Í þessari grein skrifa ég um af hverju ég tel mjög mikilvægt að Hafnfirðingar taki bæjarstjórnarmeirihlutann úr höndum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins í Hafnarfirði og færi að nýju í hendur jafnaðarmanna. Til Samfylkingarinnar, hins gamla Alþýðuflokks, sem nú býður fram undir forystu eins öflugasta stjórnmálamanns, sem Ísland hefur alið, Guðmundar Árna Stefánssonar. Það er óumdeilanlegt af minni hálfu að Guðmundur er það. Svo öflugur þótti hann, sem heilbrigðisráðherra að forystumenn Alþýðuflokksins, þá er hann var ráðherra, hröktu hann burt í hræðslukast með svívirðilegum aðferðum þegar þeim stóð ógn við eigin tilveru vegna styrkleika Guðmundar. Þetta vita allir, sem vita vilja og er gott að rifja upp til að átta sig á stjórnmálamanns kaliberi Guðmundar Árna.
Ég fjalla um dulin atriði við stjórn bæjarins, refsistefnu núverandi sjálfskipaðs bæjarstjóra íhaldsins í innheimtu vanskila til bæjarsjóðs, hvað aðstandendur með sjúka foreldra heima hjá sér mega þola vegna ríkisstjórnarflokkastefnunnar og smitar beint inn á heimili sumra Hafnfirðinga, vanrækslu í dýraverndar- og umhverfismálum og loks drep ég á atriðum sem eru mér hugleikin og varða Tónlistarskólann og meðhöndlun á málefnum St. Jósefsspítala, Sólvangs o.fl.
Á morgun er kosið í Hafnarfirði
Einhver hvimleiðasta kosningabarátta, síðari tíma, hefur átt sér stað í bænum undanfarnar vikur að undanskildum áhersluatriðum Samfylkingarinnar. Þröngsýni flestra frambjóðenda gagnvart verkefnum bæjarins er bókstaflega þrúgandi fyrir þann sem hlustar á þá og les skrif þeirra. Það er eins og þeir hafi ekki nokkra innsýn í það hvað einkenndi Hafnarfjörð hér á árum áður t.d. í menningu, listum og öðru sem einkenndi hafnfirskt samfélag. Kosningabarátta, sem virðist, af hálfu flestra flokka, einungis snúast um steypu steypu og aftur steypu. Einungis einn leiðtogi hefur með áberandi hætti komið inn á að það er meira en byggingarefni og leikskólapláss, sem þarfnast athygli. Það er Guðmundur Árni Stefánsson oddviti jafnaðarmanna, Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Þá hefur Árni Rúnar Þorvaldsson, sem vermir þriðja sæti jafnaðarmanna, auk þess drepið á málefnum mikilvægs hóps í grein á visir.is og bent á að Framsóknarflokkurinn er jafnt og ég held fram um Sjálfstæðisflokkinn, lítt marktækur á landsvísu og það smitast klárlega að mínu mati í bæjarpólitíkina í Hafnarfirði. Það er bara þannig að formenn ríkisstjórnarflokkanna eru með puttana í málefnum sveitarstjórna þó sjálfstæði sveitarfélaga eigi að heita varið að lögum.
Til þeirra, sem lagt hafa þann feril að baka, sem lýtur að steypu og leikskólaplássum, er vart talað af öðrum en jafnaðarmönnum og því er valið auðvelt í sönnum kratabæ. Hafnarfjörður er kratabær, bær alþýðufólks, sem á að mínu mati ekkert erindi lengur undir stjórn afturhald Framsóknar og íhalds. Ekkert. Því er þetta skrifað því á meðal frambjóðenda eru sannarlega árvökulir einstaklingar, sem þekkja hvernig hjörtu Hafnfirðinga slá og lesa örugglega greinar eins og þessar, hlusta á raddir Hafnfirðinga, fyrir kosningar og halda áfram að hlusta eftir kosningar. Það hefur íhaldið og Framsókn aldrei getið sér gott orð fyrir á síðustu árum! Þessa frambjóðendur er að mínu mati að finna í Samfylkingarliði Guðmundar Árna og vel niður þann framboðslista og hjá forystumanni Miðflokksins Sigurðuri Þ. Ragnarssyni. Aðra frambjóðendur þar þekki ég ekki.
Guðmundur Árni og Sigurður eru með púlsinn, tilfinninguna og skilninginn á þörfum allra aldurshópa í Hafnarfirði. Guðmundur er auðvitað með einstaka leiðtogahæfileika, sem smellpassa fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga. Jafnvel fyrir Samfylkinguna á landsvísu, sem ég vona að verði, fyrr en seinna. Alþýðuflokkinn þarf að endurreisa að nýju, það yrði best gert með Guðmundi Árna, sem fyrirliða jafnaðarmanna á Íslandi. Betri valkost kem ég ekki auga á. Kjósendur þurfa hans forystu í Hafnarfirði og helst á landsvísu.
Sigurður hefur fyrir löngu sannað samskiptayfirburði, áheyrnarhæfileika og einstaka velvild sína. Hann er vinsæll og hann er vandaður stjórnmálamaður. Það þekki ég persónulega.
Tvö kjörtímabil fyrir tækifærissinnað íhaldið
Íhaldið í Hafnarfirði hefur haft tækifæri í tvö kjörtímabil án lífsgæðauppskeru fyrir Hafnfirðinga, að mínu mati, og ríkisstjórnarflokkarnir eru svo sannarlega ekki að gefa bæjarbúum tilefni til að íhuga þá, sem valkosti í sveitarstjórnarkosningunum. Allt snýst um að hlýða íhaldinu, sem í Hafnarfirði hefur að mínu mati ekkert fært þeim, sem ég krefst nú að talað verði til af fleirum en Samfylkingunni fyrir kosningarnar því ólíklegt er að flokkurinn nái hreinum meirihluta. Því þarf hann áreiðanlegan samstarfsflokk.
Ég tel það beinlínis hættulegt fyrir Hafnarfjörð að veita Sjálfstæðisflokknum áframhaldandi brautargengi. Flokki, sem gernýtir alla möguleika til að halda völdum, nú síðast í síðustu kosningum í Hafnarfirði þegar íhaldið önglaði til sín einn mann úr Framsóknargeiranum til að halda meirihluta. Framsókn er alltaf til í að selja sig í slíkt, líkt og virðist með Vinstri græna. Valdagræðgi eins og hún gerist augljósust til að fylla í skarð vígtanna Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarmaðurinn beit á agnið, tryggði sér vænan launaseðil og situr meira að segja á þingfararkaups-launaseðli frá síðustu þingkosningum. Afraksturinn fyrir launagreiðendur, kjósendur, er lítt sjáanlegur!
Lífsgæði ákveðinna aldurshópa í Hafnarfirði þ. á m. þess, sem þetta skrifar, hafa ekkert aukist fyrir tilstuðlan núverandi bæjarstjórnar Hafnafjarðar á sl. tveimur kjörtímabilum. Það er zeró að gerast. Alger stöðnun. Ég geri ráð fyrir að eldri kynslóðir taki undir orð mín.
Tökum nokkur dæmi sem ég tæki á ef ég sæti í bæjarstjórnarmeirihlutanum.
Innheimtuaðferðir bæjarins
Sú var tíðin að Hafnfirðingar áttu bæjargjaldkera. Í fjárhagslegum hremmingum ræddu bæjarbúar við bæjarstjórann og bæjargjaldkerann. Þeir tóku bæjarráðsmenn jafnvel á tal á Strandgötunni eða þegar þeir hittu þá í Sparisjóðnum, sem þá var og hét, Ásmundar- eða Snorrabakaríum eða í lauginni. Allir voru þeir þekktir fyrir lipurð eina á árum áður. Leyst var úr málum.
Undir forystu Rósu Guðbjartsdóttur, sem mundaði brosandi pennann þegar hún skrifaði undir samning við innheimtufyrirtækið Gjaldheimtuna á þessu kjörtímabili, hefur orðið mikil afturför í innheimtumálum bæjarins. Það hallar á gjaldendur í vanskilum, sem sumir hverjir eiga erfitt með að festa svefn.
Refsistefna hefur verið tekin upp við þá sem lenda í fjárhagslegum hremmingum. Engu er skeytt um ástæður. Lögmenn Gjaldheimtunnar ganga hart að bæjarbúum en skeyta engu um Codex Ethicus, siðareglur lögmanna. Þeir hika ekki við að draga húsnæðiseigendur í nauðungarsöluferli innheimtast ekki fasteignagjöld. Þeir skeyta engu um aldur og aðrar aðstæður, sem t.d. öldrun getur fylgt. Þetta tekst þeim í góðri samvinnu við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, sem þó er Hafnfirðingur en skeytir heldur engu varðandi mótbárur hinna öldruðu, þó á sé bent. Færibandavinnsla hans í lögfræðilegum álitaefnum á ekkert skylt við vandaða lögfræði þar sem jafn mikil virðing er borin fyrir réttarstöðu gerðarþola og gerðarbeiðanda. Þetta eru í raun vinnubrögð sem eiga heima á borði umboðsmanns Alþingis.
Þetta er ömurleg þróun og ég spyr mig af hverju í ósköpunum þessi mál eru ekki í höndum lögmanns bæjarins í samstarfi við bæjarstjóra og bæjarráð. Af hverju eru svona mál ekki í forgangi, á forræði og á málaskrá innsta kjarna bæjarstjórnar bæjarins? Af hverju er þeim úthýst til innheimtufyrirtækja, sem að lokum hafa aðeins eitt markmið, að hagnast á óförum annarra án nokkurs tillits til af hverju þær kunna að vera? Ég þekki mál þar sem gengið var svo hart að aldraðri dömu vegna vanskila að að lokum endaði 60. þús. króna höfuðstóll í hundruðum þúsunda, sem átti að innheimta með nauðungarsölu. Daman hafði verið fyrir löngu greind með elliglöp og yfirsást að greiða á réttum gjalddaga.
Þetta vill Rósa Guðbjartsdóttir leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, sem brosandi og vel til höfð skrifaði undir samning við innheimtufyrirtæki svo fjárstreymið í bæjarsjóð, þ. á m. laun hennar, væri nú tryggt! Samt er bæjarsjóður í bullandi halla eins og rökstutt hefur verið í þessari kosningabaráttu.
Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalista í Reykjavík og frambjóðandi fyrir flokkinn í höfuðborginni vakti athygli á áþekku vandamáli að hennar mati í Reykjavík. Í Hafnarfirði, hvar bæjargjaldkeri hafði áður sambandi við þegna bæjarins í þrengingum, er nú engin miskunn sýnd. Skiptir þar engu þó bæjarbúar séu komnir á háan aldur, hafi misst heilsu o.fl. sem kann að hafa leitt til vanskila. Grimmustu innheimtuaðferðum sem lög heimila er engu að síðar beitt á þá og dæmi eru um það eins og ég hef getið.
Þessu þarf að breyta og það tafarlaust. Ég treysti engum betur en Guðmundi til þess að nota strokleðrið á þennan innheimtusamning.
Hinir öldruðu og aðstandendur
Nú fjasar Bjarni Benediktsson, foringi Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra, um að það eigi að koma til móts við þá tekjulægstu. Óvinsældir íhaldsins hafa aldrei verið meiri, flokkurinn er að hrynja í höfuðborginni og á landsvísu og því þarf að hann að búa til nýja sóknarleið með þeim blekkingartækjum, sem tæk eru til að gabba kjósendur.
Tökum dæmi um það hvernig viðhorfið er á þeim bæ gagnvart öldruðum og aðstandendum þeirra, þá skoðun hlýtur nefnilega íhaldið í Hafnarfirði að styðja. Aldraður einstaklingur, sem getur verið heima hjá sér þrátt fyrir að vera sjúkur og er svo heppinn að búa á sama lögheimili og niðjar sem annast hann, á rétt á því að niðjar hans hljóti umönnunarbætur fyrir að sinna honum 24/7, svo fremi sem ættinginn hefur enga aðra vinnu. Fyrir þetta framlag greiðir ríkissjóður undir forystu leiðtoga Rósu Guðbjartsdóttur og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra viðkomandi rúmar 137 þúsund krónur á mánuði. Á sama tíma er talið að legupláss á spítala kosti vel yfir hundrað þúsund kall á dag og eitthvað minna á hjúkrunarheimili. Þessi framkoma við aðstandendur er ótæk og væri brýnt fyrir komandi bæjarstjórn að skoða hvort ekki sé svigrúm fyrir bæjarsjóð til að hlaupa þarna undir bagga.
St. Jósefsspítali
Þó ég hafi farið fögrum orðum um leiðtoga Samfylkingarinnar og Miðflokksins hér á undan er ég þó ósammála þeim um eitt og það er um ráðstöfun St. Jósefsspítala í núverandi mynd. Sú ráðstöfun er þvert á vilja systranna þá er þær seldu spítalann og þvert á þau markmið, sem ýmsir sem börðust fyrir að sjúkrahússtarfsemi yrði tekin þar upp aftur – markmið, sem Hollvinasamtökin tóku undir þegar spítalinn hafði verið lokaður í langan tíma.
Gríðarleg þörf er fyrir legurými. Bærinn var samkvæmt upplýsingum frá bæjarfulltrúa Miðflokksins neyddur til að lúta ákveðnum skilmálum við sölu hans. Gerði hann það ekki hefði söluverð hans verið miklu hærra og gert Hafnfirðingum miklu erfiðara fyrir að ná sjúkrahúsinu til baka. Þetta var ekkert annað en kúgun af hálfu íhaldsins í ríkisstjórn. Einkavæðingamarkmið Sjálfstæðisflokksins þvert á vilja St. Jósefssystra um framtíðarnotkun spítalans náði fram. Loforð var brotið.
Um þetta er fullt af heimildum og ég undrast satt best að segja að núverandi frambjóðendur hafi ekki vakið máls á þessu en kjósa þess í stað að lofa nýja starfsemi á umræddum stað. Sú starfsemi er eflaust nauðsynleg og af hinum góða en það er mín skoðun að bærinn hefði átt að beita sér fyrir hýsingu á henni annars staðar af prinsipp ástæðum, virðingu við systurnar og öskrandi kalli á legurými í öllu þjóðfélaginu. Það staðfesti fréttaskýringaþátturinn Kveikur nýlega. Sjúkum er bókstaflega mokað út af sjúkrahúsum fyrir ennþá veikari. Af því hef ég sem aðstandandi nýlega reynslu. Ógeðslegt ástand er eina orðið. Af hverju er lok lok og læs fyrir þetta, sem áður þótti sjálfsagt varðandi St. Jósefsspítala en er nú allt í einu ekki lengur til umræðu?
Væri ekki rétt að steypa nýjan stað fyrir núverandi starfsemi og hýsa af myndarskap. Kranarnir segja allir að séu út um allt. Réttast væri, að mínu mati, að kalla eftir því við St. Jósefsregluna að hún yfirtæki að nýju starfsemi sjúkrahúss á Suðurgötunni og bær/ríki styddi hana við það, væri það kostur. Nálægð kristilegrar starfsemi í Hafnarfirði er óumdeild og þykir Karmelklaustrið löngu orðið ómissandi hluti af hjarta Hafnarfjarðar enda rekið af þvílíkum myndarskap að undrun sætir og eflaust þvert á öll nútíma hagstjórnarfræði ef ég þekki mínar nunnur, kæru nágranna og vini rétt.
Umhverfismál
Í umhverfismálum er lítið aðhafst. Ein mesta náttúruperla bæjarins, Hvaleyrarvatn og umhverfi þess, er í engu sinnt m.t.t. þess ágangs sem þar er á góðum sumardegi. Á vetrum er dögum saman ófært fyrir flesta vegna þess að snjór er ekki ruddur. Um þetta skrifaði ég í Kjarnagrein skömmu eftir að Guðmundur Árni Stefánsson tilkynnti endurkomu sína og líkti því við að allir þeir túristar sem koma til landsins í dag þyrftu að fara í gegnum gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli – öngþveitið er slíkt. Ekkert hefur verið fjallað um málið af frambjóðendum utan Guðmundar Árna. Vegamálin í kringum vatnið og upp í Kaldársel hafa þó ekki ennþá borið á góma. Þau eru í skralli. Færeyingar eru miklu lengra komnir í sínu nærumhverfi. Búið er, af óskiljanlegum ástæðum, að loka fyrir bílaumferð að Kaldárseli, nema fyrir útvalda. Þá mætti örugglega gefa í í framlagi til Skógræktarinnar, sem er rekin af ástríðu og hugsjón af miklum myndarskap.
Dýravernd
Aðeins einn flokkur, eftir því sem ég best veit í núverandi slag, hefur lagt línurnar í dýravernd í sínu sveitarfélagi, Píratar í Reykjavík. Hafnfirskir Píratar hafa ekki minnst orði á hana. Hvort sem það er tilviljun eður ei þá eru Píratar leiðandi framboðsafl í Reykjavík nú um stundir. Dýravernd í Hafnarfirði er samtvinnuð vernd Lækjarins í Hafnarfirði hvar ömurlegt ástand hefur ríkt í áratugi að því leyti að dýralíf er þar orðið afar fábrotið vegna vargfugla. Sjötta manni á framboðslista Framsóknar í Firðinum, sem gjarnan skreytir sig af því að hafa tekið fuglalíf Lækjarins í sinn faðm, hefur lítið orðið ágengt í þeim efnum við núverandi leiðtoga sinn, sem þó er formaður bæjarráðs – enda er sá líklega of upptekinn núna við þingstörf en hangir samt áfram sem formaður bæjarráðs.
Endurnar sem áður höfðu prýtt Lækinn með ungviði sínu eiga engan séns lengur. Afkvæmin eru étinn af Varginum fyrir framan viðkvæmar sálir barna að ég tali nú ekki um hryllinginn fyrir ungamömmurnar og pabbana. Við skulum ekki vanmeta þær tilfinningar sem eru á köflum miklu næmari hjá dýrunum en okkur. Um þetta hefur verið talað árum saman en engin sýnir þessu mikilvæga viðfangsefni áhuga, að koma þar á jafnvægi í lífríki. Það er engin dýraverndarstefna í Hafnarfirði.
Dýraverndarumfjöllunin gæti verið umfangsmeiri hvað varðar Hafnarfjörð en stór hluti Hafnfirðinga hefur kosið að halda gæludýra þ. á m. ketti sem eru orðnir áberandi hluti af mannlífi bæjarins ef svo má að orði komast. Úreltar samþykktir um katta- og hundahald, á mörgum stöðum með ákvæði þvert á lög um velferð dýra og almenn mannréttindi, eru í gildi.
Síðasta frístundafjárbóndanum er búið að útrýma í þágu bíla. Á sama tíma er öllu þessu og sérstaklega búfjáreldi gert hátt undir höfði innan bæjarmarka í Færeyjum og þykir sjálfsagt a.m.k. síðast þegar ég vissi og hægt var að horfa á sauðfé innan girðingar í Þórshöfn.
Sólvangur
Breytingar innanvert í gamla Sólvangi eru nútímalegt hönnunarslys að mínu mati. Ekkert er þar upprunalegt að finna á þeirri hæð sem ég hef heimsótt. Aðkoman er kuldaleg og nútímavædd í skilningi íslensks modernisma, sem ég tel verulega umdeilanlegan og þar þekkir engin sitt gamla öldrunarheimili eins og áður var. Engin viðleitni virðist hafa verið að halda í þann gamla anda og þokka, sem var innanvert andlit Sólvangs á árum áður. Jú, gamli tíminn prýðir nýja Sólvang en þar hafa verið hengdar upp ljósmyndir af 900 hundruð Hafnfirðingum eftir föður minn Árna Gunnlaugsson og fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga í Hafnarfirði undir merkjum Félags óháðra borgara. Myndirnar eru úr hinni frægu hafnfirsku bókaröð Fólkið í Firðinum. Hann ásamt leiðtoga Sjálfstæðisflokksins þá Árna Grétari Finnssyni á árunum 1960-80 lagði grunninn að endurnýjaðri velsæld í Hafnarfirði á árunum 1960-80 – grunninn að því sem byggt var á fram að þeirri stöðnun sem hefur verið áberandi síðustu ár.
Máski mættu núverandi frambjóðendur allir líta til þeirra heimilda sem til eru um störf Árnanna! Þær er að finna í bæjarblöðunum Hamar og Borgaranum og í málsgögnum Sjálfstæðisflokksins og Félags óháðra borgara. Það síðarnefnda er hægt að glugga í, innbundið á Bæjar- og héraðsbókasafni Hafnarfjarðar, fyrir framan ráðhúsið.
Tónlistarskóli Hafnarfjarðar – margra mánaða/ára biðtími
„Tónlistin er mitt sálarvítamín,“ sagði einn kunnasti sveitarstjórnarmaður í Hafnarfirði fyrr og síðar, nefnilega Árni Gunnlaugsson faðir minn sem var virkur í karlakórnum Þröstum, þekkt tónskáld og vinsæll forsöngvari í kirkjum bæjarins og á mörgum samkundum í bænum og utan hans auk þess að hafa stofnað kórinn Geðbót í laugunum hvar sá kór einungis söng. Biðtími eftir námi á hljóðfæri og söngnámi í Tónlistarskólanum er fjarstæðukenndur. Sjálfur sótti ég um nám fyrir mörgum mánuðum á slagverk, sem líklega er ekki vinsælasta hljóðfærið, en að mínu mati eitt það merkilegast og grunnurinn að allri tónlist. Engin merki eru um það í dag að mér gefist kostur á slíku námi. Þarna þarf að taka til hendinni hverjar svo sem ástæður kunna að vera fyrir því að svo langan tíma tekur að komast í nám í skólanum. Menn renna bókstaflega sjálfkrafa inn í grunnskólana og Flensborg en þegar kemur að þessu námi þá er einhver flöskuháls sem nauðsynlegt er að útrýma.
Námsflokkarnir
Einu sinni voru starfræktir í Hafnarfirði svokallaðir Námsflokkar. Þar var hægt að sækja ýmiskonar gagnleg námskeið sem lutu t.d. að ýmsu sem varðaði heimilishald (líkt og hinn stórmerkilegi Húsmæðraskóli kennir) tungumál, ljósmyndun og grunnatriði hljóðfærakennslu o.m.fl. Afbragðs námsflokkar að mínu mati. Horfið. Á heimasíðu Námsflokkanna stendur nú: „Ekkert námskeið tilbúið fyrir bókun að svo stöddu.“ Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt nú þegar sumarið er að detta inn og marga langar t.d. á garðyrkjunámskeið eða eitthvað ferðalagatengt.
Farnir frístundafjárbændur
Síðustu frístundafjárbændurnir hafa verið reknir með iðju sína og henni fórnað fyrir hringtorg. Það virðist ekki þykja nógu fínt lengur að leyfa kindur í Hafnarfirði. Menn dirfast ekki að snerta hestamennskuna sem betur fer. Sú var tíðin að margir fylgdust af miklum áhuga með einum merkasta Hafnfirðingi fyrr og síðar, oftast kallaður Ingi sótari, ganga kvölds og morgna til fjár síns fyrir ofan kirkjugarðinn frá heimili sínu neðst á Selvogsgötunni. Þetta auðgaði mannlífið. Hundruð Hafnfirðinga gerðu sér far um að fylgjast með sauðburði hjá honum. Færeyingar halda í svona hefðir enda má halda því fram með nokkuð góðum rökum að þeir séu okkur fremri í ýmiskonar menningu. Sjálfur ólst ég upp við að heimsækja afa minn og hann Markús gamla en þeir voru báðir með sauðfjárbúskap innan bæjarmarkanna og þóttu ómissandi.
Það er hellingur af öðrum verkefnum í Hafnarfirði sem til þessa hefur ekki verið drepið á af neinum frambjóðanda og gerði Hafnarfjörð einstakan hér á árum áður en ég sleppi frekari upptalningu og bíður hún síðari tíma.
Höfundur er áhugamaður um bætt lífsgæði í Hafnarfirði og lögfræðingur.