Alexander Briem listamaður.
Ég held að flestir geti verið sammála um að samkennd sé mikilvægur eiginleiki manneskjunnar. Samt sem áður er algeng ábending að stjórnmálamenn skorti samkennd. Ég spyr í einfeldni minni hvort það gæti verið vegna þeirrar einföldu staðreyndar að stjórnmál eru stjórnmál, í orðsins fyllstu merkingu? Þau snúast um að stjórna. Flokkar snúast um samkeppni og stjórnun. Þegar þú vinnur kapphlaupið, færðu að stjórna.
Það er auðvitað engin tilviljun, heldur afleiðing kerfisins sem mótar okkur. Þegar upp er staðið snýst skólakerfið nefnilega um samkeppni, rétt eins og stjórnmál. Í skólakerfinu erum við verðlaunuð fyrir að vinna einkunnakapphlaupið og í stjórnmálum keppum við í hópum. Ef við vinnum kapphlaupið, fáum við völdin. Þrátt fyrir þetta skipulag, virðast margir ekki vilja láta stjórna sér og það er hvorki 100% fylgni á milli menntunar og rökhugsunar né menntunar og peninga, en samt er alltaf verið að hamra á mikilvægi menntunar til að komast sem fremst í lífsgæðakapphlaupinu. Af hverju lítum við til dæmis niður á fólk sem á minni pening en við? Af því að okkur er kennt að það er á eftir okkur í kapphlaupinu. Ég vinn, þú tapar.
Getum við kennt samkennd?
Kannski myndi samfélag manna breytast til hins betra ef fólk fengi meiri áhuga á að gagnrýna. Þá á ég ekki bara við gagnrýni á skóla- og stjórnkerfi, heldur manneskjuna í hinu víðara samhengi. Skoðun og gagnrýni er nefnilega tvennt ólíkt, þó gagnrýni sé vissulega afleiðing skoðunar. Gagnrýni bendir á það sem betur mætti fara og leitar leiða til að bæta það. Því spyr ég: Hvernig getum við hjálpast að við að bæta okkur, sem einstaklingar og samfélag, þegar þessi kerfi, sem við reynum að þrífast í, brjóta samkennd okkar niður með stöðugum samanburði? Manneskjan er breysk, en samt sem áður eiga kerfin mjög erfitt með að viðurkenna það; kerfi sem maðurinn skapaði. Þetta er sársaukafull þversögn. Full aðdáunar fylgjumst við með þeim sem eiga auðvelt með að setja sig í annarra manna spor, af því við heillumst af þessum sammannlega eiginleika sem kerfisbundið er reynt að svæfa.
Fyrirmyndir nemenda eru úr hópi þeirra sem vinna kapphlaupið. Krakkarnir hafa sjaldnast áhuga á því að enda eins og kennarinn þeirra, sem virðist oft lítinn áhuga hafa á að kenna þeim.
Þó svo að við eigum ekki öll auðvelt með að setja okkur í spor stjórnmálamanna og kennara, getum við öll sett okkur í spor nemenda. Fyrirmyndir nemenda eru úr hópi þeirra sem vinna kapphlaupið. Krakkarnir hafa sjaldnast áhuga á því að enda eins og kennarinn þeirra, sem virðist oft lítinn áhuga hafa á að kenna þeim. Sárþreyttur kennari á lágum launum vann ekki lífsgæðakapphlaupið og það sést langar leiðir. Metnaður krakkanna er síðan nýttur sem gulrót til að kenna þeim að það er mikilvægara að vera þægur og muna fyrirframgefnar staðreyndir, til að fá háa einkunn í t.d. íslensku, heldur en að hugsa: "Af hverju er þýðing og stafsetning orðanna þessi? Hvers vegna segi ég og skrifa þetta og hvað meina ég með því? Hver er tilgangurinn með því að vita eitthvað þegar maður skilur það ekki?"
Margföldunaráhrif áhugans
Af hverju ölum við börn okkar upp með það að leiðarljósi að það er mikilvægara að vera þægur en gagnrýna? Við eigum öll rétt á að vera óþæg. Óþægð er mannleg. Fólk verður óþægt þegar því líður ekki vel og að mínu mati er göfugt að láta líðan sína í ljós. Engum líður vel þegar ekki er hlustað og því þarf stundum að beita óþægð. En hvers vegna er ekki hlustað? Af hverju hlustar nemandinn ekki á kennarann? Vegna þess að hann skortir áhuga. Af hverju hlusta stjórnvöld ekki á almenning? Af því að þau hafa ekki áhuga á því. Þetta virðist vera vítahringur sem hverfist um áhugaleysi.
Hvernig sköpum við þá meiri áhuga? Ég spyr af því að það virðist vera fátt um svör. Þeir sem fengið hafa fólk til að öðlast áhuga í gegnum tíðina, virðast einfaldlega sjálfir hafa verið áhugasamari en fólk er flest. Þeir skapa áhuga fólks með því að hafa sjálfir brennandi áhuga á spurningunum sem þeir spyrja. Þeir þrá uppgötvanir, leita stöðugt að þeim og búast við þeim á hverri stundu.
Þegar notendur hafa lært að greina kjarnann frá hisminu, verður internetið að stærsta og mikilvægasta skóla sem búinn hefur verið til.
Uppgötvanir eru nefnilega ávanabindandi. Internetið hjálpar ekki aðeins sannleikanum að komast upp um síðir, heldur býður okkur stanslaust upp á að uppgötva og skapa út frá brennandi áhuga okkar og gagnrýni. Þegar notendur hafa lært að greina kjarnann frá hisminu, verður internetið að stærsta og mikilvægasta skóla sem búinn hefur verið til.
Skólakerfið vannýtir hins vegar margföldunaráhrif áhugans, með því að þvinga að mestu leyti tímabundnum svörum upp á nemendur, í stað þess nýta áhugann sem tól til að spyrja spurninga sem munu leiða af sér margfalt merkari uppgötvanir en þær sem hingað til hafa sprottið upp. Heilar okkar eru í mestri mótun fyrstu áratugi lífsins og þann eiginleika þarf að virkja.
Hvað erum við að gera?
Heimurinn hefur ekki lengur gagn af mannlegum gagnabönkum, heldur þarfnast hann fleiri gagnrýnenda, og hann þarfnast þeirra sem allra fyrst. Skiljanlega er þetta ekki algeng skoðun meðal valdhafa, í ljósi þess að mun auðveldara er að stjórna ógagnrýnu fólki. En hvað ætli gerist ef við hættum að einblína á að allt gangi út á stjórnun einstaklinga eða flokka og byrjum að hlusta á aðra með opnum hug, sama hverjir þeir eru eða hvaðan þeir koma? Höfum við kannski ekki áhuga á því? Erum við jafnvel hrædd við afleiðingarnar sem samkenndin gæti haft í för með sér? Fólki er sagt að flokka ruslið sitt samviskusamlega hér í Lundúnum, en það skiptir í raun litlu eða engu máli af því sorphirðumönnum er sagt að blanda því saman og setja það allt á sama stað. Ég hef séð þetta með berum augum. Það er sárt, en satt.
Mestur árangur næst þegar fólk sameinast um að safna fyrir einhverju eða sinna björgunaraðgerðum.
Mestur árangur næst þegar fólk sameinast um að safna fyrir einhverju eða sinna björgunaraðgerðum. Mér sýnist að í þau skipti sem mestur árangur hefur náðst, hafi það gjarnan verið vegna samkenndar. Auður 85 manna er álíka mikill og eignir helmings mannkyns. Kallast það árangur? Hvernig væri að við, rúmlega 320.000 manna þjóð, reyndum að sýna gott fordæmi?
Fyrst þurfum við þó að spyrja okkur: Hvaða markmiðum viljum við raunverulega ná með skólakerfinu og hvaða markmiðum viljum við raunverulega ná með stjórnmálakerfinu?
Hvað erum við að gera?
Takk fyrir áhugann.