Vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á heiminn, mældist atvinnuleysi á Íslandi í febrúar 12,5% eða alls 21.352 einstaklingar. Til þess að bregðast við þessum fordæmalausu aðstæðum hef ég sett af stað verkefni sem miðar að því að hefja hér öfluga viðspyrnu. Í síðustu viku undirritaði ég reglugerð um umfangsmiklar aðgerðir handa atvinnuleitendum og atvinnurekendum. Í kjölfarið settum við af stað sérstakt atvinnuátak undir yfirskriftinni Hefjum störf, en markmiðið með átakinu er að til verði alls 7.000 störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Aðgerðirnar miða að því að koma af stað öflugri viðspyrnu í íslensku samfélagi nú þegar hillir undir lokin á Covid-19 faraldrinum. Auðvitað geta stjórnmálamenn ekki búið beint til 7.000 störf en við getum búið til hvatana fyrir fyrirtækin og stofnanirnar og auðveldað þeim að ná vopnum sínum á ný með markvissum aðgerðum.
Með Hefjum störf er auðveldara fyrir fyrirtækin í landinu, sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök að ráða fólk og búa sig undir bjartari framtíð en þessir aðilar geta ráðið atvinnuleitendur í nýtt starf með ríflegum stuðningi. Þannig geta fyrirtæki sem hafa færri en 70 starfsmenn ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði og hverjum nýjum starfsmanni fylgir allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildar starfsmannafjöldi hefur náð 70. Þá geta fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum nýtt sér ráðningarstyrki sem auðvelda atvinnurekendum að ráða starfsfólk og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eru án atvinnu. Með ráðningarstyrk getur atvinnurekandi fengið fullar grunnatvinnuleysisbætur með hverjum atvinnuleitanda sem hefur verið án vinnu í 30 daga eða lengur í allt að sex mánuði með hverjum nýjum starfsmanni, eða 307.430 krónur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ekkert þak er á fjölda starfsmanna sem fyrirtæki geta ráðið með þessu úrræði.
Þó að Covid-19 faraldurinn hafi varað lengur en við gerðum ráð fyrir þá styttist hann í annan endann. Daginn er tekið að lengja, sífellt fleiri Íslendingar fá bólusetningu og nú hefst viðspyrnan. Við höfum sett af stað gríðarlega stórar aðgerðir fyrir bæði atvinnuleitendur og atvinnulífið sem hjálpa okkur í öflugri viðspyrnu að loknum faraldri. Ég hvet fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök til að nýta þetta úrræði og ráða fólk. Við mætum óvissunni með krafti og bjartsýni og saman keyrum við þetta í gang.
Höfundur er félags- og barnamálaráðherra.