa mjög sterk rök fyrir því að enn sé gríðarlegt umrót á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis, sérstaklega þar sem allir hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir mælast með mjög lítið fylgi í öllum samanburði, ríkisstjórnin er sögulega óvinsæl og afl sem hefur beint lýðræði á stefnuskrá sinni er langvinsælasta stjórnmálaafl landsins samkvæmt skoðanakönnunum. Og engin virðist vita hver staða Evrópusambandsumsóknar landsins raunverulega er í kjölfar þess bréfasendingarfarsa sem ráðist var í snemma á þessu ári.
En nú hefur Ólafur Ragnar gefið það út að hann ætli sér að tilkynna um framhaldið í næsta nýársávarpi sínu. Þá fær prúðbúin þjóðin að vita hvort íslensk stjórnmál og alþjóðasamfélagið þoli brotthvarf forsetans eða hvort hann neyðist til að standa vaktina áfram svo glundroði nái ekki yfirhöndinni.
Eða kannski boðar hann eitt en skiptir um skoðun nokkrum vikum síðar. Annað eins hefur nú gerst.