Fjögur ár eru liðin frá verstu ódæðisverkum sem framin hafa verið í Noregi frá því í síðari heimstyrjöldinni og mannskæðustu hryðjuverkum í rúman áratug í Vestur-Evrópu. Óþarfi er að eyða of mörgum orðum í að rifja upp þá ömurlegu atburði, enda eru þeir flestum líklega enn í fersku minni.
Það sem er mikilvægara að rifja mjög reglulega upp eru viðbrögðin sem Norðmenn sýndu í kjölfarið á árásunum. Strax frá upphafi varð það meginstefið að hatursfullum ofbeldisverkum yrði ekki mætt með hefnd eða hatri heldur, eins og Jens Stoltenberg þáverandi forsætisráðherra sagði í minningarathöfn skömmu eftir árásirnar, yrði þeim mætt með meira lýðræði, opnara samfélagi og meiri mannúð, en aldrei einfeldni.
Fjórum árum síðar hafa Norðmenn líka opnað upplýsingamiðstöð um voðaverðin. Þannig, segja þeir, verður best barist gegn öfgum og hatri fólks eins og Breivik. Með því að upplýsa fólk, með þekkingunni.
Þær raddir eru til sem efast um að eins hefði verið tekið á málunum ef Breivik hefði ekki verið hvítur, kristinn og norskur að uppruna. Og það má heldur ekki gleyma því að fyrst um sinn var ekki vitað hver stóð að baki árásunum, þá var auðvelt að halda þær múslimsk öfgaverk og múslimar í Noregi urðu fyrir aðkasti.
Þrátt fyrir allt tal um innflytjendavanda á Norðurlöndunum kom mesta hættan sem hefur steðjað að almenningi þar undanfarna áratugi nefnilega ekki utan frá.
Þessir atburðir eru því líka áminning um að það sem Anders Breivik var líklega og er; illur, veikur, með ranghugmyndir og öfgaskoðanir, fer ekki eftir kynþætti, húðlit, trú eða öðru slíku.
Þrátt fyrir allt tal um innflytjendavanda á Norðurlöndunum kom mesta hættan sem hefur steðjað að almenningi þar undanfarna áratugi nefnilega ekki utan frá.
Hræðslan
Á Íslandi, rétt eins og annars staðar, er til fólk sem hefur svipaðar skoðanir á fjölmenningu og öðrum trúarbrögðum og Anders Breivik. Það er auðvitað alls ekki samasemmerki á milli þess að hafa þessar skoðanir og þess sem hann gerði - öfgafullar skoðanir eru ekki það sama og öfgafullur verknaður eins og hryðjuverk. En það væri einfeldnislegt að láta eins og það sem gerðist í Noregi gæti ekki gerst á Íslandi, og það er einfeldnislegt að láta eins og hatursfull orðræða gegn útlendingum eða öðrum minnihlutahópum sé skaðlaus í sjálfri sér og geti ekki þróast og orðið að meiru en bara orðræðu.
Íslenskt samfélag verður ekki betra þótt við þöggum þessar raddir niður. Það er ekki eðlilegt að krefjast þess að fjölmiðlar segi ekki frá þeim, enginn er betur settur ef við látum eins og öfgarnir séu ekki til. Það þýðir ekki heldur að það þurfi að gera þeim hátt undir höfði eða virða þær. Við megum og eigum að véfengja þær og gagnrýna. Þannig er best að vinna gegn öfgum – með þekkingunni.
Það þýðir ekki heldur að það þurfi að gera þeim hátt undir höfði eða virða þær. Við megum og eigum að véfengja þær og gagnrýna. Þannig er best að vinna gegn öfgum – með þekkingunni.
Þótt það sé lítill hópur fólks sem gengur svo langt opinberlega á Íslandi að viðurkenna hreina útlendingaandúð og andúð á öðrum kynþáttum eða trúarbrögðum þá er talsvert stærri hópur sem hefur daðrað við skoðanir af þessu tagi, jafnvel undir því yfirskyni að það verði að mega „taka umræðuna.“ Fólk sem segist ekkert á móti innflytjendum, en vill helst bara ekki hafa þá á Íslandi. Fólk sem vill ekki leyfa byggingu mosku og kvartar yfir því að hælisleitendum fjölgi og að fjármunum sé varið í útlendinga. Við höfum jafnvel séð einstaka stjórnmálamenn gefa þessu undir fótinn, líklega í von um atkvæði þeirra hræddu. Við þurfum að spyrna fast við fótum gegn þeirri þróun, því allt í kringum okkur sjáum við stjórnmálaflokka sem nærast á þessu.
Á Íslandi sáum við þetta nú síðast í tengslum við mjög þarfa ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka við kvótaflóttamönnum sem hafa komið til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Þá sprettur upp fólk sem vill að allt verði fullkomið á Íslandi áður en hægt sé að taka við örfáum einstaklingum af þeim milljónum sem eru í sárustu neyð. Það vill „taka umræðuna“ um það.
Alltaf þegar svona lagað gerist verða allir hinir að krefjast þess að umræðan sé upplýst og rökstudd. Það á ekki að leyfa fólki að komast upp með að básúna skoðanir sem byggja á hræðslu og fáfræði. Þaðan af síður skoðanir sem byggja á hatri. Tjáningarfrelsið þýðir ekki að við þurfum að umbera illa upplýstar og illa rökstuddar skoðanir.