Hamfarakynslóðin

Eggert Gunnarsson, fæddur 1966, fer yfir það sem fólk af hans kynslóð hefur upplifað á lífsleiðinni til þessa og veltir fyrir sér framtíðinni.

Auglýsing

Kynslóðir og kynslóðabil eru hugtök sem mér hefur þótt erfitt að ná utan um. Þar sem ég er stöðugt að velta hinu og þessu í veröldinni fyrir mér er tilgangur þessarar greinar að skoða hvað það þýðir að tilheyra ákveðinni kynslóð og hvað það hefur haft í för með sér að tilheyra minni. Ég er fæddur 1966 og vel því að skilgreina kynslóð mína sem þau sem fæddust á árabilinu 1955 til 1975. Þetta tuttugu ára skeið er nokkuð fjörugt og það tímabil sem við höfum lifað fram til dagsins í dag er áhugavert fyrir margar sakir. Fyrstu einstaklingarnir sem ég kýs að telja að tilheyri Hamfarakynslóðinni komu í heiminn rúmum 10 árum eftir að Íslendingar stofnuðu lýðveldi. Danir voru að vonum ekki kátir með tímasetningu ákvörðunarinnar sem byggði á sambandslagasamningi ríkjanna frá árinu 1918. Hann var uppsegjanlegur af beggja hálfu 25 árum síðar. Danir voru enn undir járnhæl þriðja ríkisins þann 17. júní 1944.

Hver erum við?

Við erum kynslóðin sem upplifði ógnir í stærra veldi en nokkurn tíma hafði þekkst í sögu mannsins. Við óttuðumst kjarnorkustríð sem ógnaði tilvist mannkyns og lífríki jarðar. Heimurinn var á heljarþröm. Bandaríkin og bandalagsríki þeirra háðu það sem kallað var kalt stríð við Sovétríkin og þeirra fylgjendur. Árum og áratugum saman ríkti óvissa um hvað kynni að gerast næsta dag. Fáir vissu hvað raunverulega var að gerast á þessum árum. En í dag hefur margt sem áður var hulið komið í ljós.

Auðvitað upplifði þessi kynslóð margt annað og ýmislegt jákvætt og gott. Bylting varð í tónlist, kvikmyndum og ljósvakamiðlum. Tækniframfarir sem engan óraði litu dagsins ljós. Heimilistæki sem auðvelda lífið urðu almannaeign á vesturlöndum og jafnvel víðar, tölvur urðu hvers mann eign og internetið breytti öllu okkar lífi. Ungt fólk fann sína rödd sem aldrei fyrr. Heilbrigði og langlífi óx, að minnsta kosti á vesturlöndum og jafnvel víðar.

Hér verður stiklað á stóru á ýmsu því sem átti sér stað á þeim árum sem Hamfarakynslóðin hefur verið til, á hvílíkum bláþræði kynslóðin hékk og hangir að mörgu leyti ennþá.

Örstutt forsaga

Seinni heimstyrjöldinni lauk 1945. Eldri stórveldi Evrópu stóðu á brauðfótum eftir hildarleikinn mikla og veröldin skiptist skyndilega í tvennt milli ríkjanna sem áður höfðu barist við sameiginlega óvini, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Gríðarlegar andstæður á hugmyndafræði og stjórnarformi hinna nýju stórvelda hlutu að kalla á gerbreyttan heim. Kalda stríðið sem geisaði milli hugmyndafræði kapítalisma og kommúnisma varð fljótlega í algleymingi. Seinna kom í ljós að gríðarlegar brotalamir voru á framkvæmd kommúnismans og milljónir Sovétmanna voru líflátnir í miskunnarlausum „hreinsunum” valdhafanna á árunum 1936 til 1938, hungursneyðir felldu aðra og frelsi og mannréttindi voru fótum troðin. Þetta átti einnig við eftir að síðari heimsstyrjöld lauk, bæði í Sovétríkjunum sjálfum og í fylgispökum ríkjum þeirra. Kínverjar, undir stjórn Maó formanns, fóru svo sannarlega ekki varhluta af hörmungunum sem dundu á þjóðinni í boði kommúnistaflokksins.

Auglýsing

Þessu fylgdi mikið kapphlaup til að hafa á öflugum her að skipa sem hafði það hlutverk að verja og útvíkka það áhrifasvæði sem heimsveldin töldu sig eiga tilkall til. Bandaríkjamenn einir bjuggu í upphafi yfir stríðstólinu ógurlega, kjarnorkusprengjunni. Með tilkomu kjarnorkuvopna hefði það fljótlega getað orðið leikur einn fyrir kjarnorkuveldin að drepa allt kvikt á plánetunni Jörð nokkrum sinnum. Svo öflug eru þessi skelfilegu vopn. Ógnarjafnvægi varð til þess að koma í veg fyrir að allt færi á allra versta veg og að þriðja heimsstyrjöldin brytist út.

Þið munuð öll deyja!

Hér heima tók þetta ógnarjafnvægi snemma að hafa sín áhrif. Nokkrum áratugum eftir að kalda stríðið skall á kyrjaði hljómsveitin Utangarðsmenn með Bubbi Morthens í broddi fylkingar varnaðarorð um endalok heimsins á plötu sinni Geislavirkir. Hún kom út árið 1980 og var unnin í skugga kjarnorkuvopna, kalda stríðsins, óttans við þriðja alheimsstríðið og veru Bandaríkjahers á Miðnesheiði. Mörgum þótti þeir félagar ganga of langt í textasmíðum sínum en þótt þriðja heimsstyrjöldin skylli ekki á má hugsanlega þakka það heppni. Fræðimenn telja að á meðan Hamfarakynslóðin lifði sinn gríðarlega ótta hafi legið við beitingu kjarnorkuvopna í að minnsta kosti sex skipti og líklega oftar. Förum aðeins í saumana á þeim ógnvænlegu tilvikum:

Heimsmynd Kalda stríðsins á æskuárum Hamfarakynslóðarinnar.

Kúbudeilan snérist um það að Sovétríkin höfðu samið við Castro Kúbuforseta um að koma fyrir eldflaugum búnum kjarnavopnum á eyjunni. Bandaríkjastjórn vildi auðvitað ekki sjá að óvinurinn sjálfur væri kominn í bakgarðinn hjá henni. Hann gæti skotið kjarnaflaugum frá Kúbu sem innan nokkurra mínútna gætu gjöreytt heilu borgunum í Bandaríkjunum. Deilan stóð frá árinu 1961 og þar til Sovétríkin undir forystu Nikita Khrushchevs aðalritara Kommúnistaflokksins ákváðu að hætta við allt saman og John F. Kennedy Bandaríkjaforseti gat andað léttar. Sovétmenn höfðu fjarlægt allar flaugar sínar frá Kúbu í nóvember 1962. Bandaríkjamenn og Sovétmenn undirrituðu samning ásamt Bretum í ágúst árið eftir um að hætta kjarnorkuvopnatilraunum. Kennedy forseti var svo myrtur í nóvember sama ár.

Fidel Castro.

Fyrstu ár sjöunda áratugarins lá hinsvegar nokkrum sinnum við að kjarnorkuvopnum yrði beitt. Naprir vindar kalda stríðsins höfðu blásið í nokkur ár og áður en Kúbudeilan hófst varð atvik sem hefði getað komið af stað kjarnorkustyrjöld. Það var þann 24. nóvember 1961 að samskipti rofnuðu milli SAC (Strategic Air Command, þann hluta varnarkerfis Bandaríkjanna sem annaðist kjarnorkuvopnaflugflota og eldflaugar á jörðu niðri) og NORAD (North American Aerospace Defense Command, sem annast eftirlit með lofthelgi Bandaríkjanna og Kanada). Kerfið var sagt svo vel byggt að slík atburðarás var talin óhugsandi og því var dregin sú ályktun að kjarnorkuárás væri hafin. Allt gangverk SAC stöðvanna var sett í gang og B-52 sprengjuvélar voru settar í viðbragðsstöðu. Atburðarásin var hröð og gekk svo langt að vélarnar fóru út á flugbrautir þar sem áhafnir þeirra biðu skipunar um gagnárás. Sem betur fer var sú skipun aldrei gefin þar sem tæknimenn komust að því að bilun hefði orðið í samskiptabúnaði í Coloradoríki í Bandaríkjunum. Þarna munaði aðeins hársbreidd að almannavarnarlúðrarnir væru þeyttir í Reykjavík.

Skammt var stórra högga á milli seinni hluta október 1962 meðan heimsbyggðin hélt niðri í sér andanum og óttaðist útkomu Kúbudeilunnar. Dagarnir voru þrungnir spennu og það er í raun magnað að ekki skyldi fara verr. Þann 25. október gerðist atburður sem hefði getað endað göngu Hamfarakynslóðarinnar og allra annarra hér á jörðu. Að kvöldi dags sá öryggisvörður á herflugvelli í hafnarborginni Duluth í Minnesotaríki skuggalega veru klifra yfir öryggis girðingu. Verðinum brá heldur í brún, skaut á hinn óboðna gest og við það fór viðvörunnar kerfi í gang. Á öðrum herflugvelli fór sams konar kerfi í gang þar sem einhverjir vírar voru ekki rétt lóðaðir saman og sendi orrustuflugmenn úr kojum sínum. Til allrar hamingju var þessi helför stöðvuð áður en hún hófst og þeir í Duluth komust að því að það var aðeins bjarndýr sem hafði farið yfir girðinguna.

Þann 26. október var bandarískri njósnaflugvél flogið yfir norðurhluta Síberíu í Sovétríkjunum. Flugmaðurinn hafði villst af leið vegna þess að hann náði ekki að gera nákvæmar mælingar vegna áhrifa frá norðurljósum. Þegar Sovéther varð vélarinnar var sendi hann orrustuþotur af stað til að skjóta hana niður. Viðbrögð Bandaríkjamanna voru þau að senda F-102A orrustuþotur á loft, búnar kjarnavopnum, til að vernda njósnaflugvélina og fylgja henni til baka inn í bandaríska lofthelgi. Þetta var annað tilvikið sem hefði getað komið kjarnorkustyrjöld af stað. En Sovétmenn hættu eftirför og hættan leið hjá.

Enn hélt sagan áfram og þann 27. október uppgötvaði bandaríski sjóherinn að sovéskur B-59 kafbátur var í felum í Karíbahafinu. Þeir vissu ekki að kafbáturinn, sem hafði misst samband við Moskvu, var hlaðinn kjarnorkuvopnum. Áhöfnin á kafbátnum óttaðist að styrjöld hefði brotist út og gerði allt klárt til að skjóta upp kjarnaflaug. Tveir af þremur yfirmönnum voru þessu samþykkir en sá þriðji, Vasili Arkhipov, neitaði að veita samþykki sitt. Það þurfti samþykki allra þriggja til þess að skjóta flugskeytinu. Vasili Arkhipov fékk vilja sínum framgengt og þetta atvik endaði með því að kafbáturinn kom upp á yfirborðið. Málin leystust og kafbátsmenn héldu heim.

Boeing B-52 sprengjuflugvél

Þetta eru ekki síðustu atvikin sem hefðu getað endað með kjarnorkustyrjöld því þann 21, janúar 1968 kviknaði í bandarískri B-52 flugvél sem var búin kjarnorkuvopnum nálægt Grænlandi. Áhöfnin stökk frá borði og vélin brotlenti skammt frá radarstöð Bandaríkjahers á Grænlandi og sprakk í loft upp. Um leið sprungu sprengjur sem voru tengdar kjarnorkusprengjunum. Þeim sprengjum var ætlað að koma kjarnasamruna af stað. Til allrar hamingju heppnaðist það ekki. Ef það hefði gerst væri líklegt að niðurstaða þeirra sem sáu um eftirlit að Sovétríkin hefðu gert árás og svarað í sömu mynt. Og herrar mínir og frúr, Grænland er ekki svo ýkja langt frá Íslandi. Enn slapp Hamfarakynslóðin með skrekkinn.

Þann 9. nóvember 1979 birtust merki þess að Sovétríkin hefðu skotið flugskeytum í átt að Bandaríkjunum. Öll viðvörunarkerfi fóru af stað og í sex mínútur ríkti upplausn eða þangað til tilkynningar frá gervitunglum og radarstöðvum staðfestu að engar sprengjur væru á leiðinni. Ástæða þessa var bilun í hugbúnaði sem var notaður til æfinga. Æfinga sem áttu að undirbúa þá sem manna eftirlitsstöðvarnar fyrir verstu hugsanlegu aðstæður. Þær sex mínútur sem ástandið varði ríkti mikil geðshræring í stjórnstöðvunum.

Þetta var ekki í síðasta skipti sem Hamfarakynslóðin hefði getað þurrkast út, því að þann 3. júní 1979 birtist talan tveir á skjá sem undir venjulegum kringumstæðum sýndi 0. Það var talan sem allir vildu sjá og þýddi að engar eldflaugar væru á ferð en allt í einu var sem tvær flaugar væru á lofti. Enn og aftur fór allt varnarkerfið í gang en komist var fyrir vandann að því er virtist og ósköpum afstýrt. Allir önduðu léttar í um þrjá daga þegar sama atburðarásin endurtók sig. Aftur fór allt kerfið af stað og heimurinn var á heljarþröm í nokkrar mínútur. Loks eftir ítarlegar rannsóknir fannst bilunin sem reyndist vera í vélbúnaði einnar tölvu.

Stanislav Petrov, undirofursti í sovéska hernum, var einn á næturvakt í stjórnstöð hersins þann 26. september 1983 þegar viðvörunarkerfið gaf merki um að kjarnorkuárás væri hafin með mörgum eldflaugum. Petrov bar að láta yfirmenn sína vita en sem betur fer gerði hann það ekki. Hann ákvað að kanna málið nánar. Um 23 mínútum síðar hafði hann fullvissað sig um að um mistök og ranga viðvörun væri að ræða. Mikil gæfa fyrir mannkynið að sá maður var á vaktinni þessa nótt.

Auglýsing

Það eru hugsanlega fleiri atvik sem hefðu getað endað með kjarnorkustyrjöld og þó að Sovétríkin heyri sögunni til eiga Rússar aragrúa kjarnorkuvopna og sömuleiðis Bandaríkjamenn. Þessi ríki eru fjarri því vinveitt. Indland og Pakistan eru grannríki sem eiga iðulega í erjum og hafa yfir slíkum vopnum að ráða. Evrópuríki sömuleiðis og Ísrael eru stoltir eigendur gjöreyðingarvopna. Kína á sitt kjarnorkuvopnabúr og Íransstjórn hefur verið að vinna að kjarnorkuáætlun um hríð en hefur ekki komið sér upp sprengju, svo vitað sé, enn sem komið er. Íranir hafa ítrekað brotið á kjarnorkusáttmála ríkisins við stórveldin frá árinu 2015 eftir að Bandaríkin drógu sig einhliða út úr samningnum og hófu viðskiptaþvinganir að nýju. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa reynt að koma sér upp þessum skelfilegu vopnum og hafa sprengt kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni en ekki tekist að setja þær í virkar eldflaugar. Ástandið er sem sagt ekki stöðugt og enn er möguleiki á að Hamfarakynslóðin endi vegferð sína hér á jörðu í geislavirkri helför.

Óttinn við kjarnorkustyrjöld var mikill og við munum flest eftir æfingum almannavarna þegar lúðrar voru þeyttir og taktur hljóðmerkjanna sagði til um hverskonar skelfing væri í þann mund að skella á. Allar upplýsingar um merkingu hljóðmerkjanna mátti finna á síðum símaskrárinnar sem kom út árlega.

Kalda stríðinu lauk ekki fyrr en seint á tuttugustu öld með falli Sovétríkjanna. Enn í dag hefur ísinn ekki alveg þiðnað eftir þann fimbulvetur.

Umhverfisvá

Þegar líða tók á áttunda áratuginn kom í ljós að það voru ekki bara kjarnorkuvopn sem gátu grandað Hamfarakynslóðinni. Nýjar ógnir birtust henni við sjóndeildarhringinn. Váleg tíðindi voru boðuð en þó ekki ný sannindi. Vísindamenn áttuðu sig á að alls ekki er snjallt að blanda blýi í bensín.

Það var gert í upphafi til þess að vélar og mótorar slægju mjúklega. Sá sem fyrstur blandaði blýi í bensín hét Thomas Midgley yngri. Hann lifði og dó fyrir tíma Hamfarakynslóðarinnar, hann var fæddur 18. maí 1889 og lést 2. nóvember 1944. Midgley var efnaverkfræðingur að mennt og fann upp blýefnasambandið Tetraethyl. Seinna kom í ljós að þessi blanda var mjög hættuleg fyrir fólk og umhverfið, en svo snemma sem um 1924 dó starfsfólk verksmiðju sem framleiddi efnið hræðilegum dauðdaga.

Ekkert var gert í því og enn hélt sagan áfram og Midgley þróaði einnig klórflúorkolefnisgas (CFC), þekkt sem Freon. Freon var efni sem notað var í kælikerfi og allir ísskápar heimsins innihéldu. Freon var efnið sem eyddi ósonlaginu, varnarskildi jarðarinnar fyrir útfjólubláum, mjög svo skaðlegum, geislum sólarinnar.

Bæði Freon og Tetraethyl blý hafa nú verið bönnuð en það er enn gat á ósonlaginu yfir suðurskautinu. Þó er huggun harmi gegn að ástand þess er að lagast. Hinsvegar getur enginn sagt með vissu hversu margir dóu ótímabærum dauðdaga vegna blýmengunarinnar.

Hamfarakynslóðin tekst nú á við umhverfisvána.

Á áttunda áratugnum lögðu vísindamenn til að farið yrði að skoða það að minnka brennslu á kolum, olíu og gasi. Það sem þeir sáu var að hitastig var tekið að hækka mikið og ástæða þess varað þeirra mati uppsöfnun koltvísýrings í andrúmsloftinu. Kenningar og tilgátur af þessu tagi höfðu heyrst áður en þegar þarna var komið sögu var hægt að færa sönnur á þær. Núna eru flestir á einu máli um það að gróðurhúsaáhrifin eru að setja allt loftlags- og náttúrujafnvægi jarðarinnar úr skorðum, en þegar Hamfarakynslóðin var að slíta barnskónum var þetta sem geimvísindi fyrir fólki.

Náttúruváin varð ein helsta ógnin við mannkynið þegar leið á tuttugustu öld. Nú hækkar hitastig hratt, skógar brenna, ár vaxa í áður óþekktu úrhelli og flæða um stræti og yfir hús, ofurstormar æða yfir byggð ból, jöklar bráðna og svo framvegis. Orð Utangarðsmanna er hugsanlega hægt að heimfæra upp á það ástand sem nú ríkir. Þið munið öll ...

Orkugjafar sem kosta

Auðvitað hefur ganga Hamfarakynslóðarinnar líka verið til góðs. Hún hefur pælt í því að laga það sem miður hefur farið en árangurinn er takmarkaður að því er best fæst séð. Tækninni hefur fleygt fram og nú er svo komið að við sitjum með tölvur í kjöltum og berum með okkur farsíma sem eru jafn öflugir og jafnvel öflugri en ofurtölvur fortíðarinnar voru. Á hverju heimili í velmegandi hluta heimsins eru tæki og tól sem talið er að ekki sé hægt að lifa án.

Öll þurfa þessi tæki orku sem fæst með ýmsum hætti. Auðvitað brennir mannkynið reiðinnar býsnum af olíu, gasi og kolum til að uppfylla orkuþörfina sem hefur síður en svo góð áhrif á stöðu loftslagsmála. Að auki er kjarnorka notuð við orkuframleiðslu. Það eru ekki allir sammála því að nýting kjarnorku sé það rétta í stöðunni. Geislavirkur úrgangur er mikið vandamál því að afgangsefni verður að geyma um hundruð eða þúsundir ára uns það verður hættulaust. Það er áfram geislavirkt og skaðlegt mönnum, dýrum og allri náttúrunni.

Ekkert er fullkomið og það á við um kjarnorkuver jafnt sem annað. Við könnumst öll við nöfn eftirtalinna kjarnorkuvera. Dagsetningarnar segja til um hræðileg skakkaföll sem þar urðu; Fukushima Daiichi, Fukushima í Japan, 11. mars 2011; Chernobyl í Úkraínu (áður hluti Sovétríkjanna), 26. apríl 1986; Three Mile Island í Middletown Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, 28. mars 1978; Enrico Fermi, Frenchtown Charter Township, Michigan í Bandaríkjunum 5. október 1966 og SL-1, Idaho Falls í Idaho, Bandaríkjunum 3. janúar 1961.

Þetta eru allt kjarnorkuver þar sem bilun hefur orðið eða náttúruhamfarir hafa skapað hættu. Chernobyl og Fukushiima standa okkur næst í tíma og slysin þar höfðu mikil áhrif á skoðun almennings á þessum orkugjafa. Það má velta því fyrir sér hvort annað hefði verið upp á teningnum ef kjarnorkan hefði verið þróuð sem orkugjafi en ekki sem vopn.

Ísland og hamfara kynslóðin

Ísland komst undir verndarvæng Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöld, eða árið 1942. Margt gott gerðist á Íslandi á stríðsárunum þó hörmungarnar í Evrópu séu ólýsanlegar. Mikill uppgangur varð í samfélaginu og efnahagurinn dafnaði. Eftir að styrjöldinni lauk gerðist Ísland aðili að Sameinuðu þjóðunum og eftir miklar deilur innanlands gekk Ísland í Atlantshafsbandalagið NATO þann 10. mars 1949. Eftir 1952 byggðu Bandaríkjamenn herstöð og flugvöll á Miðnesheiði og settu upp radarstöðvar á nokkrum stöðum. Ísland var orðið hlekkur í vörnum Bandaríkjanna og NATO gegn hernaðarviðbúnaði Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins.

Lúðrar almannavarna voru þeyttir reglulega í æfingaskyni sem stöðug áminning til Hamfarakynslóðarinnar um hugsanlega yfirvofandi vá. Svo gaus og Surtsey varð til árið 1963. Á Heimaey hófst gos þann 23. janúar 1973 og því lauk 3. júlí sama ár. Þegar gosið hófst voru eyjarskeggjar fluttir á brott með hraði og sumir snéru ekki aftur. Þeir sem vildu koma aftur brettu upp ermarnar og hreinsunarstarf hófst og íbúar tóku að flytja til baka í ágúst.

Og svo sveiflast efnahagurinn

Frá 1958 til 1976 deildu Íslendingar við Breta og önnur ríki um yfirráð yfir landhelginni. Á þessum tíma var hún færð úr 12 mílum í 200 mílur. Þetta var mjög mikilvægt fyrir Ísland þar sem nú var hægt að stjórna nýtingu auðlindarinnar sem átti að heita sameign Íslendinga. Það átti þó eftir að breytast með tilkomu kvótakerfisins sem virðist hafa fært eignarétt á auðlindinni í hendur örfárra stóreignamanna og fjölskyldna þeirra.

Landhelgin.

Árið 1983 var ár verðbólgunnar. Á síðari hluta ársins 1982 fór verðbólgan úr böndunum og frá janúar 1983 til janúar 1984, mældist hún rúm 70%. Þetta hafði mikil áhrif á efnahag landsins og verð á vörum og þjónustu snarhækkaði. Efnahagur landsins stjórnaðist af sveiflum í sjávarútvegi sem á milli ára voru æði miklar oft og tíðum. Þegar leið á öldina og Hamfarakynslóðin hafði slitið barnsskónum, vænkaðist hagurinn töluvert og með breytingu á reglum um lán og lánastarfsemi komst bankakerfið á flug. Nýfrjálshyggjan varð að nýjum „trúarbrögðum“ hérlendis og enn eru þau það afl sem sem mörgu stjórnar.

Íslenskir bankar virtust vera óskeikulir á fjármálamörkuðum og nýríkir bankamenn í alltof þröngum buxum, laxableikum skyrtum, knolluðum jökkum og támjóum skóm óku um göturnar í rándýrum ökutækjum og ferðuðust á milli heimsálfa í einkaþotum og á snekkjum. En einn góðan veðurdag haustið 2008, eftir nokkuð langan aðdraganda, var ævintýrið úti og það komst upp að innistæðan á bankareikningnum var harla fátækleg og ríkidæmið byggt á blekkingu einni. Nýju fötin keisarans. Hrunið hófst og afleiðingar þess voru hrikalegar og grassera enn.

Hamfarakynslóðin hafði orðið fyrir skakkaföllum áður og séð ýmislegt, en Hrunið kom heldur betur við kauninn á henni. Þarna hafði heimsmyndin skekkst all verulega og Ísland var ekki lengur bestasta land í heimi. Uppbyggingarstarfið hófst og reynt var að greiða til baka það sem greiða þurfti eins fljótt og auðið var. Ríkisútgjöld voru skorin niður og margir áttu um sárt að binda. „Banksterarnir” voru teknir til rannsóknar og sumir þurftu að afplána fangelsisdóma. Eignir í skattaskjólum komu í ljós og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mætti til landsins og hafði eftirlit með aðgerðum. Lán varð að taka til að greiða niður lán og mögur ár gengu í garð þar sem sjálfsálit Íslendinga beið mikla hnekki.

Svo vænkaðist hagurinn aftur. Það má segja að þrjú eldgos hafi komið Íslandi á kort ferðamanna sem flykktust unnvörpum til landsins, sem hjálpaði við endurreisn efnahagsins. Það gaus í Eyjafjallajökli, fyrst á Fimmvörðuhálsi 20. mars 2010 og svo í jöklinum sjálfum 14. apríl sama ár. Það gos hafði mikil áhrif á flugumferð í Evrópu og Ameríku og fréttaveitur fjölluðu mikið um það. Um ári seinna eða 21. maí 2011 gaus svo í Grímsvötnum. Ferðamannastraumurinn var hafinn af fullum þunga. Með ferðamönnunum komu aðrir gestir. Það var kvikmyndagerðarfólk sem notaði íslenska náttúru sem bakgrunn fyrir margskonar sögur.

Eftir Hrunið

Ný stjórnarskrá var rituð og þjóðin samþykkti að hafa drög stjórnlagaráðs til hliðsjónar við endurbætur hinnar gömlu. Stjórnmálamenn eru þó ekki allir á sama máli og almenningur. Það mál hefur verið svæft til að náttúruauðlindir þjóðarinnar verði ekki skilgreindar sem sameign heldur séreign auðmanna. Stjórnarskráin sem tók gildi við lýðveldisstofnunina 1944 átti alltaf að sæta endurskoðun en svo leið tíminn og hver ríkisstjórn á fætur annari lét hjá líða að endurskoða hana. Þó hafa nokkrar breytingar verið gerðar á henni, einkum hvað varðar kjördæmaskipun, fjölda alþingismanna auk þess sem mannréttindakafla var bætt við um miðjan tíunda áratug 20. aldar. Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra lagði fram drög að stjórnarskrá 1983 og fleiri tillögur mætti nefna sem ekki hafa hlotið hljómgrunn.

Hvar er nýja stjórnarskráin?

Og spurt er; hvað á sótsvartur almúginn að gera við slíkt þegar þeir, sem telja sig réttmæta eigendur auðlindanna, maka krókinn og passa að sem fæstir brauðmolar falli af borðinu?

Auðvitað var Hrunið ekki séríslenskt fyrirbrigði. Það byrjaði í Bandaríkjunum þegar fjármálakerfið fór á hliðina vegna þess að bankar höfðu lánað fé og vafðar höfðu verið miklar fléttur til að leyna því að oft voru þeir sem tóku lánin ekki borgunarmenn fyrir þeim. Hitt er svo annað mál að Íslendingar og íslensk stjórnvöld gerðu fátt til að afstýra Hruninu í undanfara þess. Keyptum bara dýrari bíla, voldugri hús og fórum í flottari utanlandsferðir. Við skráðum okkur flest í trúfélag nýfrjálshyggjunnar.

Aftur út í heim

Áður en þetta allt átti sér stað hafði ýmislegt gerst. Bandaríkin töpuðu Víetnamstríðinu en héldu áfram að skipta sér af stjórnmálum út um allan heim. Það gerðu Sovétríkin einnig og þó að ekki væru háðar styrjaldir þar sem stórveldin berðust opinskátt hvort við annað þá var ekki friður í veröld Hamfarakynslóðarinnar. Hungursneyðir voru algengar víða um heim og í miðausturlöndum var ekki friðvænlegt. Ísraelar háðu hið svokallaða Yom Kippur stríð sem er líka nefnt Ramadan stríðið við Sýrland, Egyptaland og bandamenn þeirra í Sínæ eyðimörkinni og á Gólan hæðum frá 6. til 25. október 1973. Átökin ollu mikilli spennu á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna og eftir að vopnahléi hafði verið komið á 25. október var ekki búið að leysa nein deilumál hinna stríðandi fylkinga. OECD, samtök olíuframleiðsluríkja, settu á viðskiptabann á olíu við bandamenn Ísrael. Þetta varð til þess að eldsneytiskortur varð í Bandaríkjunum og víða annars staðar. Sovétríkin háðu sitt vonlausa stríð í Afganistan. Íran og Írak bárust á banaspjótum í nokkur ár og mikil átök voru í Afríku. Suður-Ameríka var ekki friðsöm álfa heldur. Þó að Hamfarakynslóðin okkar Íslendinga hafi ekki orðið vitni að eða þátttakandi í heimsstyrjöld þá hefur enginn friður ríkt.

Stórveldi hrynur

Fundur Ronalds Reagan forseta Bandaríkjanna og Mikhails Gorbachev aðalritara sovéska Kommúnistaflokksins fór fram í Reykjavík 11. og 12. október 1986. Efni fundarins var að ná stjórn á kjarnorkuvopnaeign stórveldanna. Ekki náðist samkomulag á fundinum en þó náðist töluverður árangur og árið eftir skrifuðu stórveldin undir samkomulag. Þegar þarna var komið var stjórnskipulag Sovétríkjanna komið í öngstræti og kostnaðarsamt stríð þeirra í Afganistan hjálpaði ekki til. Gorbachev komst til valda í mars 1985 og reyndi að koma af stað umbótum og opnunar- og endurskoðunarstefnurnar Glasnost og Perstroika litu dagsins ljós.

En það sem hann hafði ætlað sér fór ekki eins og lagt var upp með. Sovétríkin riðuðu til falls og eftirmálinn varð sá, að ríkjasambandið liðaðist í sundur. Veggurinn, sem reistur hafði verið árið 1961 milli Austur- og Vestur Berlínar og hafði verið ein af táknmyndum Járntjaldsins, aðskilnaðar austurs og vesturs, var rifinn niður í nóvember 1989. Sama ár brutu kínversk stjórnvöld uppreisnartilraun á bak aftur. Íbúar ríkjanna sem höfðu tilheyrt áhrifasvæði Sovétríkjanna reyndu að breyta stjórnarfari sínu og koma á lýðræði. Eystrasaltsríkin sem lengi höfðu þráð sjálfstæði brutust undan valdi Sovétríkjanna, Júgóslavía gliðnaði í sundur og á eftir fylgdu blóðug átök. Hraði atburðarásarinnar var mikill og að endingu var Gorbachev settur til hliðar og Boris Yeltsin tók við stjórnartaumunum í austurvegi. Mikið upplausnarástand varð og ekki var auðvelt að sjá hver lokaniðurstaðan yrði. Hættan á átökum var alltaf til staðar og utanríkisstefna George W. Bush, Bandaríkjaforseta var ekki eindregin. Reynt var að haga seglum eftir vindi.

Meiri ósköp í austurlöndum

Árið 1990 réðust Írakar inn í smáríkið Kúvæt og hernámu það. Þeir vildu komast yfir olíulindir ríkisins og voru líka að reyna að finna leið til að sleppa við að greiða skuld sína sem hafði orðið til á meðan á stríðinu við Íran stóð.

Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu innrásina og í janúar 1991 réðist her undir stjórn Bandaríkjanna inn í landið og rak Íraka á flótta. Myndir frá þessum atburðum voru skelfilegar. Sjónvarpsstöðvum var leyft að sýna myndskeið tekin á myndavélar í herþotum sem vörpuðu sprengjum á skotmörk á jörðu niðri. Fréttamenn fylgdu hernum og fréttaflutningurinn var frekar einsleitur. Her Íraks beið mikið afhroð en áður en hann yfirgaf landið var kveikt í um 600 olíulindum og borholum. Saddam Hussein einræðisherra hafði þarna ætlað sér um of, en hann var látinn í friði um nokkurt skeið eftir þetta.

Auglýsing

Enn hélt Hamfarakynslóðin áfram að upplifa sína tíma. Vísindamenn vöruðu enn við að hnattræn hlýnun væri aðkallandi vandamál og að mengun héldi áfram að aukast. Farsímar urðu almannaeign, internetið kom til að vera og heimsmyndin breyttist er tækninni fleygði fram. Kínverski kommúnistaflokkurinn vildi ekki gefa eftir alræðisvald sitt en ákvað að lyfta höftum af frjálsu framtaki. Efnahagur þessa gríðarlega víðfeðma og fjölmenna lands fór á flug. Indland og fleiri ríki nýttu sér óspart tækifærin sem þessi nýja heimsmynd hafði skapað.

Tækniframfarir voru miklar en það urðu einnig eftirtektarverð slys og bakslög. Geimskutlur voru hannaðar og voru miklar vonir bundnar við það framfaraskref að geta notað sama farartækið aftur og aftur til að komast út í geim í stað einnota eldflauga. Þetta gekk þó ekki áfallalaust. Geimskutlan Challenger sprakk í loft upp í flugtaki 1986 og allir sem um borð voru létust. Fjöldi fólks sá ósköpin eiga sér stað í beinni útsendingu sjónvarps. Þetta var mikið áfall fyrir Bandarísku geimferðastofnunina NASA og eins og seinna kom í ljós var þrautargöngunni ekki lokið.

Mikið var rætt um það að er 21. öldin gengi í garð þá færu tölvukerfi heimsins í hnút er 1999 breyttist í 2000. Þær hamfarir sem margir höfðu spáð fyrir um áttu sér þó ekki stað. Þess í stað urðu önnur ósköp til þess að skekja heiminn og Hamfarakynslóðina mína snemma á nýju öldinni.

Þriðjudagur til þrautar

Á ósköp venjulegum þriðjudegi þann 11. september 2001 gerðust skelfilegir atburðir sem áttu eftir að hafa áhrif um allan heim. Fjórum farþega flugvélum var rænt af skæruliðum öfgasamtakanna Al-Qaeda undir stjórn Osama bin Laden frá Saudi-Arabíu. Vélarnar voru á leið til Kaliforníu en þess í stað var American Airlines flugi 11 og United Airlines flugi 175 flogið á turna World Trade Center í New York. Turnarnir hrundu og þúsundir týndu lífi.

Árásin á World Trade Center í New York 11. september 2001.

Þriðju farþegaflugvélinni, American Airlines flugi 77, var flogið frá Dulles flugvellinum í Texas og brotlent á vesturhlið Pentagon, höfuðstöðvum Bandaríkjahers í Virginíu.

Fjórðu vélinni var flogið í átt að höfuðborginni Washington en hún brotlenti nálægt Shanksville í Pennsylvaníu. Líklegt er talið að farþegar vélarinnar hafi náð að yfirbuga flugræningjana og brotlenda þarna til að afstýra frekari hörmungum. Það er ekki vitað fyrir víst en tilgátur eru um það að ætlun hryðjuverkamannanna hafi verið sú að brotlenda vélinni á Hvíta húsinu eða á þinghúsinu sjálfu.

Þetta var að vonum mikið áfall fyrir Bandaríkjastjórn, stuttu eftir þessa atburði féll grunur á Al-Qaeda og var stríði gegn hryðjuverkum ýtt úr vör og heimsveldið réðist inn í Afganistan þaðan sem Sovétmenn urðu að hverfa með skottið á milli lappanna eftir næstum tíu ára stríð nokkru fyrr. En nú átti að ganga á milli bols og höfuðs á Talíbönum sem höfðu engu svarað óskum Bandaríkjamanna að setja Al-Qaeda út í kuldann og framselja Osama bin Laden leiðtoga þeirra. Mörg lönd efldu lagasetningu varðandi baráttu gegn hryðjuverkum. Lagabreytingar snérust iðulega um það að leyniþjónustur og laganna verðir fengu mun frjálsari hendur til eftirlits, njósna og handtöku grunaðra.

Osama bin Laden neitaði sök til að byrja með en 2004 viðurkenndi hann að hafa lagt á ráðin um árásirnar og ástæður hans voru þær að hann vildi ekki sjá bandarískan her í Saudi-Arabíu og mótmæli vegna efnahagsþvingana sem höfðu verið settar á Írak. Hann var hundeltur næstu árin og fannst loks í Pakistan árið 2011 þar sem hann var drepinn í árás sérsveitar bandaríska sjóhersins.

Árásin á Tvíburaturnana hafði gríðarleg áhrif á efnahag New York borgar og veröldin öll upplifði efnahagskreppu í kjölfarið. Mannfallið var mikið og það mesta sem nokkru sinni hefur orðið í hryðjuverkaárás.

Auglýsing

Enn er ástandið í Austurlöndum skelfilegt. Sýrland er í rúst, Ísrael á í stöðugum erjum við nágranna sína og í skjóli stuðnings Bandaríkjamanna og mikilla hernaðar- og efnahagslegra yfirburða hafa þeir framið mörg voðaverkin.

Evrópubúar hafa einnig fengið að kenna á hryðjuverkum. Nú eru tíu ár síðan norskur öfga hægri-maður sprengdi bílasprengju í miðborg Osló og fór þaðan til eyjunnar Úteyjar og skaut þar fjölda ungmenna sem voru að gera sér glaðan dag á vegum Norska Jafnaðarmannaflokksins. Hver man ekki eftir árásinni á skrifstofur skopmyndatímaritsins Charlie Hebdo í París þann 7. janúar 2017, árásinni í Kaupmannahöfn 14. febrúar 2015, árásinni á Bataclan tónlistarhöllina í París 13. nóvember 2015, sprengjuárásir á flugvelli og lestarstöð í Brussel 22. mars 2016 og svo mætti lengi telja.

Hryðjuverkaógnin er enn til staðar og á meðan ekki ríkir friður eru borgarar taldir vera réttmæt skotmörk öfgamanna af öllu tagi. Hatursorðræða gegn ýmsum hópum í okkar nærumhverfi er að aukast og með tilkomu netsins og samfélagsmiðlanna er það orðinn leikur einn að senda vafasöm skilaboð sem sjást í vöfrum milljóna.

Og hvað svo?

Hamfarakynslóðin er nú komin vel á legg og við erum nú á bilinu 46 til 66 ára að aldri. Enn eru þónokkur ár þangað til að þau sem tilheyra henni hverfa öll yfir móðuna miklu. Það verður að segjast að þessi kynslóð lifði og lifir gríðarlega umbrotatíma. COVID-19 heimsfaraldurinn skall á um og eftir áramótin 2019-2020. Nýjustu tölur um andlát af völdum hans eru fjórar milljónir manna. Þetta eru mjög óáreiðanlegar tölur þar sem mörg lönd geta ekki metið hve margir hafa dáið vegna þessa skelfilega sjúkdóms.

Enn er ekki ró í heiminum og það má segja að Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti hafi sett allt á annan endann. Hann trúir því enn að Joe Biden, núverandi forseti, hafi ekki sigrað í kosningunum í nóvember 2020 á löglegan hátt. Hér verður látið kjurt liggja að ræða það en heimurinn getur andað ögn léttar nú þegar Trump er horfinn af sjónarsviðinu í bili að minnsta kosti.

Það er þó ekki svo að Hamfarakynslóðin geti sest róleg í helgan stein. Langt í frá. Uppgjör Bandaríkjanna, Rússlands og Kína á eftir að eiga sér stað. Nú ríkir einskonar millibilsástand en slíkt ástand er alltaf hættulegt, vel er hugsanlegt að allt fari í bál og brand og að þriðja heimstyrjöldin skelli á.

Ógnin vegna loftslagsbreytinga og gríðarlegrar mengunar varir enn. Mannkyninu fjölgar gríðarlega og þó að mikil hagsæld virðist ríkja víða, þá eru þeir sem ekki eiga neitt og geta litla björg sér veitt óhugnanlega stór hluti mannkyns. Það er augljóst að stefnubreyting þarf að verða og sú breyting þarf að eiga sér stað á heimsvísu.

Milljarðamæringar keppast nú við að komast út í geim. Það er í fínu lagi í sjálfu sér en spurningin er hvort þetta er á nokkurn hátt nauðsynlegt og hvort að réttlætanlegt sé að örfáir eigi megnið af auðæfum heimsins. Ég vil í það minnsta vekja athygli á þessu og vona að vitræn umræða skapist um það sem að okkur öllum snýr.

Megi Hamfarakynslóðin lifa lengi og við batnandi aðstæður. Og vonandi tekst henni að skila af sér betri heimi til afkomandanna en hún tók við. Enn virðist tími til að laga það sem þarf nauðsynlega að laga. Það er einfaldlega lífsspursmál fyrir okkur öll.

Höfundur er kennari/kvikmyndargerðarmaður

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar