Haltur leiðir blindan: Svona eyðileggur maður skólakerfi

Ragnar Þór Pétursson
10054123454-c2aeab2ed4-o-1.jpg
Auglýsing

Opinberir starfsmenn hafa í raun ekki haft neinn verkfallsrétt í rúman áratug. Ef verkföllin svíða er verkfallsfólki heilsað að sjómannasið af ríkinu. Aðferðin er þessi: Verkfall er látið standa í nokkrar vikur með tilheyrandi sársauka (sem er yfirleitt meiri fyrir þá sem eru í verkfallinu en þá sem því er beint gegn). Síðan eru sett lög. Einhverju apparati er falið að ákveða launin en það skilyrt við að það ógni ekki „stöðugleika“. Það eina sem hið opinbera óttast eru hópuppsagnir – en það er samt nógu vitlaust til að tortíma frekar heilu kerfunum með því að láta þeim blæða hægt og rólega út en að reyna af einhverju viti að laga þau.

Það er kannski vegna þess að yfirleitt eru við völd aðilar sem beinlínis hafa það á stefnuskránni að tortíma kerfum. Kerfi hafa nefnilega þann leiða kost að ef þeim er leyft að deyja skapar það mikla möguleika á að græða peninga í rústunum.

Nú er búið að setja lög á hjúkrunarfræðinga. Samskonar lög voru sett á kennara árið 2004. Það tók áratug fyrir kennara að þora aftur í átök. Og jafnvel þá vissu flestir að alvöru vesen hefði endað með lagasetningu. Þess vegna var baráttan bæði huglaus og á endanum verri en engin.

Tuttugustu aldar Neró með eldspýtustokk


Eftir að hafa skoðað sögu íslenskra menntamála hef ég komist að þeirri niðurstöðu að íslenskir menntamálaráðherrar hafa óvenju oft verið ansi slappir. Sá sem nú situr er þó líklega einn sá slappasti. Hann er fyrirsjáanlegur, einfaldur og afskaplega mistækur. Það hlýtur að vera pína að starfa í menntamálaráðuneytinu um þessar stundir og þurfa að framfylgja þeim fábjánalegu skipunum sem nú enduróma um allt skólakerfið.

Auglýsing

Svo lúffar hann bara þegar einhver slær nógu kröftuglega á móti. Eins og gungan sem hann augljóslega er.

Núverandi menntamálaráðherra kom ekki inn í ráðuneytið vegna ástar sinnar á menntun. Þvert á móti var drifkraftur hans stækur ímugustur á öllu sem menntun stendur fyrir. Hann kom inn í málaflokkinn til að „hreinsa til“. Brjóta á bak aftur kerfi sem hann trúir að sé ónýtt. Bramla og eyðileggja til að hægt sé að byggja upp framtíðarríkið. Menntamálaráðherrann er í raun ekkert annað en tuttugustu aldar Neró með stóran eldspýtustokk. Aðferðin er sáraeinföld: Að ráðast á allt sem hreyfist og drepa síðan það sem grípur ekki til varna. Hann hefur ítrekað farið á svig við lög og reglur í ofsafenginni „framsókn“ sinni. Svo lúffar hann bara þegar einhver slær nógu kröftuglega á móti. Eins og gungan sem hann augljóslega er.

Í viðleitni sinni til að sannfæra fólk um að hann sé krossfari með góðan málstað hefur hann komið þeirri ranghugmynd á flot að skólakerfið sé alls ekki að standa sig. Fjöldi fólks sé ólæs eftir skólagönguna. Við séum ömurleg í Pisa.

Mýtan um ólæsu nemendurna


Við komum illa út úr Pisa síðast. Það er alveg rétt. Við vorum í 36. sæti í lestri (af 65). En þar á undan vorum við í 16. sæti og þar áður í því 24. Þar áður í 20. og því 13. á undan því (en þá voru þjóðirnar mun færri). Ýmislegt veldur því að við hoppum upp og niður skalann. Það hefur til dæmis haft slæm áhrif á læsi upp á síðkastið ef Sjálfstæðisflokkurinn er við völd. Á þenslusvæðum (á Höfuðborgarsvæðinu og Reyðarfirði) lækkuðu nemendur t.d. mjög skarpt á bólutímanum fyrir hrun. Á fátækari svæðum bættu menn sig á sama tíma. Hrunið hafði góð áhrif á læsið. Svo féll það aftur þegar fólk fór að geta grillað og græða á nýjan leik. Pisagengið flöktir eins og þjóðarsálin.

Hvernig væri til dæmis að skoða alvarlega þá hugmynd að Ísland sé kannski bara á eðlilegu róli miðað við þær sveiflur sem hér hafa verið og það menntakerfi sem hér er byggt upp?

Ein slæm mæling segir ekkert um að kerfi sé ónýtt. Og það þarf einstakan skort á þekkingu á menntamálum til að álykta sem svo að mælingar sem líta svona út gefi tilefni til örvæntingar.

Og jafnvel þótt við sammælumst um að það megi efla læsi – þá myndi enginn hugsandi menntafrömuður vaða í það af sama kappi og ráðherrann að reyna að feika'ða fyrir útlensku prófin. Þeir sem hafa reynt slíkt (og þeir eru nokkrir) enda allir með buxurnar á hælunum fyrr eða seinna.

Hvernig væri til dæmis að skoða alvarlega þá hugmynd að Ísland sé kannski bara á eðlilegu róli miðað við þær sveiflur sem hér hafa verið og það menntakerfi sem hér er byggt upp? Og hvernig væri að velta því fyrir sér hvaða þættir það eru sem hafa eflst á sama tíma og aðrir hafa dalað?

Allir eru að horfa annað


Allir menntamálaráðherrar heims, nema einn, horfa þessi misserin til framtíðar. Evrópa hefur fyrir löngu tapað sérstöðu sinni og sér fram á að 21. öldin verði afar erfið. Efnahagslíf næstu áratuga lýtur öðrum lögmálum en efnahagslíf þeirra síðustu. Næstu áratugir snúast um frumlegar lausnir, samvinnu og færni í hinum sammannlega, stafræna heimi.

En það er kannski ekki von að menn séu ekki mikið að pæla í efnahagslögmálum.

Allir horfa nú fram á veginn. Allir. Nema okkar menntamálaráðherra. Hann hamast við að klæða litlu, gulu hænuna í stafrænan búning.

Sumir eiga erfitt með að sjá út fyrir hið bæklaða efnahagskerfi sem við líði er á Íslandi þar sem þjónar valdsins hika ekki við að láta vildarvini sína bjarga sér frá vondum fjárfestingum og óráðsíu til að launa þeim greiðann seinna með því að beita skörungnum í þeirra þágu í eldstæðum almennings. Og þar sem sömu manngerðir beita löggjafarvaldinu ítrekað til að tryggja að hvorki hið opinbera né bestu vinir þeirra lendi í of miklu basli með launakröfur.

Allir horfa nú fram á veginn. Allir. Nema okkar menntamálaráðherra. Hann hamast við að klæða litlu, gulu hænuna í stafrænan búning. Þegar læsi rokkar upp aftur mun hann hreykja sér óskaplega og klappa fyrir sjálfum sér. Eins og ég ímynda mér að hljómsveitin á Titanic hafi þurft að gera eftir lokalagið þegar allir aðrir voru annað hvort farnir eða deyjandi.

Stefnulaus fortíðarþrá


Engin opinber stefna er á Íslandi um framtíðarhæfni þjóðarinnar. Engar skipulagðar mælingar fara fram á skólaþróun. Öll áherslan er á hefðbundnum, gamaldags þáttum vegna þess að menntayfirvöldunum er stjórnað af nærsýnu fólki sem þolir ekki menntakerfið.

Ef ekki verður gripið til aðgerða strax verður aukið læsi til þess eins að auðvelda fólki að útfylla landvistarleyfi í öðrum löndum.

Ef ekki verður gripið til aðgerða strax verður aukið læsi til þess eins að auðvelda fólki að útfylla landvistarleyfi í öðrum löndum.  Nema auðvitað yfirvöld nái í tæka tíð að segja sig frá öllu samstarfi sem auðveldar fólki að komast burt. Það væri svosem eftir öðru.

Mér er menntakerfið sérstaklega hugleikið. En við sjáum þetta líka í öðrum kerfum. Hið ömurlega er að síðustu tíu ár eða svo hafa nær allar stórar ákvarðanir um menntakerfið verið vondar. Búið er að þefa uppi hverja einustu gildru sem hægt er að falla í og stökkva í hana. Vandinn er ekki bara núverandi menntamálaráðherra. Hann er miklu dýpri.

Innantóm kennaraforysta og bráður vandi


Á meðan sveitarfélögin hótuðu kennurum ítrekað leynt og ljóst stóð forystusveit kennara skælbrosandi eins og lúbarin sjómannskona sem veifar brosandi bless af hafnarbakkanum.

Forysta kennara er annar vandi. Hún ætti í raun að reka auglýsingastofu en ekki kennarasamband. Á meðan sveitarfélögin hótuðu kennurum ítrekað leynt og ljóst stóð forystusveit kennara skælbrosandi eins og lúbarin sjómannskona sem veifar brosandi bless af hafnarbakkanum. Mantran var að þrátt fyrir allt væri viðsemjandinn ógisslega næs gæi sem myndi snúa úr þessum túr rosalega tillitssamur og hlýr.

Afleiðingin var samningur sem varla er kominn til framkvæmda en er þegar farinn að valda svaðalegri þynnku.

Ég hef skrifað um það á hverju ári frá 2008 að minnsta kosti að skólakerfið sé í mikilli hættu. Hættu, sem ristir dýpra en klaufalegt fálm misvitra ráðherra sem vaða um allt á skítugum skónum. Hættu sem er alvarlegri en svo að þar skipti duglaus kennaraforysta öllu. Hættan kemur til af því að skólakerfið er löngu hætt að endurnýja sig.

Ungt fólk fæst ekki lengur til að kenna. Þetta er að gerast á sama tíma og þörfin fyrir endursköpun hefur aldrei verið meiri. Það er einfaldlega glannaleg ákvörðun fyrir unga manneskju að leggja það á sig sem þarf til að verða kennari. Þú munt þurfa að borga með þér.

Laun á Íslandi eru ekki góð. Þau eru kannski ekki eins lág og maður heldur stundum en þau eru samt léleg. Og það er dýrt að búa hérna. Fólk sem væri að byrja að kenna núna hefði valið að fara í starf sem borgaði á milli 80-90 prósent af meðallaunum í landinu. Sannast sagna hefðirðu fengið hærri laun í sjoppu ef þú hefðir sleppt Kennó. Kennarar í öllum löndum sem við berum okkur saman við eru töluvert yfir meðallaunum í sínum löndum.

Sveitarfélögin hafa vitað þetta lengi. Kennaraflotinn er gamall – og úrillur. Það er búið að standa tæpt nokkrum sinnum að fólk einfaldlega gangi út. Það eru ekkert mörg ár síðan illa gekk að manna skóla. Þá fóru menn að gefa frítt í sund. Allskonar fyrir aumingja. Vel til fundið. Sundlaugar hafa löngum höfðað til eldri borgara.

Meðalaldur kennara í íslenskum skólum er í dag 46,2 ár, eða meðal lífslíkur Bandaríkjamanns árið 1904. Þessi tala hefur hækkað um nærri fimm og hálft ár á þessari öld. Ungt fólk var venjulega um 15 prósent af kennarastétt. Nú er sama tala rúmlega 5 prósent.

Öldrun er dýr. Af ýmsum ástæðum var hið opinbera búið að eyðileggja menntakerfið með láglaunastefnunni. Það var farið að kosta fé að geta ekki haldið hér úti skóla sem endurnýjast. Nýju samningarnir snerust um það eitt að láta kerfið duga í örfá ár í viðbót með því að kreista enn meiri kennslu úr gamla fólkinu áður en það hættir og deyr. Nú þarf ekki að gefa frítt í sund eða nota aðra vitleysu til að brúa bilið þegar fólk hættir að sækja um. Það er hægt að láta fólkið sem fyrir er kenna sífellt meira og meira.

Kennaraforystan tók þátt í blekkingarleiknum


Ef kennarar hefðu sleppt því að semja við sveitarfélögin hefði kerfið hrunið af sjálfu sér á örfáum árum. Sveitarfélögin hefðu neyðst til að gera úrbætur. Það er í raun ótrúlegt afrek að sveitarfélögunum hafi tekist að semja – og sannfæra stóran hóp kennara um að samningurinn væri í raun mjög góður.

Við erum sumsé með vonlausan menntamálaráðherra og innantóma kennaraforystu. Kennaraforystu sem er svo slöpp að ráðherrann sér ekki einu sinni ástæðu til að hafa hana með í ráðum lengur.

Þeim hefði aldrei tekist það ef kennaraforystan hefði ekki tekið þátt í blekkingarleiknum. Ítrekað reyndu forystumenn kennara að fela það sem raunverulega var að gerast. Menn gripu jafnvel til þess að halda á lofti hálfsannleik og lygum. Í sirka áratug hefur forysta kennara verið hugfanginn af því að búa til glansmyndir. Og viðbrögðin í dag eru kunnugleg: Að pæla í því í alvöru hvort ekki megi einhvernveginn nota almannatengla og auglýsinga sig fram hjá vandanum.

Við erum sumsé með vonlausan menntamálaráðherra og innantóma kennaraforystu. Kennaraforystu sem er svo slöpp að ráðherrann sér ekki einu sinni ástæðu til að hafa hana með í ráðum lengur. Hún situr á kantinum og þykist vera memm á meðan ráðherrann reynir að bylta menntakerfinu. Jú, og svo er skrifuð ein og ein tuðfréttatilkynning og ef menn eru í miklu stuði er ónærgætnum bloggurum svarað þegar þeir eru of leiðinlegir.

Sem sagt


Drögum þetta saman. Öll skólasamfélög eru að reyna að fóta sig á 21. öldinni. Á Íslandi er það erfitt. Menntamálaráðherrann er naut.

Kennaraforystan er huglaus. Menntakerfið er knúið aftur í tímann vegna þess að áróður fær að vaða uppi án þess að honum sé svarað. Á sama tíma er menntakerfið trénað. Fólk vill ekki verða kennarar. Enda er það fjárhagslega heimskulegt. Sveitarfélögin bregðast við með því að herða vistarbandið á fólkinu sem hvorteðer hefur ekki efni á að hætta vegna eftirlaunanna. Niðurstaðan er sú að þú situr uppi með menntakerfi sem er svo gott sem búið að eyðileggja.

Nema...

Það er ein vídd í þessu sem skiptir verulegu máli.

Í fjóra áratugi hefur verið rekin mannúðleg skólastefna á Íslandi. Það hefur gengið upp og ofan að framfylgja henni en raunin er samt sú að það er mikill samhljómur milli þess sem íslenskt skólafólk hefur verið að reyna að gera síðustu ár og þess sem aðrar þjóðir eru nú að reyna að gera til að búa til 21. aldar borgara.

Ef tæknimálin er tekin út fyrir sviga (þau horfa til betri vegar) er ótalmargt í íslenska menntakerfinu sem hefur einmitt og nákvæmlega verið af því tagi sem aðrar þjóðir eru nú að hugsa um að taka upp. Við erum að búa nemendur býsna vel undir framtíð í óvissum heimi. Og við höfum gert það í dálítinn tíma núna. Íslenskir kennarar eru býsna góðir.

En þeim líður alveg herfilega illa um þessar mundir. Og það mun draga úr krafti skólaþróunar meðan kerfinu er skipað með handafli að uppfylla óra ráðherrans.

​Margir eru farnir að trúa því sjálfir að þeir séu ómögulegir. Það hefur áhrif á sjálfstraustið að vera sagt ítrekað að maður sé vanhæfur. Eitthvað lekur alltaf inn.

Og þeim líður mörgum illa núna þegar þeir átta sig á því að nýir sáttasamningar voru blekkingarleikur allan tímann. Þeim líður eins og fíflum og fyrirverða sig fyrir að hafa látið plata sig.

Ef ekki væri fyrir eftirlaunaökklabandið væru margir kennarar að pakka niður núna. En þeir geta það ekki. Þeir eru þeir einu sem eftir eru. Það á að kreista úr þeim síðustu blóðdropana. Allir aðrir eru farnir annað. Það tók áratug að eyðileggja kerfið og koma því á þennan stað. Það hófst með lagasetningu á verkfall árið 2004 sem átti að tryggja að kerfið kæmist aftur í gang án þess að stöðugleikanum yrði ógnað.

Ég efast um að heilbrigðiskerfið eigi tíu ár eftir.

Höfundur er kennari.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir fyrri hluta þessa árs hafa verið viðburðaríkan.
5,4 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi
Hagnaður bankans jókst umtalsvert á öðrum ársfjórðungi, og í raun á fyrri hluta ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Útlán bankans hafa aukist um 8,2 prósent það sem af er ári vegna umsvifa í húsnæðislánum.
Kjarninn 28. júlí 2021
Benedikt Gíslason er forstjóri Arion banka og segir hann reksturinn ganga mjög vel.
Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi
Bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2021 og arðsemi eigin fjár var 16,3 prósent.
Kjarninn 28. júlí 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Brunar lestin?
Kjarninn 28. júlí 2021
Stór hluti fólksfjölgunar hér á landi er tilkominn vegna fólksflutninga.
Færri Íslendingar flutt af landi brott í faraldri
Samsetning brottfluttra og aðfluttra hefur breyst töluvert í kórónuveirufaraldri. Í fyrra fluttu 506 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því og hefur fjöldinn ekki veirð meiri síðan 1987.
Kjarninn 28. júlí 2021
Fjármálastöðugleikanefnd SÍ
Hafa áhyggjur af þróun á fasteignamarkaði
Þróunin á húsnæðismarkaði var meðal þess sem var rætt á síðasta fundi fjármálastöðugleikanefndar en meirihluti nefndarmanna taldi hana benda til vaxandi ójafnvægis.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit
None