Þessi fallegi dagur. Hann er mitt uppáhald.
Fáninn blakti tignarlega í ljúfri golu er ég reis úr rekkju. Ég klæddi mig í sparifötin eftir hveraheita sturtu og smurði flatköku með hangikjöti fyrir mig og rósina mína, hana Emblu litlu, áður en við skunduðum taktfast í átt að þjóðhátíðarhöldunum niðri í bæ.
Emblu þykir óskaplega vænt um að vera fín og þar af leiðandi fékk hún að klæðast glænýjum kjól sem glitraði undir silfurfilmu veðurguðanna. Hún er gimsteinninn minn. Á leið okkar að Austurvelli sagði ljúfan:
„Pabbi, má ég verða fjallkonan þegar ég verð stór?“
og ég leyfði henni það.
Ég hélt í hennar litlu hönd og fann hvernig hún varð smám saman spenntari eftir því sem kliðurinn frá ólgandi mannlífinu varð meiri og meiri. Ég keypti handa henni kandífloss sem hún hámaði í sig er ég bar hana á herðum mér fyrir hornið hjá Café París en þá blasti kolsvartur raunveruleikinn við mér.
Í stað fána sá ég skilti, í stað hláturs heyrði ég óvildaröskur,
í stað gleði ríkti glundroði og í stað hátíðar var hatur.
Með tárin falin í augunum og grátstafinn bældan í kverkunum olnbogaði ég mér leið í gegnum mannþröngina til að bera fyrir augu mér hvað fram fór við styttu Jóns heitins Sigurðssonar. Að baki prúðbúinna lögreglumanna stóðu máttarstólpar þjóðarinnar staðfastir sem áður og hnarreistir. Ég fylltist af sorg vegna illsku samlanda minna sem smánuðu þennan dýrðardag og særðu mína elskulegu Emblu. Hún veit vel hverjir gegna hinum mikilvægustu hlutverkum í landi okkar. Hver voru þá skilaboðin sem baulararnir sendu okkar kæru börnum? Að samfélagsþegnar hafi rétt til að hrópa og kalla hvað sem þeim sýnist, hvenær sem er? Hugir barna eru viðkvæmir og því hélt ég þéttingsfast um eyru gæskunnar minnar litlu og varði hennar framtíð.
Þrátt fyrir mótbárur skrílsins lét forsætisráðherrann, sameiningartákn Íslands, engan bilbug á sér finna og glæddi hjörtu allra lífi með áminningu um ágæti vorrar þjóðar og alls þess góða sem hefur gerst. Með stjörnur í augunum horfðum við Embla á manninn stíga úr ræðustól. Á því augnabliki var sem ókyrrðin hafi horfið frá því leiðtoginn minnti okkur á hver er við stjórnvölinn. Að stýra stóru skipi er enginn hægðarleikur og í ólgusjó er best að treysta á skipstjórann. Hann var lýðræðislega kjörinn til að stjórna okkar landi og við skulum gefa honum vinnufrið til stórvirkja.
Þegar síðhærð, mjallhvít fjallkonan tók til síns máls sá ég vonina í augum Emblu og varð samstundis hugsað til komandi aldarafmælis kosningaréttar kvenna. Ég sagði:
„Mundu, Embla mín, að þá skalt þú fagna, unga dama, því það er þinn hátíðardagur. Þá skalt þú ekki voga þér að ræða um það sem slæmt er. Samvinnufús getum við byggt landið með brosi og bjartsýni. Þú skalt líka koma fram með stolti. Fjallkonan þarf ekki að bera búk sinn til að tekið sé mark á henni. Hún er virðingarverð í skrautbúningnum. Í þessu felst lykillinn að velgengni. Fegurðin er leikrit, Embla, brostu þegar myndavélar eru bornar að andliti þínu, syngdu þjóðsönginn þegar stjórnandinn lyftir prikinu og breiddu yfir þig þjóðfánann áður en þú sofnar. Við erum samheldin þjóð sem getur státað sig af áreiðanleika og þrautseigju. Við þekkjum okkar reglur, sitjum þegar sitja skal og klöppum er fögnuður óskast. Ég veiti þér heilræði þessi, Embla mín, í von um að þú gleymir aldrei að okkar verðmætasta eign er sjálfstæðið.“