Í næstu viku fara fram kosningar til Stúdentaráðs. Stúdentum Háskóla Íslands gefst þá tækifæri til að kjósa þá fulltrúa sem þeir treysta til að gæta hagsmuna þeirra í Stúdentaráði og í lok næstu viku verður ljóst hverjir munu eiga sæti í nýju Stúdentaráði.
Vaka og Röskva bjóða fram lista á öllum fræðasviðum Háskólans, og sama hversu margir taka þátt í kosningunum er ljóst að 27 af frambjóðendum fylkinganna munu hljóta kosningu. En hvers vegna skiptir máli að kjósa, og hver er eiginlega munurinn á fylkingunum tveimur?
Róum öll í sömu átt
Iðunn Garðarsdóttir.
Fylkingarnar tvær stefna vissulega að sama markmiði: Bættum hag stúdenta. Hagsmunabarátta stúdenta er gríðarlega mikilvæg, og barátta sem spannar mjög vítt svið. Stúdentar eru stór hópur sem eiga ríkra hagsmuna að gæta og það eru þeir sjálfir sem þurfa að gæta þessara hagsmuna. Því er ljóst að við róum öll í sömu átt. Stóra spurningin er hverjum þú treystir best til að komast á áfangastað.
Stúdentar hafa nefnilega alla burði til að vera róttækir og láta í sér heyra. Stúdentafylkingar eiga ekki að hreykja sér af því að vera ópólitískar, heldur einmitt að vera pólitískar því pólitík varðar alla einstaklinga samfélagsins. Stúdentar eiga að fara í setuverkföll, mótmæla og vera leiðandi í umræðunni í samfélaginu.
Stúdentafylkingar eiga að veita stjórnvöldum aðhald
Mikilvægasta hlutverk stúdentafylkinga er að veita stjórnvöldum aðhald. Núverandi ríkisstjórn Íslands er hægristjórn og ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks vinnur markvisst að því að stuðla að ójöfnuði í samfélaginu og vegur þar með að jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins. Rauði þráðurinn í stefnu Röskvu er jafnrétti og fulltrúum Röskvu er óhætt að treysta til að standa vörð um hagsmuni stúdenta og veita ríkisstjórninni aðhald.
Við þurfum Stúdentaráð sem lætur í sér heyra þegar skattar á bækur og matvörur hækka. Við þurfum Stúdentaráð sem beitir sér af hörku fyrir umhverfismálum og femínisma. Við þurfum Stúdentaráð sem veitir stjórnvöldum aðhald. Við þurfum Stúdentaráð sem þorir að láta í sér heyra og er ekki hrætt við að styggja ráðamenn þjóðarinnar. Við þurfum Stúdentaráð sem er ekki hrætt við pólitík. Við þurfum Stúdentaráð sem neitar ekki fyrir tengsl sín við stjórnmálaflokka heldur gengst við þeim. Við þurfum Stúdentaráð sem berst fyrir hagsmunum stúdenta af heilindum.
Þess vegna skiptir máli að kjósa.
Höfundur er laganemi og Háskólaráðsfulltrúi fyrir hönd Röskvu