Héraðsfréttamiðillinn Feykir, sem þjónar Norðurlandi vestra, fagnaði fjörutíu ára starfsafmæli sínu á árinu. Þrátt fyrir erfiða tíma í Covid-ástandi þjóðarinnar undanfarin misseri, með niðurskurði og aðhaldssemi á ýmsum sviðum, nýtur blaðið góðs af tryggum áskrifendum sem gerir rekstur þess mögulegan og það ber að þakka. Fyrir vikið þarf starfsfólk þess að vera á tánum í efnisöflun og treysta því að lesendur taki þátt með innsendu efni og heilbrigðu aðhaldi. Það tekst ennþá og því lítur Feykir bjartsýnn í framtíðina enda samheldinn hópur sem byggir þennan landshluta þó stundum virðist annað.
Þetta síðasta er nú sagt með smá galsatón. Á Norðurlandi vestra eru nú sjö sveitarfélög, tvö í Skagafirði, fjögur í Austur-Húnavatnssýslu og Vestur-Húnavatnssýslan er undir einu sveitarfélagi. Kosið var í sumar um sameiningu allra sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu eftir sameiningarviðræður og góða kynningu um kosti og galla þess ef héraðið verður eitt sveitarfélag í framtíðinni. Niðurstaðan varð hins vegar sú að tillagan var felld í tveimur sveitarfélögum, Skagabyggð og Skagaströnd, en samþykkt í Húnavatnshreppi og á Blönduósi. Mér vitanlega er ekki búið að greina það á vísindalegan hátt hverjar ástæður hinna neikvæðu voru fyrir því að sameinast ekki sveitungum sínum í suðri en í kjölfarið létu sveitarfélögin Skagabyggð og Skagaströnd gera könnun meðal íbúa sinna um hug þeirra til þess að teknar verði upp formlegar viðræður um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga. Niðurstöður urðu afgerandi á Skagaströnd en einu atkvæði munaði í Skagabyggð. Ekki hefur enn verið ákveðið hvort kjósa skuli um sameiningu þeirra.
Framtíð hinna tveggja, Húnavatnshrepps og Blönduóss, ræðst líklega innan skamms þar sem lagt hefur verið til að atkvæðagreiðsla fari fram laugardaginn 19. febrúar nk. í báðum sveitarfélögunum. Án þess að ætla að gerst einhver spámaður sem mark er á takandi tel ég samt víst að af sameiningu verður.
Skagfirðingar hafa einnig boðað kosningar sama dag en samstarfsnefnd um sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar skilaði af sér greinargerð í haust þar sem fram kemur það álit nefndarinnar að sameining Skagfirðinga í eitt sveitarfélag hafi fleiri kosti en galla.
Ég tel einnig að niðurstöður þeirra kosninga verði á þann veg að sameining verði að veruleika. En það er samt ekki gott að segja. Þessi tvö sveitarfélög hafa áður boðið íbúum sínum að sameinast en á heimasíðu samstarfsnefndarinnar, skagfirdingar.is, kemur fram að þann 8. október 2005 hafi verið kosið um sameiningu en tillagan felld í báðum sveitarfélögum. Þá samþykktu 49,4% íbúa í Svf. Skagafirði tillöguna en 50,6% sem höfnuðu henni en 16,5% samþykktu í Akrahreppi en 83,5% sem höfnuðu. Þá afþakkaði Akrahreppur boð um þátttöku í sameiningarviðræðum Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Skagabyggðar árið 2017.
Það er athygli vert að það eru minnstu sveitarfélögin sem eru hvað mest á móti sameiningu, sveitarfélög án þéttbýlis.
Aukin atvinnutækifæri í þéttbýliskjörnum
Þegar litið er um öxl og reynt að rýna í atvinnumálin á Norðurlandi vestra sýnist mér þau vera í góðum málum. Auðvitað má ástandið vera betra í ferðaþjónustunni en flestir náðu þó að halda sjó í Covid-aðgerðum ríkisstjórnarinnar og heyrst hefur að sumarið hafi bara verið fínt þangað til bylgja númer, ég veit ekki hvað, takmarkaði frelsið á ný. Það er kannski það sem bjargar atvinnugreininni á svæðinu frá háu falli að það er ekki úr háum söðli að detta. Þá meina ég að ferðabransinn er ekki líkt því eins stór og hinum megin jökla og því viðráðanlegra að bregðast við fækkun ferðamanna.
Mikinn uppgang má greina í öllum sveitarfélögunum og þéttbýlin stækka og eflast með nýbyggingum og auknum atvinnutækifærum. Það sem betur mætti fara að mínu mati er afkoma sauðfjárbænda en þeir eru stór hluti íbúa svæðisins og ekki síður mikilvægir en aðrir til að láta landsbyggðina dafna og heilbrigð samfélög fái blómstrað.
Og talandi um heilbrigð samfélög þá þarf að huga að fleiru en atvinnu og lögbundnum innviðum. Íþróttir og fjölbreytt menningarlíf þrífst vel á Norðurlandi vestra. Á Hvammstanga er starfrækt eitthvert áhugaverðasta leikhús landsins, Handbendi brúðuleikhús, sem fengið hefur mikið lof og viðurkenningar fyrir verkefni sín og sýningar. Alþjóðleg brúðulistahátíð var m.a. haldin í haust og vakti mikla lukku. Þá er starfandi í sveitarfélaginu öflugt leikfélag, Leikflokkur Húnaþings vestra, sem hefur sett upp hvert meistarastykkið á fætur öðru, nú síðast, Pétur Pan, í desember. Leikfélag Sauðárkróks hefur lengi starfað, fagnaði 80 ára afmæli sínu í ár, en áður hafði leikflokkur starfað á Sauðárkróki frá árinu 1888 og þess minnst á hátíðisdögum og því talið til elstu áhugamannaleikfélaga landsins. Félagið hélt sínu striki en það setur upp tvær sýningar árlega og náði því einnig nú þrátt fyrir sóttvarnartakmarkanir og ýmsar tilfæringar þeim tengdum. Á Skagaströnd hefur Listamiðstöðin Nes sannað gildi sitt en þar dvelst listafólk alls staðar að úr heiminum og setur mark sitt á stemninguna í bænum með ýmsum uppákomum og athyglisverðum gjörningum. Ekki má skauta framhjá Blönduósi en þar er Heimilisiðnaðarsafnið til húsa og Textílsetur Íslands en þar hefur árið verið viðburðaríkt. Þar er að finna eina stafræna TextílLabið á Íslandi sem leggur fyrst og fremst áherslu á textíl.
Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra aðhyllast heilsueflandi markmið þar sem stefnt er að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Fyrir utan almenna hreyfingu íbúa eru stundaðar ýmsar keppnisíþróttir með bærilegum árangri. Körfuboltinn á Króknum er gríðar öflugur, þótt mörgum finnist árangurinn mætti vera betri þar sem Íslandsmeistaratitillinn lætur enn bíða eftir sér. Kröfur stuðningsmanna eru einfaldlega: Komið með bikarinn heim! Kannski vegna þessa metnaðarfulla markmiðs eru vonbrigðin árleg. Haldnir eru úti meistaraflokkar bæði kvenna og karla auk öflugs yngraflokkastarfs. Körfuboltaskóli Norðurlands vestra hefur boðað fagnaðarerindið og haldið námskeið vítt og breitt um héruðin og jafnvel farið í fótspor Sturlunga í Dalina og á Strandir, en nú í friðsömum tilgangi. Golfklúbbur Skagafjarðar fagnaði stórafmæli á síðasta ári og er nú kominn á sextugsaldurinn og starfsemi öflugri sem aldrei fyrr. Raunar er golfáhugi mikill á Norðurlandi vestra má finna fína golfvelli, sem margir gestir sækja.
Skagfirðingar hafa löngum verið frægir fyrir hestamennsku og státa enn af öflugu keppnisfólki í hestaíþróttum. Í Húnavatnssýslunum er ekki síður mikill keppnishugur og margir verðlaunatitlar dreifðust um héruð síðasta sumar.
Skagfirðingar riðu hins vegar ekki feitum hesti í fótboltanum. Karlalið Tindastóls féll með látum niður í 4. deild og konurnar náðu ekki að halda sér í deild hinna bestu. Það var hins vegar sameiginlegt lið Húnavatnssýslnanna tveggja, Kormáks á Hvammstanga og Hvatar á Blönduósi, sem sté upp um deild og leikur því í 3. deild næsta tímabil. Þá má nefna að í Skagafirði er geysilega öflugur frjálsíþróttahópur sem keppir undir merkjum Ungmennasambands Skagafjarðar og hefur náð góðum árangri í helstu keppnum landsins og hefur landslið Íslands notið góðs af.
Nú gæti einhverjum verið orðið bumbult af allri þessari jákvæðni sem hér er talið upp að framan og vilja fara að sjá hið neikvæða við Norðurland vestra. Því miður finn ég ekkert svona í fljótu bragði nema þá helst slæma malarvegi á nokkrum stöðum sem geta á vondum degi verið alveg djöfullegir. Þar er ég algerlega sammála íbúum sem um þá þurfa að fara að ráðast þarf í úrbætur strax, ekki eftir áratug, eins og áætlanir Vegagerðarinnar segja til um. Það er ekki einu sinni hægt að bölva veðrinu eða slæmu sumri. Ég er nú reyndar eins og margir Íslendingar með veðurminni sem nær vart aftur til gærdagsins en sumarið er samt mjög minnisstætt fyrir einmuna blíðu, sól og hlýindi. Ef þetta er afleiðing af hlýnun jarðar um eina og hálfa gráðu er ég sáttur, og þó þær fari í tvær. En hver er að telja? Ekki ég, ég bý í Norðvesturkjördæmi.