Í janúar 2004 fundu íslenskir sprengjusérfræðingar vopn í Írak sem margt þótti benda til að innihéldu sinnepsgas. Halldór Ásgrímsson, sem þá var utanríkisráðherra Íslands og stóð í ströngu vegna stuðnings við innrás bandamanna í Írak, þótti nokkuð brattur strax í kjölfarið þegar hann sagði við Morgunblaðið: „Ég tel að hér sé um að ræða heimsatburð“ og vísaði þar í að þetta væri í fyrsta sinn sem efnavopn hefðu fundist í Írak síðan að ráðist var inn í landið. Því var fljótlega hafnað af Bandaríkjamönnum og Halldór var hafður af háði og spotti fyrir þessi digurbarklegu ummæli.
Kastljós greindi frá því í gær að samkvæmt nýjum upplýsingum sem blaðamenn The New York Times hafa komist yfir þá hafi vopnin sem Íslendingarnir fundu líklega innihaldið sinnepsgas. Það tók Halldór, sem hefur verið mjög lítið sýnilegur í íslenskum fjölmiðlum eftir að hann hætti í stjórnmálum, innan við sólarhring að mæta í viðtal hjá RÚV og segja að hann hafi ekki getað látið sér detta það í hug á þeim tíma að Bandaríkjamenn hefðu logið til um innihald vopnanna. „Þetta er auðvitað ekkert annað en blekking ef þetta reynist satt og það er nauðsynlegt að Bandaríkjamenn geri grein fyrir sínum dyrum,“ sagði Halldór.
Halldór hefur því loks náð vopnum sínum í þessari sinnepsgas-umræðu og gæti fengið uppreista æru eftir allt háðið.