Mikil áróðursherferð er í gangi hjá RÚV, hinum hlutlausa fjölmiðli íslenskra skattborgara, gegn Solveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar, félags láglaunafólks á Íslandi. Henni eru gefnar þær sakir að hafa sagt upp fólki á skrifstofu félagsins, en jafnframt boðið þeim sem þess æskja að sækja um endurráðningu. Ekki fyrir mörgum árum var farið í svipaða aðgerð hjá ríkisstofnuninni RUV, þegar nýr útvarpsstjóri var ráðinn. Hann rak stóran hluta dagskrárfólks og réði vini sína í staðinn. Munurinn var sá að þeim sem reknir voru var ekki boðið upp á endurráðningu. Ennfremur var þeim ekkert til saka fundið. Aðeins duttlungar ungs forstjóra réðu ferð.
Árásir RUV hafa fengið stuðning víða í samfélaginu og margir virðast hafa miklar áhyggjur af þeim fersku vindum sem nú blása um þetta stóra verkalýðsfélag á Íslandi. Meðal þeirra eru verkalýðsforingjar í félögum velmegandi launafólks, þ.m.t. Drífa Snædal, forseti ASÍ. Það er engu líkara en menn óttist að fátækustu launþegarnir og þeir skattpíndustu, ef miðað er við lífskjör, fari að stíga upp á bekk.
Sterkt lýðræðislegt umboð
Munurinn á Solveigu Önnu og frú Snædal er sá að sú fyrrnefnda hefur í tvígang unnið kosningar í félagi sínu með á þriðja þúsund atkvæða og afgerandi meirihluta. Frú Snædal hefur engan slíkan stuðning. Hún er kerfiskona, fulltrúi atvinnumanna í verkalýðsbaráttu, en ekki almennra launþega.
Í síðustu sigurkosningum Solveigar Önnu var meðal annars tekist á um stöðu starfsfólks á skrifstofu félagsins og þá klassísku spurningu í verkalýðsbaráttunni hvort félagið eigi að snúast um starfsfólkið á skrifstofunni eða almenna félagsmenn úti í atvinnulífinu. Einn mótframbjóðanda Solveigar Önnu studdi fyrrgreinda sjónarmiðið og fékk nánast ekkert fylgi í kosningunum.
Baráttutæki alþýðufólks
Verkalýðsfélag eins og Efling er hvorki ríkisstofnun né gróðafyrirtæki heldur baráttutæki alþýðufólks. Starfsfólk á skrifstofu sem ekki getur stutt lýðræðislega kjörna félagsstjórn í þeirri baráttu á þar ekki heima. Frú Snædal hefur nú gengið fram fyrir skjöldu til að berjast fyrir kerfisfólk gegn almennu félagsfólki. Það er áhættusamur leikur fyrir forseta ASÍ. Það er einnig hættulegt fyrir RÚV að leggjast gegn láglaunafólki í landinu og virða ekki niðurstöðu í lýðræðislegum kosningum. Hinir pólitísku vindar geta breyst hratt og vel er hugsanlegt að nýr forstjóri komi til RÚV og kjósi að reka starfsfólk með hópuppsögnum samkvæmt þeirri hefð sem nú þegar hefur skapast hjá stofnuninni.
Höfundur er tónskáld og lögfræðingur.