Nú er komin upp sú leiða staða að stýrivextir eru að hækka hratt eftir að samið var um miklar launahækkanir á vinnumarkaði, langt umfram það sem framleiðni í hagkerfinu bendir til þess að sé hægt að mati Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Hún sér verðbólgu í kortunum og bregst við með vaxtahækkun til að slá á eftirspurn. Stýrivextir orðnir 5,5 prósent, en verðbólgan mælist 1,9 prósent, töluvert undir 2,5 prósent markmiði seðlabankans samkvæmt lögum.
Gengið mótist af raunhagkerfinu
Það verður að segjast eins og er, að það er svolítið óhugnanleg staða sem nú er komin upp í hagkerfinu. Kynnt hefur verið áætlun um afnám eða losun fjármagnshafta, sem virkar trúverðug og hefur verið almennt vel tekið, hér á landi og erlendis. Eitt af grundvallaratriðum þeirrar áætlunar, að því er fram kom í máli Sigurðar Hannessonar, stærðfræðings, er að gengi krónunnar verði látið myndast af gangi mála í raunhagkerfinu, þegar helstu losunaraðgerðir hafa verið framkvæmdar.
Spurningin sem vaknar hjá mér er hvort þetta verði raunin, eða hvort Seðlabanki Íslands muni nýta sjóði sína (almennings) óspart í að halda genginu á þeim stað þar sem hann telur skynsamlegast og best að hafa það.
Miðað við það að nýrri stoð hefur nú verið rennt undir gjaldeyrisinnflæði í raunhagkerfið frá því fyrir höft, með ferðaþjónustunni, þá virðist blasa við að gengi krónunnar ætti að styrkjast verulega frá því sem það er nú, það er ef gengið mun ekkert veikjast í losunaraðgerðunum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur verið skýr og afdráttarlaus þegar hann tjáir sig um það, hvort gengi krónunnar muni veikjast, og sagt að það verði einfaldlega ekki látið gerast.
Mörg sjónarmið
Nú er síðan Ásgeir Jónsson hagfræðingur búinn að segja að ein helsta hættan sem hagkerfið standi frammi fyrir, sé of mikil styrking krónunnar á næstunni. Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur segir síðan í dag, að seðlabankinn sé markvisst að halda lífskjörum almennings niðri með því að halda genginu veiku, evrunni í kringum 150 krónur (er 146 í dag). Þetta sé óþolandi þjónkun við erlenda spákaupmenn, betra væri að leyfa genginu að styrkjast.
Þessu samhliða hefur svo verið athyglisvert að fylgjast með málefnalegri ritdeilu hagfræðinganna Ólafs Margeirssonar og Ásgeirs Daníelssonar, en sá fyrrnefndi heldur því fram, með nokkuð ítarlegum rökum, að vaxtastefna Seðlabankans virki ekki og vaxtahækkun búi til verðbólgu, á meðan Ásgeir, sem er einn af helstu sérfræðingum seðlabankans, heldur hinu gagnstæða fram, einnig með ítarlegum rökum.
Hagfræðingarnir eru margir og skoðanir þeirra á því hvert efnahagsmálin eru að fara jafnvel enn fleiri. Ómögulegt er að fylgja þeirra spádómum eða vegvísi, virðist vera. Þeir tala út og suður. En hvað er þá að fara gerast?
Veðmál
Vonandi gera stjórnmálamenn og Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sér grein fyrir því að allt hagkerfið er undir í komandi skrefum, og almannahagsmunir þar með. Verðhjöðnun er ekki góð fyrir launafólk sem er með vísitölutengd laun, svo dæmi sé tekið, og allir þekkja afleiðingar of mikillar verðbólgu. Það hefur verið hinn íslenski veruleiki svo lengi sem elstu menn muna.
Hvað leynist bak við haftatjöldin, þegar þau verð dregin frá, er nú orðið að mikilvægu veðmáli hjá almenningi og fyrirtækjum og leiðsögn hagfræðinga er um það bil það óljósasta sem hægt er að taka mið af.